Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
Við höfum kosið að standa með Úkraínu ásamt bandalagsþjóðum okkar. Eins og Katrín Jakobsdóttir benti ein á.

Þórhallur Heimisson

Það var áhugavert að fylgjast með kappræðum forsetaframbjóðenda á Stöð 2 16. maí síðastliðinn. Eins og reyndar alltaf. Enda allt einvalalið, hvert með sínum hætti. Ein spurning sneri að innrás Rússa í Úkraínu og fjöldamorðum þeirra þar á saklausu fólki, sem nú hefur staðið í rúmlega tvö ár. Spurningin snerist um hvort rétt væri af Íslandi að styðja vopnakaup og sendingar til Úkraínu. Ekki það að forseti ráði slíku, heldur snerti spurningin meira hvernig frambjóðendur litu á það mál. Ef marka má svör frambjóðenda virðist svo sem Katrín Jakobsdóttir ein geri sér grein fyrir stöðunni eins og hún snýr að okkur Íslendingum varðandi stríðið í Úkraínu. Allir frambjóðendur töluðu um frið og að við værum herlaus þjóð og lýstu hneykslan á að íslenskt fé hafi farið í sjóði sem nýttir eru til að styðja Úkraínu með vopnum. En eins og Katrín ein frambjóðenda benti á erum við Íslendingar ekki hlutlaus. Við erum í Nató. Nató hefur ákveðið að styðja Úkraínu sem er að reyna að verjast innrás Rússlands. Til þess þarf vissulega sárabindi og sjúkrahjálp. Og hjálma eins og Þýskaland gaf af örlæti í upphafi stríðsins. En umfram allt vopn til að verjast. Nató hefur sameinast um að styrkja varnir Úkraínu. Þar stöndum við hlið við hlið með öðrum Natóþjóðum. Það þýðir ekki að þykjast eitthvað annað. Og þörfin er mikil. Eins og forseti Finnlands, Alexander Stubb, sagði í Svíþjóðarheimsókn nýverið þegar hann var spurður um hvernig Nató gæti stutt Úkraínu betur: „Tala minna, gera meira.“

Auðvitað viljum við öll frið og að Rússar hætti árásum sínum og yfirgangi.

En sem Natóþjóð erum við ekki hlutlaus. Við höfum kosið að standa með Úkraínu ásamt bandalagsþjóðum okkar. Eins og Katrín Jakobsdóttir benti ein á í umræddum þætti.

Höfundur er prestur.