„Maður tekst á við mistök með því að segja „þetta geri ég aldrei aftur“, eða bara að læra af þeim, og ég valdi seinni kostinn,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi.
„Maður tekst á við mistök með því að segja „þetta geri ég aldrei aftur“, eða bara að læra af þeim, og ég valdi seinni kostinn,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Aðalsmerki íslensks samfélags er þátttaka og samheldni. Ég vil líka gera að umtalsefni íslenska menningu, tungu og sögu.

Kaldir vindar blása um miðbæinn og því gott að komast inn í hlýjuna í kosningaskrifstofu Katrínar Jakobsdóttur sem staðið hefur vaktina í pólitík í sautján ár; sem formaður VG, alþingismaður og ráðherra. Katrín mætir skömmu síðar, gengur rösklega inn og heilsar með virktum. Yfir heitu kaffi spjöllum við um fortíðina, framtíðina og reynsluna sem leiddu hana að þessari ákvörðun; að bjóða sig fram til embættis forseta lýðveldisins.

Hvorki skurðlæknir né poppstjarna

Katrín er alin upp í blokk í Álfheimunum og kann enn best við sig í blokk, enda er hún nægjusöm og kann vel við að eiga góða granna. Hún er yngst af fjórum systkinum.

„Bræður mínir eru tvíburar og urðu landsþekktir fyrir þátttöku sína í Gettu betur, sem mér fannst gríðarlega vandræðalegt á þeim tíma. Svo á ég eldri systur sem útskrifaðist úr menntaskóla þegar ég var sex ára,“ segir Katrín, en faðir hennar var stærðfræðikennari, síðar bankamaður, og móðir hennar barnasálfræðingur.

„Við vorum samrýnd og samhent fjölskylda og borðuðum saman öll kvöld. Ég var rosalega bókhneigð og dvaldi löngum stundum á Sólheimabókasafninu og las svakalega mikið. Það var gert grín að mér í hverfinu, góðlátlegt grín. Ætli ég hafi ekki þótt vera „prófessor“,“ segir hún og hlær.

„Við vorum alin upp í því að hafa trú á sjálfum okkur,“ segir Katrín og segist hafa verið vel liðin af skólafélögum en ekki félagslynd framan af. Það hafi komið síðar á unglingsárunum.

„Ég hef verið þannig frá fyrstu tíð að mér hefur aldrei fallið verk úr hendi. Sem barn teiknaði ég mikið og las og gat dundað mér út í eitt. Ég var mikið í eigin heimi og las allar glæpasögur fyrir börn; Enid Blyton og Nancy Drew og síðar Agötu Christie og var heilluð af þessum heimi.“

Þjóðmálin voru gjarnan rædd á heimili Katrínar og mikið rökrætt.

„Það var mikið rætt um þjóðmálin og það var horft á fréttir,“ segir Katrín og segir Vigdísi forseta klárlega hafa verið fyrirmynd hennar og annarra stúlkna.

„Hún gerði það að verkum að stelpum fannst þeim allir vegir færir,“ segir Katrín, en segist ekki hafa hugsað út í það sem barn að verða forseti.

„Ég ætlaði að verða skurðlæknir og, ef það myndi ekki ganga, poppstjarna. Hvorugt gekk upp, enda langaði mig ekkert að verða læknir og var alveg hæfileikalaus sem söngkona,“ segir hún og skellir upp úr.

Lærdómur úr hruninu mótaði mig

Ekki hefur Katrín farið varhluta af áföllum og erfiðleikum í lífinu.

„Foreldrar mínir eru bæði dáin, fyrst pabbi þegar ég var tvítug en hann var aðeins 57 ára og lést mjög snögglega, eftir stutt veikindi. Þá stökk ég úr því að vera barn yfir í að vera fullorðin, nánast yfir nótt. Svo dó mamma rúmlega sjötug þegar ég var komin á þing, nýbúin að eignast minn þriðja og yngsta son. Hún dó úr krabbameini sem er tengt við asbest sem hún hafði líklega komist í snertingu við þegar hún vann í verksmiðju í Danmörku,“ segir Katrín og telur að áföllin hafi mótað sig sem manneskju.

„Það mótaði mig líka að vera á Alþingi eftir hrun. Aldeilis, enda enginn eðlilegur tími! Mörgu hefur maður lent í, eins og heimsfaraldri, en þessi reynsla og lærdómurinn úr hruninu gerði það að verkum að mér leið eins og ég væri betur í stakk búin til að takast á við faraldurinn og önnur þau áföll sem ég hef þurft að takast á við í mínum störfum.“

Katrín er menntuð í íslensku og íslenskum bókmenntum en fór smátt og smátt út í pólitíkina. Spurð hvort hún hafi stefnt á íslenskukennslu í upphafi svarar hún:

„Ég hef aldrei gert langtímaplön, en brenn fyrir íslenskunni. En ég var dregin út í háskólapólitík og hef alltaf haft mikinn áhuga á menntamálum,“ segir Katrín og segir að eitt hafi leitt af öðru og áður en varði sat hún á þingi.

Óvænt verkefni og rússíbanareið

„Ég sá ekki fyrir að þetta yrði ferill heldur vildi taka þátt, vera í stemningunni og bera út bæklinga. Byrjaði þannig í Reykjavíkurlistanum og var svo fengin inn í VG og varð kosningastjóri og var það mikið ævintýri. Talandi um eitthvað sem mótar mann, þá gerði ég þar öll mistökin í bókinni,“ segir hún og hlær.

„Maður tekst á við mistök með því að segja „þetta geri ég aldrei aftur“, eða bara að læra af þeim, og ég valdi seinni kostinn,“ segir Katrín og endaði á að vera kosin á þing árið 2007, rétt fyrir hrun.

„Ég var kjörin, fer í fæðingarorlof og daginn sem ég kom til baka var ég beðin að fara upp í Seðlabanka vegna hruns Íslandsbanka. Þetta var eins og að fá högg í andlitið. Þarna varð skyndileg umbreyting á mínu lífi, en ég kom beint úr sófanum heima þar sem ég hafði verið í kósígallanum,“ segir Katrín, en var klár í slaginn. Hún varð svo ráðherra vorið eftir, árið 2009, og síðar formaður VG.

„Ég hef fengið mörg óvænt verkefni og kannski hægt að segja að þetta hafi verið rússíbanareið.“

Sem stjórnmálamaður, og nú forsetaframbjóðandi, lendir þú oft í gagnrýni. Hvernig tekstu á við það?

„Ef maður velur að stökkva frekar en hrökkva, þá verður maður að átta sig á að því getur fylgt töluverð skothríð. Ég hef alltaf verið þannig að ef ég þarf að velja um að gera eitthvað eða sleppa því, þá vel ég að gera það.“

Forsetinn ekki í valdaembætti

Við snúum okkur að nútíðinni og því embætti sem hún sækist nú eftir, en Katrín hefur skýra sýn á hlutverk forsetans og embættið.

„Sem Íslendingi hefur mér alltaf þótt vænt um þetta embætti. Formlegt hlutverk forseta og embættið er skilgreint í stjórnarskrá og mikið hefur verið rætt um málskotsréttinn og stjórnarmyndun og annað slíkt sem kallar á atbeina forseta. En síðan hefur forsetinn ýmsum öðrum hlutverkum að gegna en því sem kveðið er á um í stjórnarskrá. Hann hefur mikilvægu hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi sem fulltrúi íslensks atvinnulífs, íþróttalífs, menningar- og listalífs og samfélagsins alls. Forseti þarf að geta tekið upp símann ef á þarf að halda til að verja hagsmuni Íslands. Ekki síst á forseti að tala fyrir þeim gildum sem við stöndum fyrir í samfélagi þjóðanna; lýðræði, mannréttindum, jafnrétti og friðsamlegum lausnum. Vitandi af reynslu hvað miklu máli skiptir að slíkar raddir heyrast á alþjóðlegum vettvangi, þá myndi ég segja að forseti Íslands ætti að vera sterkur talsmaður þessara gilda,“ segir hún og bætir svo við að forsetinn hafi síðast en ekki síst mikilvægu hlutverki að gegna innanlands.

„Ég hef skilgreint forseta sem sameinandi afl, frekar en sameiningartákn. Forsetinn þarf að sýna það í verki að hann er tilbúinn að hitta fólk á sínum heimavelli, hringinn í kringum landið. Hann þarf líka að hitta kynslóðirnar og ræða við unga sem aldna. Svo er samfélagið fjölbreyttara en áður þar sem hátt í tuttugu prósent þjóðarinnar er af erlendum uppruna, og forsetinn þarf líka að mæta þeim,“ segir hún og vill að forseti hvetji til þátttöku fólks í samfélaginu.

„Aðalsmerki íslensks samfélags er þátttaka og samheldni. Ég vil líka gera að umtalsefni íslenska menningu, tungu og sögu. Tungumálið er svo þéttofið tilvist okkar,“ segir Katrín og telur að forseti geti hvatt til góðra verka til varðveislu tungunnar.

„Því forsetaembættið er ekki valdaembætti heldur áhrifaembætti.“

Tæki með egg, Njálu og Zoolander

Við snúum okkur að léttmeti í lokin og blaðamaður biður Katrínu að íhuga hvort hún búi yfir leyndum hæfileika.

„Það er nú gaman að segja frá því að í gamla daga var ég góð hannyrðakona! Eftir mig liggja ýmsir jóladúkar og fleira sem enginn veit um.“

Hvaða manneskju, lífs eða liðna, myndir þú vilja hitta og leita ráða hjá?

„Ég er nefnd eftir konu sem hét Katrín Thoroddsen og var læknir og hafði einnig afskipti af stjórnmálum. Ég hefði gjarnan viljað hitta hana.“

Hvaða manneskju, bók, kvikmynd og mat tækir þú með á eyðieyju?

„Ég tæki náttúrlega manninn minn. Svo tæki ég Njálu því það er hægt að lesa hana aftur og aftur. Ég myndi taka grínmynd til að bugast ekki á eyðieyjunni, kannski Zoolander eða Naked Gun. Varðandi matinn tæki ég með egg af því að þau eru prótíngjafi og hægt að búa til svo margt úr þeim. Vonandi finnast einhverjar jurtir þarna til að krydda með!“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir