Líf og fjör Gaman er að koma saman, prjóna og spjalla, þessar konur voru kátar á Prjónagleðinni í fyrra.
Líf og fjör Gaman er að koma saman, prjóna og spjalla, þessar konur voru kátar á Prjónagleðinni í fyrra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Prjón er vissulega mjög sértækt áhugamál og margir prjónarar eru helsjúkir af áhuga og flestir ánetjast, enda tala margir um að prjónaskapur færi þeim ró. Í prjónaskap felst ákveðin endurtekning en á sama tíma getur verkið verið krefjandi, en það…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Prjón er vissulega mjög sértækt áhugamál og margir prjónarar eru helsjúkir af áhuga og flestir ánetjast, enda tala margir um að prjónaskapur færi þeim ró. Í prjónaskap felst ákveðin endurtekning en á sama tíma getur verkið verið krefjandi, en það getur líka verið svo einfalt að hægt er að gera eitthvað annað á meðan, horfa á sjónvarp til dæmis. Að prjóna felur í sér mikla núvitund og margir kalla prjónaskap sitt jóga. Sjálfri finnst mér prjónaskapur veita mér næði til að hugsa. Þar fyrir utan er gaman að prjóna af því að það er skapandi, að velja saman liti og áferð garns og sjá eitthvað verða til. Að prjóna eitthvað handa öðrum er mjög gefandi og virkilega gaman að gefa þeim sem kann að meta prjónaskap, enda er mikil vinna á bak við prjónaða flík,“ segir Svanhildur Pálsdóttir þegar hún er spurð hvort prjón sé álitið nördaskapur, í ljósi þess að hún kallar Prjónagleðina á Blönduósi eina af nördalegustu bæjarhátíðum landsins. Svanhildur er viðburðastjóri Prjónagleðinnar sem haldin verður í áttunda sinn núna í byrjun júní.

„Hátíðin stækkar með hverju ári, bæði viðburðir og fjöldi gesta sem mæta og eru með. Fólk getur líka komið við og kíkt á hátíðina, það þarf ekkert að vera alla helgina, til dæmis er gaman að kíkja á garntorgið í íþróttamiðstöðinni þar sem verður sölumarkaður. Þar verður líka risastórt afmarkað svæði, hundrað sæta kaffihús, þar sem hægt er að sitja með prjónana og spjalla, kaupa kaffi, dýrindis bakkelsi og súpu. Sigþrúður, sem rekur kaffihúsið Apótekarastofuna hér á Blönduósi í gamla bænum, ætlar að flytja kaffihúsið sitt í íþróttamiðstöðina meðan á hátíðinni stendur. Vilji bæjarbúa er því með okkur, sem er virkilega gaman, enda er fólk farið að átta sig á að það munar um svona hátíð, öll viðskipti aukast í bænum, allt gistipláss er bókað og nóg verður að gera hjá þeim sem eru með veitingasölu. Stemningin í bænum lifnar við meðan á hátíðinni stendur.“

Garn sem má blotna

Viðburðir á Prjónagleðinni eru margir og fjölbreyttir, m.a. ætla nokkrir bæjarbúar að bjóða heim til sín í prjónakaffi.

„Þetta er nýbreytni, við fengum hugmyndina frá Fiskideginum á Dalvík þar sem fólk bauð heim í fiskisúpu, við ætlum að hita upp með þessum heimboðum sem verða á fimmtudagskvöldið, á fyrsta degi hátíðarinnar. Þetta eru nokkur heimili þar sem prjónafólk sem býr á Blönduósi býður öðrum prjónurum heim til sín inn í stofu til samprjóns og spjalls. Ekkert tilstand, bara notalegt. Á lokadeginum á sunnudeginum verðum við með skemmtilegan viðburð; samprjón í sundi, en þá býðst fólki að skella sér í sund til að prjóna. Hún Helga Jóna Þórunnardóttir sér um viðburðinn, en hún er þekktur prjónahönnuður sem býr í Danmörku og mun skaffa garn sem má blotna. Í sundlauginni verður því fljótandi prjónafólk á þessum degi.“

Verða með friðargjörning

Svana segir að alltaf sé svolítið um erlenda gesti á Prjónagleðinni og sumir komi gagngert til landsins til að vera á hátíðinni.

„Í Textílmiðstöðinni hér á Blönduósi dvelja textíllistamenn hjá okkur og núna í júní verður þar tuttugu manna hópur frá Concordia-skólanum í Montreal. Þau munu öll setja sinn svip á hátíðina,“ segir Svana og tekur fram að á þau tuttugu námskeið sem haldin verði á hátíðinni þurfi fólk að skrá sig og að uppselt sé á mörg þeirra.

„Þetta eru mjög fjölbreytt námskeið, til dæmis eru prjóntækninámskeið alltaf vinsæl og núna er líka vinsælt að prjóna úr afgöngum og það verður námskeið um það. Við verðum með námskeið í spuna og tóvinnu, tvöfalt prjón, rússneskt hekl og ótal margt fleira. Við einskorðum okkur ekki við prjónið og erum líka með fjölbreytta fyrirlestra, til dæmis um hannyrðapönk sem Sigrún Bragadóttir ætlar að sjá um. Hún verður með skapandi smiðju en mér finnst hannyrðapönk mjög falleg leið til að mótmæla eða hafa áhrif á samfélagið. Við ætlum að vera með friðargjörning á Prjónagleðinni þetta árið, við hvetjum prjónara til að koma með prjónaða, heklaða eða annars konar hvíta renninga, sem þurfa að vera um sex til átta sentimetra breiðir og um þrjátíu til fjörutíu sentimetra langir. Við ætlum að nota renningana til að framkvæma friðargjörning, sem veitir ekki af á þeim stríðstímum sem nú ríkja í veröldinni,“ segir Svana og minnir á að fastir liðir verði á sínum stað, til dæmis prjónamessa, prjónaganga og prjónabingó.

„Prjónagleðin er fyrir alla, alls ekki einvörðungu fyrir prjónasnillinga, því allir standa jafnfætis sem hafa áhuga á prjóni og elska garn. Okkur sem eigum þetta sameiginlega áhugamál finnst gaman að hittast og allir eru velkomnir. Hátíðin er hugsuð fyrir allt prjóna- og handavinnufólk og á henni ríkir gleði, svo það er um að gera að koma fyrir þá sem eru forvitnir. Þarna verða 24 söluaðilar, ótal margt að skoða og gera, og það verða sætaferðir frá Reykjavík og Akureyri á hátíðina.“

Prjónagleðin á Blönduósi verður 6.-9. júní nk. Nánar um dagskrá á: textilmidstod.is og á facebooksíðu: Prjónagleði Iceland Knit Fest.