Rekstur Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & kaffi, segir að félagið ráðist í hagræðingaraðgerðir.
Rekstur Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & kaffi, segir að félagið ráðist í hagræðingaraðgerðir. — Morgunblaðið/Eggert
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Afkoma framleiðslu- og veitingafyrirtækisins Te & kaffi hefur batnað nokkuð á undanförnum árum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að hagræðingaraðgerðir og einfaldari rekstur sé að skila sér í betri afkomu.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Afkoma framleiðslu- og veitingafyrirtækisins Te & kaffi hefur batnað nokkuð á undanförnum árum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að hagræðingaraðgerðir og einfaldari rekstur sé að skila sér í betri afkomu.

Tekjur Te & kaffi ehf. námu í fyrra um 2,1 ma.kr. og jukust um rúmar 290 m.kr. á milli ára. Hagnaður fyrir árið nam um 99 m.kr., samanborið við 20,5 m.kr. árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam um 205 m.kr. og nær tvöfaldaðist á milli ára. Launakostnaður félagins nam í fyrra um 630 m.kr. og jókst um tæpar 48 m.kr. á milli ára, þótt starfsmannafjöldi héldist óbreyttur. Eigið fé í árslok síðasta árs nam um 228 m.kr. Þá kemur fram í ársreikningi að félagið greiddi tæpar 120 m.kr. aukalega inn á langtímalán.

Einblína á kjarnastarfsemi

Spurður almennt um stöðuna á rekstrinum segir Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & kaffi, í samtali við Morgunblaðið að félagið hafi með markvissum hætti unnið að hagræðingu til að koma til móts við kostnaðarhækkanir liðinna ára, bæði hvað varðar hráefniskostnað og launakostnað sem hefur hækkað verulega á undanförnum árum.

„Við höfum einblínt á kjarnastarfsemi, sem er í grunninn annars vegar framleiðsla á kaffi í kaffibrennslu og hins vegar rekstur kaffihúsa,“ segir Guðmundur.

„Við höfum á liðnum árum einfaldað framleiðsluna hjá okkur og samhliða því einfaldað ferla við sölu. Þannig höfum við til að mynda úthýst þjónustu við fyrirtæki, hætt eigin framleiðslu á veitingum á kaffihúsum og vinnum þess í stað með innlendum bakaríum og framleiðendum og þannig má áfram nefna. Þetta hefur skilað sér í skilvirkari rekstri.“

Eins og Morgunblaðið greindi frá í fyrravor setti Te & kaffi skrifstofuhúsnæði sitt við Stapahraun 4 í Hafnafirði á sölu í fyrra, þar sem ekki var þörf á svo stóru húsnæði lengur. Þess í stað leigir félagið nú skrifstofuaðstöðu í Reykjavík, sem að sögn Guðmundar hefur sparað félaginu umtalsvert fjármagn, á meðan framleiðsla félagsins fer enn fram í Hafnarfirði.

Stærri kaffihús vinsælli

Guðmundur segir, spurður um rekstur kaffihúsa félagsins, að sá rekstur skili almennt ekki mikilli framlegð. Aftur á móti njóti kaffihúsin, þá sérstaklega þau stærri, vinsælda og skapi félaginu tekjur. Það sé afskaplega ánægjulegt að vera búinn að byggja upp öflugt og vinsælt veitingafyrirtæki.

„Við réðumst í töluverðar framkvæmdir í fyrra, aðallega í Kringlunni þar sem kaffihúsinu var breytt samhliða allsherjarbreytingum á veitingahluta Kringlunnar auk þess sem gerðar voru breytingar í Borgartúni. Þessir tveir staðir, ásamt Smáralind og Garðabæ, njóta mikilla vinsælda,“ segir Guðmundur.

„Það er þó ekkert launungarmál að rekstur kaffihúsa er kostnaðarsamur, þar sem leiga og starfsmannakostnaður eru þungir kostnaðarliðir. Allir sem reka fyrirtæki finna að launahækkanir síðustu ára vega þungt í rekstri og við erum þar engin undantekning. Framlegðin af rekstri kaffihúsa er því ekki mikil en okkur hefur þó tekist að reka þau réttum megin við núllið, sem skiptir öllu máli.“

Spurður um mögulega opnun nýrra kaffihúsa segir Guðmundur að ekkert liggi fyrir um það en félagið hafi þó metið nokkra kosti hvað það varðar.

„Það er ánægjulegt að sjá og finna að rekstur fyrirtækisins gengur almennt vel, en það gerist þó ekki af sjálfu sér. Við höldum áfram að hagræða eins og við getum, huga vel að kostnaði en um leið tryggja ánægju viðskiptavina okkar, hvort sem það eru heildsalar eða viðskiptavinir á kaffihúsum,“ segir Guðmundur að lokum.

Höf.: Þóroddur Bjarnason