Grímur Þ. Valdimarsson
Grímur Þ. Valdimarsson
Þess vegna fær Katrín Jakobsdóttir atkvæði mitt til að gegna embætti forseta Íslands.

Grímur Þ. Valdimarsson

Árið 1998 fór Ólafur Ragnar Grímsson í opinbera heimsókn til Ítalíu. Hann heimsótti m.a. stofnunina sem ég starfaði þá fyrir, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm, FAO. Þar varð til hugmynd um að halda alþjóðaráðstefnu í Reykjavík um nýtingu sjávarauðlinda. Sú ráðstefna var haldin í Háskólabíói 1.-4. október 2001 með yfir 400 þátttakendum. Nú, 23 árum síðar, eru menn sammála um að þessi ráðstefna og „Reykjavíkuryfirlýsingin“ hafi lagt grunninn að „vistkerfisnálgun“ við nýtingu lifandi auðlinda hafsins.

Í kjölfar áðurnefndrar heimsóknar forsetans fékk Ólafur Ragnar boð um að koma aftur til höfuðstöðva FAO í Róm og halda erindi á sal fyrir starfsfólk og diplómata. Það gerði Ólafur með þeim glæsibrag að hinir lífsreyndu búrókratar í salnum fengu blik í auga og mikið var klappað. Á þeim bæ þarf nokkuð til að hreyfa þannig við áheyrendum. Það var gaman að vera Íslendingur í þeim sal. Lengi á eftir var ég stöðvaður á göngum FAO og spurður: „Hver er hann eiginlega þessi forseti ykkar? Getur það verið að hann sé bara af venjulegu fólki kominn?“

Eftir þessa ræðu á sal, mitt í undirbúningi Reykjavíkurráðstefnunnar, fékk Ísland rauða dregilinn og mitt starf við skipulagninguna varð auðvelt. Allar dyr voru opnar. Ég hef verið að máta forsetakandídatana við þennan viðburð. Hverjir þeirra gætu framkallað þessi áhrif, þessa stemningu og velvilja. Það eina sem ég veit með vissu er að Katrín Jakobsdóttir hefur margoft sýnt slíka hæfileika, sem fáum eru gefnir. Þess vegna fær Katrín Jakobsdóttir atkvæði mitt til að gegna embætti forseta Íslands.

Höfundur var forstjóri fiskiðnaðarsviðs Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) í Róm 1997-2010.