Ákvörðun um að reisa unglingaskóla í Laugardal fellur í grýttan jarðveg

Árið 2022 var ákveðið að byggt yrði við grunnskólana þrjá í Laugardalnum, Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla. Nú hafa ráðamenn í Reykjavíkurborg hins vegar ákveðið að snúa þeirri ákvörðun við og reisa nýjan unglingaskóla í hverfinu.

Þessi ákvörðun kemur flatt upp á íbúa í hverfinu og skólayfirvöld í skólunum þremur.

Grétar Már Axelsson, gjaldkeri foreldrafélags Laugarnesskóla, segir í viðtali í Morgunblaðinu í gær að þessi ákvörðun sé illa rökstudd. Borgaryfirvöld séu að snúa góðri ákvörðun yfir í vonda og sýni að þau hafi ekkert gert í málinu í tvö ár. Hann gefur þessari stjórnsýslu falleinkunn og segir hana lítilsvirðingu við íbúalýðræði og samráð.

Í blaðinu í gær var einnig rætt við Björn Gunnlaugsson skólastjóra Laugarnesskóla, sem nefndi að borgarstjóri hefði sagt að síðan ákvörðunin var tekin 2022 hefði komið í ljós að flókið væri að stækka skólana þrjá og halda starfseminni í þeim öllum gangandi á sama tíma. Sagði hann að margir sem hlýtt hefðu á væru ósammála um það og vildu nánari skýringar á því í hverju þessi ómöguleiki fælist.

Svo virðist sem hjá borginni hafi menn ætlað að vanda til verka í upphafi og fundið niðurstöðu sem sátt var um. Málið hafi síðan fengið að liggja í láginni um skeið þar til allt í einu uppgötvaðist að sú leið sem ákveðið hafði verið að fara kynni að reynast flókin. Þá var ekki lagt í nýtt samráð – eða bara spurt hvort leiðir væru fram hjá ómöguleikanum – heldur einfaldlega skipt um kúrs öllum að óvörum.

Þessi vinnubrögð hjá borginni eru ekki til eftirbreytni.