„Ég hafði lengi hugsað um að þýða þessa bók,“ segir Björn.
„Ég hafði lengi hugsað um að þýða þessa bók,“ segir Björn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókin fjallar nefnilega ekki bara um strákinn og hefðirnar við vorkomuna, heldur birtist þar vonin um nýja byrjun og betri tíma, eins og áður voru þegar allt lék í lyndi.

Doktor Björn Oddsson hefur þýtt á íslensku eina af gersemum svissneskra bókmennta, barna- og unglingabókina Schellen-Ursli eftir skáldkonuna Selinu Chönz með myndum eftir listmálarann Alois Carigiet. Á íslensku nefnist bókin Bangsímon bjalla.

Björn, sem er jarðfræðingur og jarðverkfræðingur, hefur verið búsettur í Sviss frá árinu 1971 að undanskildum fáum árum eftir nám. „Þessi barnabók er svissneskur menningararfur, margverðlaunuð og þýdd á fjölda tungumála. Hún hefur verið kvikmynduð þrívegis, gerð um hana söngleikur og nú seinast ópera,“ segir hann. „Bókin varð til á stríðsárunum, skrifuð á fornu máli, retórómönsku, og hafði áhrif á að það varð fjórða opinbera tungumálið í Sviss, auk þýsku, frönsku og ítölsku. Málið átti þá undir högg að sækja, ekkert síður en íslenskan nú.“

Sagan mín

Um söguþráðinn segir Björn: „Sagan fjallar um sérstæða hefð í kringum skammdegið og vorkomuna í sveitahéruðum svissnesku Alpanna. Söguhetjan er ungur drengur sem ætlar að taka þátt í vorkomuhátíðinni Chalandamarz, sem er einskonar blendingur öskudags og sumardagsins fyrsta. Þar hópast saman krakkar með húsdýrabjöllur, hrossabresti, keyri og svipur og hrekja veturinn brott með hávaða og látum. Drengurinn er lítill en svo metnaðargjarn að hann vill fá stærstu bjölluna. Hann verður fyrir einelti, fær á endanum minnstu lambabjölluna og er uppnefndur bjöllubangsi. Grátandi sér hann fyrir sér snautlega útreið á vorhátíðinni. En þá man hann að uppi í fjallaselinu, þar sem fjölskylda hans býr með húsdýrunum á sumrin, er stór bjalla og hann hyggst sækja hana.“

Björn gefur bókina út sjálfur. Spurður hvað hafi hrifið hann svo við söguna að hann færi í útgáfu segir hann: „Jú, þetta er sagan mín og kannski okkar flestra. Við mótlæti, og þegar öll sund virðast lokuð, tökum við til eigin ráða og snúum dæminu við.“

Von um betri tíma

Björn starfaði lengi við ríkisháskólann ETH í Zürich og stjórnaði í aldarfjórðung endurmenntun svissneskra jarðfræðinga, sem hann kom á fót árið 1991. Vörumerki hans var kúabjalla, sem samstarfsmenn við háskólann gáfu honum er hann fluttist heim að námi loknu svo hann týndist ekki í þokunni. „Þegar ég fór að stjórna þessum endurmenntunarráðstefnum fékk bjallan loks hlutverk. Ég tók hana með mér og hringdi til að fá hljóð þegar fyrirlestrar hófust eða ef einhver talaði of lengi. Þar sem ég heiti Björn, á svissnesku Urs (samanber Yrsa / Birna), var fljótlega farið að kalla mig Schellen-Ursli eftir snáðanum með stóru bjölluna. Ég tók því ágætlega því Schellen-Ursli er þekkt og ástsæl sögupersóna.

Við starfslok var ég ákveðinn í að gera eitthvað allt annað en áður. Ég hafði lengi hugsað um að þýða þessa bók og koma henni í hendur íslenskra barna. En mér brá í brún þegar ég tók hana fram aftur og hafði gleymt að hún var í bundnu máli. Ég var reyndar ekkert lengi að þýða og yrkja ljóðin. Að því loknu fór ég upp á háaloft og sótti gömlu kennslubókina í bragfræði, sem við lærðum í menntaskóla, hugðist slípa ljóðin til. En þess þurfti vart því ég virðist hafa slysast til að ná þessu nokkurn veginn upp á gamla mátann. Líklega bý ég að því að móðir mín, sem kallaði mig Bangsímon, kvaðst mikið á við mig sem barn.

En svo vildi enginn gefa þetta út og verkið dagaði uppi í covid. Síðan, þegar innrásin var gerð í Úkraínu, gat ég ekki lengur legið á þessu. Bókin fjallar nefnilega ekki bara um strákinn og hefðirnar við vorkomuna, heldur birtist þar vonin um nýja byrjun og betri tíma, eins og áður voru þegar allt lék í lyndi. Það á erindi til allra einmitt núna.

Þannig hafðist í annarri atrennu að fá bókina prentaða með svissnesku útgáfunum. Bandið, pappírinn og prentunin eru afar vönduð, myndirnar nokkurskonar „aquatinta“ litógrafíur. Ég held að erlenda forlagið borgi með bókinni annað eins og hún kostar.“

Hann þýðir undir skáldanafninu Vébjörn Skáldi frá Folafæti. Hvað kemur til? „Ja, það er umsögnin sem skáldmæltur vinur minn gaf mér, en hann fékk að lesa handritið.“

Allt annað verkefni

Björn vinnur nú að öðru verkefni, allt annars eðlis. Hann á jörð við Ísafjarðardjúp sem heitir Folafótur og vill gera hana að heildrænum jarðvangi, Geopark að hætti UNESCO. Þess má geta að Folafótur er fyrirmynd að uppvaxtarstað Ólafs Kárasonar Ljósvíkings í Heimsljósi Halldórs Laxness. „Þar býr fegurð himinsins ásamt kraftbirtingarhljómi almættisins, en það er nú önnur saga,“ segir Björn að lokum.