Skrautreið Við setningu landsmóts í Víðidal árið 2018. Stórviðburður og allir eru glaðir á góðri stundu.
Skrautreið Við setningu landsmóts í Víðidal árið 2018. Stórviðburður og allir eru glaðir á góðri stundu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hér í Víðidal verður dynjandi hófadynur,“ segir Einar Gíslason, framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna sem Fákur og Sprettur í Kópavogi standa sameiginlega að og verður dagana 1.-7. júlí næstkomandi. Venjan er sú að landsmót sé haldið á tveggja ára fresti og það síðasta var á Hellu 2022. Þar á undan varð messufall í landsmótshaldi vegna heimsfaraldurs og fara þarf þá aftur til ársins 2018, en þá var landsmót síðast haldið í Reykjavík. Því eru á mótssvæðinu allir nauðsynlegir innviðir, sem Einar segir auðvelda allan undirbúning nú.

Hefðir, menning og þörf á landsmóti

Einar segir að menning og hefðir í samfélagi hestamanna séu þannig að raunveruleg þörf sé á landsmóti annað hvert ár. Í bæði þjálfun hesta og hrossarækt sé mikil gróska og nauðsynlegt sé að gera starf á því sviði sýnilegt á landsmóti. Mót séu einnig mikilvæg fyrir þær sakir að þarna hittist fólk, beri saman bækur sínar og hafi gaman.

„Veðráttu stjórnum við auðvitað ekki en hún hefur alltaf mikið að segja um hvernig til tekst með mótin,“ segir Einar. „Á landsmóti hér í Víðidalnum árið 2018 var kalt og dumbungsveður nær allan þann tíma sem mótið stóð. Svo gerðist það eitt kvöldið þegar fólk sat hér í brekkunni og fylgdist með keppni að sólin braust fram úr skýjum og hellti geislum sínum yfir svæðið. Þetta snart áhorfendur sem þá klöppuðu. Þetta var eftirminnilegt andartak.“

Tvískipt dagskrá

Landsmót nú hefst á mánudegi og í upphafi er dagskráin tvískipt. Á kynbótavelli fara fram dómar á hryssum fjögurra, fimm og sex vetra en á aðalvelli er keppni í barna- og unglingaflokkum. Þegar líður lengra fram í vikuna er komið að dómum á stóðhestum og yfirlitssýningum á hryssunum góðu. Svona má áfram áfram halda með dagskrána, en landsmótin eru jafnan með nokkuð föstu sniði. Á föstudegi er meðal annars sýning ræktunarbúa og sýningar á stóðhestum áberandi á laugardeginum. Þann sama dag eru einnig B-úrslit í A- og B-flokki gæðinga og verðlaun fyrir bestu hryssurnar og stóðhestana veitt. Hápunkturinn er svo jafnan á sunnudeginum – í mótslok – þegar keppt er í A-úrslitum í öllum flokkum; hringvallagreinar í íþróttagreinum, barnaflokki, unglingaflokki, ungmennaflokki og A- og B-flokki fullorðinna.

Hrossin betur undirbúin

Einar segir að í kynbótahluta landsmóts megi reikna með að sýnd verði um 170 hross, um 500 í gæðingahlutanum og 150 í íþróttakeppninni. Alls verði því til landsmóts komið með 700-800 hross af vettvangi hestamannafélaga allt í kringum landið. Úrtökur félaganna eru þegar hafnar og standa fram í miðjan júní.

„Ef litið er svo sem tuttugu ár aftur í tímann og myndir í huganum dregnar upp gerir maður sér ljóst hvaða framfarir hafa orðið í hestamennsku á ekki svo ýkja löngum tíma. Reiðmennskan hefur þróast mikið og hrossin eru sömuleiðis sterkari og betur undirbúin. Í kynbótastarfinu eru þá alltaf að koma fram sífellt betri hross, enda er mjög öflug ræktun í gangi og ræktendur hafa úr mörgum góðum kostum að velja,“ segir Einar og heldur áfram:

„Á kynbótasýningu eru allar gangtegundir hestsins metnar en matskerfið þróast með tímanum og til dæmis var nýlega hægu stökki gefið aukið vægi. Einnig eru þarna tekin með atriði eins og samstarfsvilji og fegurð í reið. Allt er þetta í stöðugri framför og gaman að fylgjast með. Á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Oirschot í Hollandi í fyrra sást vel hve vel hefur tekist til í hestamennsku bæði hér heima og erlendis. Allt spilar saman. Til er orðin stór atvinnugrein sem munar um sem spannar allt frá áhugasporti til atvinnumennsku. Aukin menntun til dæmis reið- og tamningamanna hefur líka breytt miklu í sportinu.“

Mikið púsluspil

Vænst er að landsmótsgestir verði á bilinu 7.000-9.000 talsins – og þar af má gera ráð fyrir að um fimmtugur komi að utan, frá þeim löndum þar sem íslenski hesturinn nýtur mikilla vinsælda. „Mótshaldið er mikið púsluspil þannig að allt gangi upp, en heildarkostnaðurinn við dæmið allt er í kringum 150 milljónir króna,“ segir Einar sem telur alla reynslu úr Víðidal góða. Þetta er fjórða landsmótið frá aldamótum sem þar er haldið, á stað þar sem aðstaðan er öll hin besta.

„Menn voru fyrst fullir efasemda um að sveitarómantíkin héldi með mótshaldi í borginni, en þær efasemdaraddir hljóðnuðu fljótt. Hér á svæðinu verður raunar mjög fjölbreytt dagskrá allan júnímánuð og margt spennandi í gangi áður en til kemur til landsmótsins, sem er auðvitað hápunktur þessa alls,“ segir Einar Gíslason að síðustu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson