Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson
Aðilar máls sem stóðu að hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni athafnamanni hafa náð samkomulagi um að ljúka málunum með sátt. Um er að ræða Björgólf Thor annars vegar en hins vegar Fiskveiðihlutafélagið Venus hf., Hval hf

Aðilar máls sem stóðu að hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni athafnamanni hafa náð samkomulagi um að ljúka málunum með sátt. Um er að ræða Björgólf Thor annars vegar en hins vegar Fiskveiðihlutafélagið Venus hf., Hval hf. og þrjú hópmálsóknarfélög fyrrverandi hluthafa Landsbanka Íslands. Sáttin felur í sér að Björgólfur Thor greiðir síðarnefndu aðilunum rétt rúmlega einn milljarð króna. Í fréttatilkynningu frá Björgólfi Thor kemur sérstaklega fram að sáttin feli ekki í sér viðurkenningu á sök eða bótaskyldu.

Málið á rætur að rekja til hópmálsóknar gegn Björgólfi Thor sem hófst á árunum 2011-2012. Um 270 einstaklingar og félög áttu aðild að málsókninni, sem byggðist á því að ekki hafi verið rétt greint frá lánveitingum og tengslum Björgólfs Thors við Landsbankann í reikningum bankans og að ekki hafi verið lagt rétt mat á yfirtökuskyldu Samson eignarhaldsfélags, sem var í hans eigu. Málinu var vísað frá með dómi í Hæstarétti árið 2016, en í kjölfarið voru höfðuð ný mál sem hafa verið til meðferðar á öllum dómstigum á undanförnum árum án niðurstöðu.