Magnea Einarsdóttir og Anita Hirlekar í verslun sinni.
Magnea Einarsdóttir og Anita Hirlekar í verslun sinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hér heima fær maður aðeins að brjóta reglurnar, þróa það sem maður vill gera og nýta það sem maður hefur lært.

Magnea Einarsdóttir og Anita Hirlekar eru eigendur nýrrar verslunar á Kolagötu 1 við Hafnartorg þar sem þær selja eigin fatalínu sem þær hanna hvor í sínu lagi undir tveimur aðskildum merkjum.

Magnea hefur sérhæft sig í prjóni og vinnur mikið með íslenska ull, gerir peysur og yfirhafnir. „Ég prjóna prufurnar sjálf hér heima og læt síðan framleiða fyrir mig bæði hér á landi og erlendis. Í prufuvinnunni blanda ég saman litum og aðferðum, mikið í höndum en líka í prjónavél.“

Anita hefur sérhæft sig í munsturgerð og prenti. „Ég handmála og handteikna munstrin, vinn út frá teikningum og legg áherslu á kvenleg snið. Hönnunin er að stórum hlutum kjólar. Ég vinn mikið með áferðir og liti og munstrin eru abstrakt blómateikningar. Efnin eru digital-prentuð í takmörkuðu upplagi þannig að engar flíkur eru eins.“

Þær kynntust í Central St Martins í London þar sem þær stunduðu báðar nám. „Við erum búnar að þekkjast lengi, kynntumst í náminu og höfum svipaða sýn á það hvert við viljum fara, hvað við viljum gera og hvernig eigi að nálgast hönnunarferlið og samtalið við kúnnann. Lokapunkturinn er sín hvor varan. Vörurnar okkar eru ólíkar en tala skemmtilega saman út frá áherslum á textílinn sem er unninn frá grunni af okkur sjálfum. Við hugum að sjálfbærni í okkar hönnun og höfum báðar notast við íslensk hráefni,“ segir Magnea.

Tilnefndar til verðlauna

Þær hafa verið tilnefndar til virtra verðlauna fyrir hönnun sína bæði hér á landi og erlendis. Magnea vann um tíma fyrir Ralph Lauren og hefur sýnt hönnun sína erlendis. Anita var í starfsnámi hjá Christian Dior í París og hjá Diane von Furstenberg í New York og vann fyrir Bulgari á Ítalíu. Þær hafa fengið umfjöllun í erlendum fjölmiðlum á borð við Vogue fyrir hönnun sína.

„Við Magnea vorum lengi í námi og starfsnámi erlendis. Ferill okkar hófst erlendis og svo komum við heim,“ segir Anita. „Hér heima fær maður aðeins að brjóta reglurnar, þróa það sem maður vill gera og nýta það sem maður hefur lært.“

„Þegar ég fór út í nám þá langaði mig til að vinna erlendis í þessum geira, en þegar maður hefur kynnst því þá leitar hugurinn heim. Hérna fær maður meira frelsi og getur verið meiri listamaður,“ segir Magnea.

Vinna nýja línu í sameiningu

Á dögunum hlutu þær hæsta styrk sem Hönnunarsjóður hefur úthlutað frá upphafi. „Styrkurinn fer í að þróa nýja línu sem við vinnum í sameiningu. Við erum komnar með skýra sýn á það sem við erum að gera. Nú er tækifæri til að gera eitthvað nýtt en halda um leið í okkar sérkenni,“ segja þær.

Von er á fyrstu flíkunum í þessu nýja vörumerki með haustinu. Þær stöllur eru með þá hugmynd að fara með nýju línuna til útlanda, auk þess að selja hana hér á landi, og stefna á Danmörku.