Gallerí Einar Lúðvík sýnir nú í Gallery Kontór á Hverfisgötu 16a. Hér er hann við nokkur verka sinna. Talið frá vinstri: „Heilsteypt afsökunarbeiðni“, olíumálverk, „Vasi“, leirskúlptúr, „Sorry, Rothko“, olíumálverk, og „Ég lofa að halda mér innan rammans“, olíumálverk. Verkin á sýningunni eru til sölu.
Gallerí Einar Lúðvík sýnir nú í Gallery Kontór á Hverfisgötu 16a. Hér er hann við nokkur verka sinna. Talið frá vinstri: „Heilsteypt afsökunarbeiðni“, olíumálverk, „Vasi“, leirskúlptúr, „Sorry, Rothko“, olíumálverk, og „Ég lofa að halda mér innan rammans“, olíumálverk. Verkin á sýningunni eru til sölu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Myndlistarmaðurinn Einar Lúðvík Ólafsson hefur opnað sína sjöttu einkasýningu á Íslandi. Sýningin er haldin í Gallery Kontór á Hverfisgötu 16a, fyrir ofan Gráa köttinn, og er sölusýning.

Sýningin heitir „Eini fastinn er breyta – Eftir vetur kemur vor“.

Þegar Morgunblaðið kom við í galleríinu síðastliðinn þriðjudag voru þeir Einar Lúðvík og galleristinn Burkni Óskarsson að hengja upp síðustu myndirnar.

Galleríið er í eigu foreldra Burkna, myndlistarhjónanna Huldu Hákon og Jóns Óskars, og var opnað í fyrra. Þar hafa verið haldnar þrjár sýningar. Þau hjón voru með tvær fyrstu sýningarnar í fyrra og svo var listmálarinn Erna Mist með þá þriðju í byrjun ársins.

Fjórða sýningin

Sú fjórða, sýning Einars Lúðvíks, var opnuð í gær og verður listamaðurinn í galleríinu í dag, laugardag, en það er opið frá klukkan þrjú til sex fimmtudaga til sunnudaga.

Þar ber hæst litagleði og skýr form auk myndmáls með sterka tilvísun í listasöguna. Hjá Einari Lúðvík gætir áhrifa kúbisma, súrrealisma, fígúrartífisma auk abstrakts. Mörg málverka hans bera einnig keim af popplist og teiknimyndum.

Þróaði hugbúnað

Einar Lúðvík fæddist á Selfossi og gekk á unglingsárum í Verslunarskólann. Hann lauk svo námi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og starfaði í eitt ár við hugbúnaðarþróun.

„Þá rankaði ég allt í einu við mér, er ég var að forrita bókhaldshugbúnað, og sagði við sjálfan mig að þetta væri ekki alveg það sem ég sá fyrir mér að gera í lífinu. Því sótti ég um nám á myndlistarbraut í Listaháskóla Íslands og komst inn og þá kýldi ég á þetta af fullum krafti. Ég var alltaf að teikna þegar ég var yngri en fannst sem eldra fólk talaði um að myndlistin væri ekki raunhæfur starfsvettvangur.

Í skiptinámi í New York

Þetta var árið 2016. Hluta af náminu var ég í skiptinámi við Parsons School of Design í New York og starfaði svo sumarið eftir sem aðstoðarmaður í stúdíói hjá fjórum listamönnum sem bjuggu og störfuðu í New York. Meðal þeirra var Kate Teale en hún málar ofurraunsæjar og afar persónulegar myndir. Eiginmaður hennar, David Henderson, er skúlptúristi og hefur meðal annars verið að gera risavaxna úti- og hljóðskúlptúra úr koltrefjum, sem ég var að hjálpa honum að gera.“

Hvaða ár kemurðu heim?

„Það var árið 2019.“

Fyrir faraldur?

„Já. Síðasta önnin mín í Listaháskólanum var vorið 2020. Þá voru allir að undirbúa lokasýninguna á Kjarvalsstöðum en svo var skólanum lokað. Okkur var sagt að taka allt sem við vildum því við vissum ekki hvenær við kæmum aftur. Við vissum ekki einu sinni hvort það yrði lokasýning en svo náðum við að sýna á Kjarvalsstöðum einmitt þegar fyrsta bylgjan var að baki og þá tók við hálfur mánuður af fallegu sumri en svo kom bylgja tvö og svo bylgja þrjú.

Útskrifaðist árið 2020

Ég útskrifaðist árið 2020 og hef síðan verið að mála mikið og hef sýnt hér og þar,“ segir Einar Lúðvík, sem hefur sem áður segir haldið sex einkasýningar á Íslandi. Þá hefur hann tekið þátt í samsýningum hér á landi, eins og rakið er á heimasíðu hans, einarludvik.com. Þar með talið á sýningu í Hafnarhúsinu þar sem verk Errós voru sýnd ásamt verkum samtímalistamanna.

Þá hefur hann tekið þátt í samsýningum víða um heim. Þar með talið í London, Amsterdam, Denver, Los Angeles og Beirút. Jafnframt hefur hann tekið þátt í samsýningum á Gullströndinni í Ástralíu og í Dúbaí.

Verk Einars Lúðvíks hafa vakið athygli á netinu og hafa safnstjórar haft samband við hann eftir að hafa meðal annars séð verk hans á Instagram.

Höf.: Baldur Arnarson