Ísland þokast lítið eitt upp á við í samanburði á fjölda fólks í löndum Evrópu sem starfar í upplýsinga- og fjarskiptatækni (UT) en er þó enn undir meðallagi Evrópulanda. Fram kemur í nýjum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, að 4,5% af …

Ísland þokast lítið eitt upp á við í samanburði á fjölda fólks í löndum Evrópu sem starfar í upplýsinga- og fjarskiptatækni (UT) en er þó enn undir meðallagi Evrópulanda. Fram kemur í nýjum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, að 4,5% af fjölda starfandi á vinnumarkaði hér á landi störfuðu í upplýsinga- og fjarskiptatækni í fyrra og hækkaði hlutfallið milli ára úr 4,3% á árinu 2022.

Ísland er eftirbátur 16 Evrópulanda þar sem hlutfall fólks sem starfar í þessum geira atvinnulífsins er hærra en á Íslandi. Fyrir tveimur árum voru 22 lönd fyrir ofan Ísland í samanburði Eurostat.

Á seinasta ári er áætlað að 9,8 milljónir fólks í löndum Evrópusambandsins hafi starfað í upplýsinga- og fjarskiptatækni eða 4,8% að meðaltali af starfandi á vinnumarkaði. Hæst var hlutfallið í Svíþjóð eða 8,7% fólks á vinnumarkaði, í Lúxemborg 8% og í Finnlandi 7,6%. Hlutfall starfandi í upplýsinga- og fjarskiptatækni var lægra en á Íslandi í 15 löndum sem eru með í samanburði Eurostat.

Þó starfsfólki í upplýsinga- og fjarskiptatækni hafi fjölgað á milli ára á Íslandi í fyrra hefur hlutfallið af fjölda fólks á vinnumarkaði lítið breyst yfir lengra tímabil. Það var t.d. 4,3% á árunum 2018 og 2019 og fór í 4,7% á árinu 2020.

Önnur norræn lönd eru ofar Íslandi á listanum. Í Noregi voru 5,3% á vinnumarkaði í þessum geira, 7,6% í Finnlandi og 5,9% í Danmörku störfuðu í upplýsinga- og fjarskiptatækni á seinasta ári. Svíþjóð trónaði á toppnum eins og fyrr segir.

Mikill munur er á kynjunum. Í fyrra voru konur í upplýsinga- og fjarskiptatækni á Íslandi 18,8% þeirra sem störfuðu í greininni og hlutfall karla var 81,2%. Hlutfall kvenna hér á landi af þeim sem starfa í þessum geira hefur lækkað á umliðnum árum, var t.a.m. 20,3% á árinu 2022 og 24,2% á árinu 2021.

Í mörgum öðrum löndum Evrópu er hlutdeild kvenna í greininni töluvert meiri en hér á landi, t.d. um 29% í Búlgaríu, 26,8% í Eistlandi og 24,3% á Írlandi. Hlutfall kvenna í upplýsingatækni er hærra en hér á landi í 21 Evrópulandi. Meðaltalið er 19,4% í ESB-löndum.

Upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaðurinn hefur vaxið umtalsvert í mörgum Evrópulöndum á seinasta áratug og hefur hlutfall starfsfólks í greininni vaxið að jafnaði um eitt og hálft prósentustig frá 2013.
omfr@mbl.is