Skoðanakannanir gefa að vísu ekki alltaf góða mynd af heildinni – eins og sjá má af þessari aðsendu grein Jónu Sigurðardóttur frá 10. júní 1980.
Skoðanakannanir gefa að vísu ekki alltaf góða mynd af heildinni – eins og sjá má af þessari aðsendu grein Jónu Sigurðardóttur frá 10. júní 1980.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skömmu eftir að Ólafur Kárason sér hina ljóshærðu stúlku í bláum kjól í fiskreitnum áttar hann sig á að þetta muni vera Jóa, dóttir Hjartar í Veghúsum, sem hann var nýbúinn að yrkja ástarljóð til fyrir Jens Færeying

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Skömmu eftir að Ólafur Kárason sér hina ljóshærðu stúlku í bláum kjól í fiskreitnum áttar hann sig á að þetta muni vera Jóa, dóttir Hjartar í Veghúsum, sem hann var nýbúinn að yrkja ástarljóð til fyrir Jens Færeying. Það tókst svo vel að hún bað skáldið að yrkja annað ljóð til baka fyrir sig. Þetta er nokkur vandi fyrir Ólaf því hann er nú sjálfur fallinn fyrir henni. Jóa vitjar þó ekki kvæðisins enda farin að stofna erfiðismannafélag og berjast gegn svikaþingmanninum „Júel Júel sem rekur landhelgisnjósnir fyrir útlend togarafélög“ með aðstoð Péturs Þríhross og dulmálsskeyta um heilsufar ömmunnar sem birtist líka á andafundum í Sálvísindafélagi Péturs. Heitkonan Jarþrúður geisar á móti og talar „um atvinnuvegina, sanna íslendínga og sigur hins góða“.

Varnarlaust skáldið segist þá eiga erindi upp í fjall og það rifjast upp hvernig ungu stúlkurnar sem það kenndi kristindóm trufluðu samband þeirra Jarþrúðar, ekki síst átján ára stúlkan af hinum bænum með svör sem áttu „blóðsins heita hraða“ (sýnir rittengsl við kvæði Jóns Helgasonar Lestin brunar; hvor þeirra sem varð fyrri til). Stúlkan sú rennir sér með skáldinu á svelli í tunglsljósinu þegar heitkonan kemur að og talar höstuglega um að „heilsulausum manni væri nær að fara inn að hátta en láta fíflalátum um rauðanótt með fólki sem hann vissi eingin deili á“. Og þá svarar stúlkan með hinni óborganlegu spurningu: „Er ég fólk?“

Önnur minning er um Stínu sem Ólafur fylgdi heim, bar fyrir hana „þúngan poka“ og leiddi „við arm sér“: „Hvaða manneskjur ert þú að leiða fyrir utan garð um miðjan dag? spurði Jarþrúður. Manneskjur, sagði hann. Það voru eingar manneskjur. Það var bara ein spurníngastelpa.“

Frá þessu er sagt í aðdraganda þess að Pétur Pálsson Þríhross festir upp auglýsingu á símastaurnum um stofnfund Sannra Íslendínga á Sviðinsvík þar sem hin norrænu víkingagildi verði upphafin en írskir þrælar hrópaðir niður, menn hvattir til að vernda þjóðerni sitt, fara í stríð við Dani og Rússa, og ekki síst: muna „að halda árunni hreinni“. Um leið notar PP tækifærið til að auglýsa meðalalýsi og fjörefniskúlur til sölu.

Í Húsi skáldsins frá 1939 speglar smáþorp á hjara veraldar allan heiminn, líkt og þegar þúsund manna úrtak segir fyrir um niðurstöður kosninga þar sem hátt á þriðja hundrað þúsund er á kjörskrá. Skáldskapurinn magnar hversdagslega viðburði og aðstæður upp, oft með líkindum við tilfinningar sem liggja undir í öðrum verkum; í Svipþingi Sveins Skorra óma örlög Rómeós og Júlíu undir ástarsögu úr Kinninni fyrir norðan, og þegar höfundur Laxdælu skrifaði um ástir Dalastúlkunnar Guðrúnar Ósvífursdóttur lét hann þær kallast á við hjónabönd nöfnu hennar Gjúkadóttur í hetjukvæðum Eddu. Gallinn er sá að það er ekki nema einn og einn maður sem áttar sig á að það eru að gerast sögur í kringum hann.