Ögranir og vopnaskak Rússa og Kínverja vekja ugg

Það kann að hljóma sakleysislega að fjarlægja nokkrar baujur, en við ákveðnar kringumstæður getur það kallað á alþjóðleg viðbrögð.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, lýsti í gær yfir fullum stuðningi við Eista eftir að rússneskir landamæraverðir létu til skarar skríða fyrir dögun á fimmtudag og fjarlægðu baujur sem marka landamæri Eistlands og Rússlands í ánni Narva. Baujurnar eiga að koma í veg fyrir að bátum sé fyrir slysni siglt í erlenda landhelgi.

Sagði Stoltenberg að NATO stæði við hlið Eista í fullri samstöðu gegn öllum tilraunum til að ógna fullveldi Eistlands.

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, hafði áður rætt við Stoltenberg og sagði að þetta tilvik væri hluti af „stærra mynstri“ af hálfu Rússa, sem sýknt og heilagt notuðu tæki og tól til að skapa „ótta og kvíða“.

Rúm tvö ár eru nú liðin frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu og blóðsúthellingarnar halda áfram. Rússar hafa sótt í sig veðrið undanfarnar vikur og mánuði. Mannekla og skortur á skotfærum háir Úkraínumönnum, en í gær kváðust þeir þó hafa stöðvað sókn Rússa í kringum Karkív og hefðu hafið gagnsókn. Annars staðar á víglínunni hefðu Rússar þó bætt í sóknarþungann.

Atvikið í Eistlandi kann að virðast lítilfjörlegt í samanburði við ósköpin sem Rússar hafa látið dynja á Úkraínumönnum. Það er hins vegar til marks um að ásælni Rússa einskorðast ekki við Úkraínu og þeir hika ekki við að ögra og pota í leit að veikleikum.

Á þriðjudag birti rússneska varnarmálaráðuneytið tillögu að ályktun þar sem kom fram að Rússar hygðust einhliða stækka landhelgi sína í Eystrasalti og ganga á lögsögu Litháa og Finna. Það hefur vakið áhyggjur og óhug, ekki síst í þeim löndum sem í hlut eiga.

Ögrun Kínverja með umfangsmikilli margra daga heræfingu þar sem æfð var innrás í Taívan í vikunni hefur ekki vakið minni ugg, ekki síst vegna yfirlýsinga um að höfuð andstæðinga í Taívan við sameiningu yrðu mölvuð og blóð myndi flæða. Hernaðarbrölt Kínverja við Taívan leiðir hugann óhjákvæmilega að innrás Rússa í Úkraínu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fjallar um stríðið í Úkraínu í pistli sínum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins nú um helgina og ákvörðun Úkraínumanna um að verja land sitt. „Um allan heim fylgjast einræðisherrar með framgangi mála í Úkraínu,“ skrifar Þórdís Kolbrún. „Þeir vilja vita hvort lýðræðisríkin hafi úthald og þrek til að styðja bandamenn sína í Úkraínu. Komi í ljós að svo sé ekki þá mun það ekki leiða til meiri friðar í heiminum.“

Þetta á auðvitað ekki síst við um Rússa sjálfa, komist þeir upp með yfirganginn í Úkraínu.