„Við eigum að nýta allan okkar mannauð og hugsun um jafnrétti í víðum skilningi þess orðs og vera fyrirmyndir,“ segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi.
„Við eigum að nýta allan okkar mannauð og hugsun um jafnrétti í víðum skilningi þess orðs og vera fyrirmyndir,“ segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi. — Morgunblaðið/Eggert
Mér finnst ákaflega mikilvægt að það sé til embætti sem horfir til langs tíma, hjálpar þjóðinni sjálfri að koma að borðinu og móta langtímasýn okkar í stórum og veigamiklum málum.

Forsetaframbjóðandinn Halla Tómasdóttir tók á móti blaðamanni Sunnudagsblaðsins á heimili sínu í miðbæ Reykjavíkur. Eftir að hafa verið með annan fótinn erlendis síðustu ár hafa þau hjónin ákveðið að minnka við sig og flytja miðsvæðis, eldri börnunum til mikillar ánægju, að sögn Höllu. Við setjumst niður og Halla segir frá ástæðum þess að hún ákvað að fara í forsetaframboð og ræðum sýn hennar á embættið og þau málefni sem hún brennur fyrir.

Kann að bretta upp ermar

Halla segir sig ekki hafa grunað þegar hún var yngri að hún myndi fara í forsetaframboð, en bætir við að kvennafrídagurinn árið 1975 hafi haft gríðarleg áhrif á sig og fólk af hennar kynslóð. Annar merkilegur atburður var þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti árið 1980.

„Ég man eftir að hafa hugsað sjö ára að mig langaði að skipta máli,“ segir Halla og minnist þess þegar hún spurði móðursystur sína hvers vegna konur væru í verkfalli þennan haustdag árið 1975. Hún hafi svarað að konur vildu að samfélagið áttaði sig á því að þær skiptu máli. Þegar Vigdís Finnbogadóttir hlaut kjör segist Halla hafa upplifað að Ísland skipti máli vegna þess að þjóðin hafi kosið konu í fyrsta skipti sem forseta í lýðræðislegum kosningum.

„Ég hugsaði ekki sjálf að ég myndi fara í forsetaframboð en ég held að þetta hafi valdeflt mig. Þarna voru allar þessar fyrirmyndir sem sýndu samstöðu og hugrekki og sungu af gleði og jafnrétti. Þetta mótaði mig örugglega og gaf mér þessa tilfinningu að langa að skipta máli.“

Spurð hvaðan leiðtogahæfileikar hennar koma segir hún æsku sína hafa mótað sig og að dugnaðurinn hafi komið snemma fram í henni. Faðir hennar hafði átt erfiða æsku eftir að hafa misst báða foreldra sína ungur, og móðir hennar ólst upp á Djúpavík á Ströndum ásamt níu systkinum og þurfti því að hafa fyrir lífinu.

„Ég hef fengið duglegan skammt af dugnaði frá foreldrum mínum sem þurftu bæði að hafa mikið fyrir sínu og kenndu mér í rauninni að það þarf að hafa fyrir öllu. Dugnaður og athafnasemi kom fram snemma hjá mér en líka umhyggja sem ég lærði af foreldrum mínum. Pabbi fékk lítið af henni og mamma er þroskaþjálfi sem var alltaf að berjast fyrir málefnum fatlaðra,“ segir Halla og bætir því við að hún telji sig ekki vera náttúrulegri leiðtogi en næsti maður en að hún sé manneskja með ríka réttlætiskennd sem brettir upp ermar þegar á þarf að halda.

„Ég er með mjög skýra sýn á hvað mér finnst að Bessastaðir eigi að standa fyrir í okkar samfélagi. Mér finnst ákaflega mikilvægt að það sé til embætti sem horfir til langs tíma, hjálpar þjóðinni sjálfri að koma að borðinu og móta langtímasýn okkar í stórum og veigamiklum málum,“ segir Halla og bætir við að stjórnvöld horfi til fjögurra ára eða jafnvel skemmri tíma, en umbreytingarnar sem samfélagið og heimurinn stendur frammi fyrir í dag hafi miklu lengri tímalínu en það.

Andleg heilsa þarf að vera góð

Halla kveðst hafa mikinn áhuga á andlegri heilsu og hyggst nýta embættið til að vekja athygli á mikilvægi málaflokksins. Bæði brennur hún fyrir andlegri heilsu unga fólksins sem og eldri kynslóðarinnar.

„Ég hef ofboðslega mikinn áhuga á andlegri heilsu fólks og ekki síst unga fólksins. Við erum að sjá rannsóknir sem sýna aukningu á kvíða, þunglyndi, sjálfsskaða og sjálfvígum,“ segir Halla og vill að Bessastaðir fari fyrir kynslóðasamtali þar sem hinir eldri geta deilt visku sinni til þeirra yngri.

„Hjá eldra fólki er einmanaleiki að vaxa mjög mikið. Andleg heilsa er nokkuð sem ég hugsa mikið um því ég held að lykilinn að góðri samfélagsheilsu sé að við séum með góða andlega heilsu og sem forseti myndi ég vilja virkilega leggja áherslu á að hjálpa til við það,“ segir Halla og vill að við skilum betri heimi til barnanna okkar.

Hvernig sérðu fyrir þér að taka þessa sýn inn í embættið?

„Ég myndi annars vegar vilja nýta Bessastaði til að leiða fólk saman til samtals og samstarfs um þessa langtímasýn á grunni þessara gilda okkar. Hins vegar, jafnvel samhliða því, fara fyrir ákveðnu átaki í að bæta andlega heilsu því við þurfum að vera í lagi sjálf til þess að samfélagsleg heilsa okkar sé góð og uppbyggileg svo við getum átt uppbyggilegt samtal og samstarf um framtíðina. Takist okkur að gera það held ég að Ísland geti orðið fyrirmynd,“ segir Halla og vill að Ísland verði fyrirmynd annarra þjóða þegar kemur að því að finna sjálfbærar lausnir við helstu áskorunum heimsins.

„Við eigum að nýta allan okkar mannauð og hugsun um jafnrétti í víðum skilningi þess orðs og vera fyrirmyndir,“ segir Halla og vill einnig að Ísland, sem friðsæl þjóð, vinni að friði í heiminum.

„Ég tel okkur búa yfir mjög miklum styrkleikum sem við getum nýtt til að búa til mjög spennandi tækifæri hér en til að þessi spennandi tækifæri verði til þarf andleg heilsa okkar að vera góð, samfélagsleg heilsa góð og áttavitinn skýr og rétt stilltur.“

Nógu margir sem ala á sundrungu

„Ég held að forseti eigi einfaldlega að vera fulltrúi almennings og þjóðarinnar og fara fyrir grunngildum þjóðarinnar,“ segir Halla.

„Bessastaðir eiga að vera staðurinn þar sem er horft til langs tíma; þar sem samfélagið er byggt upp til lengri tíma litið á grunngildum þjóðarinnar sinnar,“ segir Halla og telur að forseti eigi að nýta málskotsrétt stjórnarskrárinnar ef hann skynjar að verið sé að ganga á skjön við grunngildi þjóðarinnar.

„Það eru alveg nógu margir að öskra hátt í samfélaginu og ala á sundrungu. Ég held að við þurfum forseta sem byggir brýr frekar en að grafa skurði, forseta sem leitar eftir því að fara fyrir vilja þjóðarinnar og lítur á það sem hlutverk sitt að hlusta vel á hana. Ég held að við þurfum forseta sem segir „komum saman, mótum leiðina“, og þá held ég að fólk gangi betur í takt,“ segir Halla og telur að auðmýkt og hugrekki séu kostir sem þjóðin eigi að búa yfir.

„Ég held við þurfum auðmýkt, en líka hugrekki; hugrekki til þess að hugsa margt upp á nýtt í okkar samfélagi þannig að hér líði öllu fólki vel,“ segir Halla og segir þjóðina þurfa forseta sem vill vinna vel með þjóð sinni að bjartari framtíð fyrir alla hópa og kynslóðir þessa samfélags.

Sjálfstætt fólk, pabbi og veiðistöng

Við víkjum nú frá alvarlegum málefnum og snúum okkur að nokkrum persónulegum spurningum sem Halla er til í að svara. Spurð um leyndan hæfileika svarar hún:

„Ég held að ég sé ekki með neinn svona fyndinn leyndan hæfileika en ég er mjög fljót að lesa fólk og sjá hvar styrkleikar þess liggja og ég er stundum búin að því áður en það hefur sagt orð. Það hefur reynst mér vel í lífinu.“

Hvaða manneskju lífs eða liðna myndir þú vilja hitta og leita ráða hjá?

„Ég hugsa að ég myndi velja Mandela og ég þekki marga sem hafa unnið með honum og hef lesið mikið um hann og eftir hann. Mér fannst þessi seigla og styrkur hans til að standa með því sem hann trúði á og geta hans til að fara í gegnum alveg gríðarlega erfiðleika vera þess eðlis að ég myndi vilja eiga samtal við hann. Eins myndi ég vilja nefna pabba. Pabbi fékk krabbamein og dó viku síðar. Hann átti svo erfiða ævi og gat aldrei sagt okkur mikið frá því, ég held að hann hafi þurft að byrgja það inni. Ég væri alveg til í að hitta pabba aftur og fá að eiga samtal núna um allt sem ég náði ekki að spyrja hann um eða læra af.“

Hvaða einu bók, einu kvikmynd, eina mat og einu manneskju tækir þú með á eyðieyju?

„Það er engin spurning hvaða manneskju ég tæki með; eiginmanninn. Ég á besta eiginmann í heimi og get ekki hugsað mér lífið án hans. Bókin væri örugglega Sjálfstætt fólk. Bjartur í Sumarhúsum er karakter úr þeirri bók sem ég held að kenni manni svo margt,“ segir Halla.

„Hvað varðar kvikmynd, ætli það væri ekki Shawshank Redemption því ég gæti horft á hana aftur og aftur. Þar er maður í fangelsi sem þarf að takast á við lífið og vaxa og þroskast í erfiðum ástæðum og vinna með sjálfan sig. Karaktersköpunin í þeirri bíómynd finnst mér alveg frábær,“ segir Halla og segist ekki þurfa mat heldur aðeins veiðistöng.

„Þá gæti ég veitt mér til matar.“