Fjölskyldan Frá vinstri: Erla Rún, Pétur Björn, Unnur, Pétur Rúnar, Kári Björn og Lilja Karitas í bakgarðinum heima í Garðabæ.
Fjölskyldan Frá vinstri: Erla Rún, Pétur Björn, Unnur, Pétur Rúnar, Kári Björn og Lilja Karitas í bakgarðinum heima í Garðabæ.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnur Birna Vilhjálmsdóttir fæddist á fæðingardeild Landspítalands 25. maí 1984. Hún var skírð í höfuðið á ömmu sinni og afa, Jórunni (Unnu) Karlsdóttur kjólameistara og Birni Thors, blaðamanni á Morgunblaðinu

Unnur Birna Vilhjálmsdóttir fæddist á fæðingardeild Landspítalands 25. maí 1984. Hún var skírð í höfuðið á ömmu sinni og afa, Jórunni (Unnu) Karlsdóttur kjólameistara og Birni Thors, blaðamanni á Morgunblaðinu.

Fyrstu árin bjó Unnur á Miðbraut á Seltjarnarnesi en síðar í Bollagörðum. Æskuárunum eyddi hún á Seltjarnarnesinu við leik uppi á holti og í fjörunni við Gróttu. Á þeim tíma var nesið enn í uppbyggingu og hestar á beit og hey bundið í bagga á túnum inn á milli nýbygginga. „Ég átti hin fullkomnu æskuár á Seltjarnarnesinu þar sem vinahópurinn var stór og ímyndunaraflið óstöðvandi.“ Hún æfði fimleika og ballett af kappi auk þess að sækja píanótíma og stunda hestamennsku með fjölskyldunni.

Unnur gekk í Mýrarhúsaskóla og síðar Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi en á fjórtánda aldursári Unnar fluttist fjölskyldan búferlum í Árbæinn til þess að vera nær hesthúsunum. Unnur hóf nám í Árbæjarskóla þaðan sem leiðin lá í Menntaskólann við Sund. Unnur var virk í öllu félagsstarfi og leiklist á grunn- og menntaskólaárunum, hún kenndi dans hjá Dansskóla Birnu Björns og æfði sjálf af kappi bæði í Jazzballettskóla Báru (JSB) og Dansskóla Birnu Björns. Þá lék hún og dansaði í uppfærslu Loftkastalans á leikritinu Bugsy Malone, í leikstjórn Baltasars Kormáks. Sú uppfærsla var í sýningu í hátt í tvö ár og náði langt yfir hundrað sýningum. Öllum lausum stundum eyddi hún svo í hesthúsinu, bæði við útreiðar og keppni.

Snemma árs 2005 lést móðuramma Unnar, Jórunn, sem starfað hafði sem kjólameistari og saumað kjóla til margra ára m.a. fyrir stúlkur sem tóku þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland. Unnur, sem þó hafði lítinn áhuga, lofaði ömmu sinni á dánarbeðinum að taka þátt í keppninni, í kjól frá henni, en það hafði verið ósk ömmu hennar lengi. Unnur var kjörin Ungfrú Reykjavík, Ungfrú Ísland og í desember sama ár Ungfrú Heimur en sú keppni var haldin á eyjunni Hainan í Kína. Unnur starfaði fyrir Miss World Ltd. og dvaldi meira og minna í Bretlandi allt árið 2006, ásamt því að ferðast víða, m.a. til Bandaríkjanna, Suður-Ameríku, Indlands og oftar en einu sinni til Kína.

Í framhaldinu starfaði Unnur við dagskrárgerð í sjónvarpi, stýrði sjónvarpsþáttum fyrir Stöð 2/Sagafilm auk þess að vinna að þáttagerð fyrir RÚV er tengdist íslenska hestinum. Unnur lék jafnframt í tveimur bíómyndum og tók að sér ýmis verkefni, hvort heldur sem var í framkomu eða góðgerðarstörfum, samhliða því að leggja stund á nám í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík. Þá starfaði Unnur á vegum utanríkisráðuneytisins og bjó í Shanghai meirihluta árs 2010, sem kynningar- og viðburðastjóri á Heimssýningunni 2010 (EXPO 2010). Þar setti hún upp hljóð- og myndlistarsýningu, stóð fyrir tónleikum með íslenskum listamönnum, m.a. KK og Ólafi Arnalds, ráðstefnu um orkumál, auk þess að halda utan um dagskrá og fjöldamarga blaðamannafundi vegna heimsóknar forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, og annarra íslenskra ráðamanna.

Unnur kynntist manninum sínum, Pétri Rúnari Heimissyni, haustið 2009 í gegnum sameiginlega vini. Þeirra fyrsta barn, Erla Rún, kom í heiminn í júní 2011 og ári síðar útskrifaðist Unnur með meistarapróf í lögfræði úr Háskólanum í Reykjavík. Unnur hóf störf á lögmannsstofu og lauk prófi til að öðlast málflutningsréttindi til þess að flytja mál fyrir héraðsdómstólum haustið 2012. Unnur starfaði við lögmennsku í sex ár og flutti á þriðja tug mála í héraði.

Árið 2018 bætti Unnur við sig námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og réð sig í framhaldinu í stöðu lögfræðings á skrifstofu forstjóra og ritara stjórnar Valitor, þá dótturfélags Arion banka. Unnur starfaði hjá Valitor í nokkur ár en í gegnum útrás og tengsl Valitor í Bretlandi bauðst henni síðar staða yfirlögfræðings hjá breska fjártæknifélaginu Omnio, sem krafðist reglulegra ferðalaga utan en skrifstofur félagsins eru í London. „Tíminn hjá Omnio var afar krefjandi og skemmtilegur enda London mín borg, þar sem ég hef bæði dvalið til lengri og skemmri tíma vegna vinnu og annarra ferðalaga.“

Í dag starfar Unnur sem lögfræðingur hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Controlant en sérþekking hennar liggur á sviði stjórnarhátta og samningagerðar, þrátt fyrir að hún geti og þurfi að geta snert á öllum sviðum lögfræðinnar eins og flestir aðrir íslenskir „innanhússlögfræðingar“.

Áhugamál Unnar eru ferðalög og jógaiðkun, samvera með fjölskyldunni og einna helst í sveit fjölskyldunnar á Brekkum í Fljótshlíð (gamla Hvolhreppi) á Suðurlandi. „Þar vil ég helst vera og ekki verra ef tímanum þar er varið með föðurforeldrum mínum, sem ég er afar náin, þeim Erlu Vilhjálmsdóttur og Skúla Jóhannessyni,“ en þau ráku verslunina Tékk Kristal um 50 ára skeið.

Fjölskylda

Eiginmaður Unnar er Pétur Rúnar Heimisson, f. 15.2. 1984, markaðs- og samskiptastjóri hjá fasteignafélaginu Regin. Hann er uppalinn í Garðabænum þar sem Unnur og Pétur hafa búið sér og börnum sínum fjórum heimili. Unnur og Pétur giftu sig í Breiðabólastaðarkirkju í Fljótshlíð hinn 26. júlí 2014 og héldu veislu í gamla fjósinu á Brekkum. Þau eiga því 10 ára brúðkaupsafmæli í sumar.

Foreldrar Péturs Rúnars eru Lilja Pétursdóttir, sem starfaði á leikskólum í Garðabæ í hátt í 40 ár, f. 15.2. 1954, og Heimir Sigurðsson rafvirki, f. 19.7. 1951.

Börn Unnar og Péturs eru Lilja Karitas, f. 2007 (móðir Ingibjörg E. Viðarsdóttir), Erla Rún, f. 2011, Pétur Björn, f. 2014, og Kári Björn, f. 2020.

Systkini Unnar eru Steinar Torfi Vilhjálmssson, f, 24.8. 1986, Vilhjálmur Skúli Vilhjálmsson, f, 1.11. 1992, Helga Sóley Ásgeirsdóttir, f. 12.11. 2007 (faðir Ásgeir Jón Ásgeirsson, f. 7.10. 1960), og Skúli Thor Vilhjálmsson, f. 8.4. 2011 (móðir Elsa Jensdóttir, f. 23.10. 1974).

Foreldrar Unnar eru Unnur Steinsson viðskiptafræðingur, f. 27.4. 1963, og Vilhjálmur Skúlason, lögfræðingur og fjármálastjóri Reykjavík Geothermal, f. 6.12. 1962.