Haag Alþjóðadómstóllinn skipaði Ísraelum að hætta aðgerðum í Rafah.
Haag Alþjóðadómstóllinn skipaði Ísraelum að hætta aðgerðum í Rafah. — AFP/Nick Gammon
Alþjóðadómstóllinn í Haag skipaði í gær Ísraelsríki að stöðva allar hernaðaraðgerðir sínar í Rafah á Gasasvæðinu og að opna aftur landamærastöðina í borginni, sem liggur á landamærum Gasasvæðisins og Egyptalands

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Alþjóðadómstóllinn í Haag skipaði í gær Ísraelsríki að stöðva allar hernaðaraðgerðir sínar í Rafah á Gasasvæðinu og að opna aftur landamærastöðina í borginni, sem liggur á landamærum Gasasvæðisins og Egyptalands.

Sagði í úrskurði dómstólsins að Ísraelar yrðu að stöðva aðgerðir sínar í Rafah þegar í stað, sem og allar aðrar aðgerðir sem gætu skapað Palestínumönnum á Gasasvæðinu lífskjör sem gætu „leitt til eyðingar þeirra í heild eða að hluta til.“ Þá yrðu Ísraelar að hafa landamærastöðina opna, svo að hægt væri að flytja þangað neyðaraðstoð án nokkurra hindrana.

Úrskurðir dómsins eru lagalega bindandi, en dómstóllinn hefur engin úrræði til þess að framfylgja þeim. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, fundaði með ríkisstjórn sinni í gær eftir að niðurstaða dómstólsins lá fyrir til þess að ræða næstu skref. Tzachi Hanegbi, þjóðaröryggisráðgjafi Ísraelsstjórnar, sendi frá sér yfirlýsingu í gær ásamt utanríkisráðuneyti landsins, þar sem því var hafnað að aðgerðir Ísraelshers í Rafah hefðu skapað aðstæður sem gætu leitt til „eyðingar óbreyttra borgara“ að hluta eða í heild.

Sagði Hanegbi jafnframt í yfirlýsingunni að Ísraelsmenn myndu halda landamærum Gasasvæðisins og Egyptalands opnum fyrir neyðaraðstoð, á sama tíma og þeir myndu koma í veg fyrir að hryðjuverkasamtök næðu yfirráðum yfir landamærunum.

Úrskurðurinn féll í máli sem Suður-Afríka höfðaði fyrir dómstólnum á síðasta ári, en þar sökuðu Suður-Afríkumenn Ísraela um að brjóta gegn sáttmála SÞ um þjóðarmorð. Sagði í yfirlýsingu Hanegbis að ásakanir Suður-Afríku væru „rangar, svívirðilegar og siðferðilega viðurstyggilegar.“

Kalla eftir lausn gíslanna

Dómstóllinn kallaði einnig eftir því að hryðjuverkasamtökin Hamas og önnur samtök vígamanna á Gasasvæðinu myndu sleppa þeim gíslum sem þau tóku hinn 7. október síðastliðinn. Sagði í niðurstöðu dómstólsins að hann hefði þungar áhyggjur af því að margir þeirra sem hefðu verið teknir í gíslingu væru enn í haldi.

Fyrr um daginn tilkynnti Ísraelsher að hann hefði fundið lík þriggja af gíslunum á föstudaginn. Sagði í yfirlýsingu hersins að mennirnir þrír hefðu allir verið myrtir hinn 7. október og lík þeirra tekin til Gasasvæðisins.

Herinn fann í síðustu viku lík fjögurra gísla, sem geymd voru í undirgöngum í Jabalia-borg. Gerði herinn nokkrar rassíur í borginni í gær og sagði í yfirlýsingu hans að fjöldi hryðjuverkamanna hefði verið felldur í aðgerðum hersins í gær.

Benny Gantz, ráðherra í þjóðstjórn Ísraels, sagði í gær að Ísraelsmenn myndu berjast áfram til þess að tryggja lausn þeirra gísla sem eftir væru, sem og öryggi allra ríkisborgara Ísraelsríkis.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson