Jónas Ingimundarson og Sigrún Hjálmtýsdóttir bregða á leik á æfingu fyrir nokkrum árum.
Jónas Ingimundarson og Sigrún Hjálmtýsdóttir bregða á leik á æfingu fyrir nokkrum árum. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistin hefur enga skoðun. Hún fullyrðir ekki neitt. Hún ætlast ekki til að maður skilji hana á ákveðinn hátt; hún gefur bara í skyn. Það er á ábyrgð flytjandans að koma þessu til skila.

Ég hef verið eins og skuttogari; ekkert kvikt hefur sloppið,“ segir Jónas Ingimundarson, sposkur á svip, og er þar að lýsa löngum og gifturíkum tónlistarferli sínum sem spannar nánast sjö áratugi. „Ég hef komið ótrúlega víða við, leikið svo að segja alls staðar á Íslandi ýmist einn eða með öðrum og þá einkum söngvurum okkar.“ Jónas hefur haldið tónleika með tugum söngvara af þremur kynslóðum. „Ég á líka að baki margar ferðir til útlanda til söngs og leiks. Ég hef ferðast víða og er svo hamingjusamur að fólk vill hafa mig með sér.“

Tónlistin hefur verið hans líf og yndi og þau eru ófá störfin sem Jónas hefur gegnt í gegnum tíðina. Hann hefur verið einleikari, meðleikari, kórstjóri, píanókennari á öllum stigum og einnig uppfræðari á tónleikum, í skólum, og í útvarpi og sjónvarpi.

Óviðráðanlegur innri funi

„Út frá þessu öllu hafa vaxið ólíkir hlutir s.s. Tónlist fyrir alla, Ljóðatónleikar Gerðubergs, Tíbrártónleikar Salarins, skipulagðir tónleikar á landsbyggðinni, Hátíðartónleikar Rótarýhreyfingarinnar og Söngdagar í Skálholti. Dr. Halldór Hansen barnalæknir, mikill fjölskylduvinur og tónlistaráhugamaður, sagði einhvers staðar í blaðaviðtali að það mætti segja að ég væri einhvers konar tónlistartrúboði. Ég tek ekki afstöðu til þess, en ég er haldinn einhverjum innri funa sem ég ræð ekki við. Ég er rokinn af stað í verkin sem að mér sækja áður en ég veit af. Ég er stoltur af því að ég hef fengið að velja eða komið að vali tuga flygla hér á landi. Heimsóknir mínar út um land þar sem ég spilaði verk meistaranna voru líklega ein ástæða þess að ég var beðinn að velja úrvals hljóðfæri á fjölmarga staði. Úr því við erum í upptalningu er ekki úr vegi að telja með Salinn í Kópavogi og glæsilegu konsertflyglana þar.“

Jónas hefur glímt við erfið veikindi undanfarin ár og ekkert spilað opinberlega í fimm ár eða svo. „Ég er ekki hættulegur lengur,“ segir hann kíminn. „Tónlistarferlinum er því lokið fyrir nokkru en áttræðisafmælið er ekkert verra tilefni en hvað annað til að setja punktinn formlega fyrir aftan i-ið.“

Jónas stendur upp, opnar skáp frammi í forstofu og sækir þrútna harðspjaldamöppu sem hann sýnir mér. „Þetta er ein af mörgum möppum með prógrömmum sem ég hef spilað á tónleikum. Það er kannski ekki skrýtið þótt ég hafi stundum fundið fyrir þreytu. Einnig er til heilmikið af upptökum og síðustu árin höfum við Ágústa hlustað heilmikið á þær okkur til ánægju. Mér hefur alltaf fundist að ég hefði átt að geta gert betur. En ævistarfið er að minnsta kosti fjölbreytt.“

Með fremstu söngvurum þjóðarinnar

Þekktastur er Jónas líklega fyrir samstarf sitt með fremstu söngvurum þjóðarinnar, en þeir skipta tugum. „Ég hef verið sá hamingjuhrólfur að vinna með landsliðinu í söng en eins og við vitum er söngur fyrirferðarmikill í tónlistarlífi á Íslandi. Ég kem til tónlistarinnar í gegnum söng. Og þetta samstarf hefur verið árekstralaust og hvergi skugga á það borið.“

Jónas og Ágústa bjuggu lengi í einbýlishúsi í Kópavogi en færðu sig árið 2018 yfir í Lund í sama bæjarfélagi. Þar hefur píanóleikarinn orðið fyrir þeirri óvenjulegu upplifun að nágrannar hans hafa átalið hann fyrir að spila ekki nógu mikið. „Þetta er yndislegt fólk,“ segir hann og brosir.

Sjálfur kveðst Jónas ekki geta lifað án tónlistar. „Það er staðreynd. Tónlistin hefur alla tíð umvafið mig. Auðvitað er sárt að geta ekki spilað sjálfur lengur, en ég hlusta á tónlist allan daginn og vinn að tónlist þótt með öðrum hætti sé.“

Jónas fæddist á Bergþórshvoli 30. maí 1944 e.b. (eftir brennu, eins og hann læðir að). „Ég er sveitamaður í eðli mínu; af félagslyndu, glöðu og harðduglegu bændafólki kominn sem kunni best við sig í vinnugallanum.“

Greip tónlistin þig snemma?

„Ég var mjög söngvið barn og strax í bernsku dreymdi mig um að verða söngvari. En ég hafði bara ekki röddina, því miður. Ég var ekki nema átta ára þegar sænski stórsöngvarinn Jussi Björling söng í Þjóðleikhúsinu. Frændgarðurinn var að búa sig til að fara á tónleikana og ég man að mér var ansi misboðið að mega ekki fara með vegna aldurs. Fyrsti söngvarinn sem ég sá á tónleikum var Ketill Jensson, glæsilegur tenór og menntaður á Ítalíu. Tónleikarnir voru í Selfossbíói og Victor Urbancic spilaði með honum á píanó. Victor Urbancic var einn af brautryðjendum í íslensku tónlistarlífi og við eigum honum mikið að þakka.

Ég spilaði fyrst á harmonikku 10 til 12 ára gamall. Ég átti lamaðan föðurbróður, sem gat sig lítið hreyft en hann hlustaði mikið á tónlist. Honum leist ekkert á það að þessi frændi hans væri að gutla við hamonikkuspilið og spurði einhverju sinni hvort ég vildi ekki læra eitthvað á hljóðfæri og spila almennilega.

Fermingargjöfin frá föðursystkinum mínum var píanónám í einn mánuð. Það gekk ekki verr en svo að mér var boðið að vera áfram í mánuð í viðbót.“

„Haltu áfram, þú átt erindi“

Sumarið eftir fór Jónas á humarbát, sem ekki er beint næsti bær við píanóspil. „Ég vissi svo sem ekki hvort meira yrði úr píanónámi, en um haustið þegar ég var 15 ára reyndi móðir mín að skrá mig í Tónlistarskólann í Reykjavík. Árni Kristjánsson tók á móti henni og gerði henni grein fyrir því að þetta væri ansi seint, flestir nemendur hefðu verið við nám frá unga aldri. Betra væri líklega að ég lærði á básúnu eða trompet, sem ekki krefðust sömu fingrafimi og píanóið. Móðir mín gaf sig ekki og sagði „en hann á píanó“ og ég var tekinn inn í skólann og settur í hóp Rögnvaldar Sigurjónssonar píanóleikara; allir nemendurnir í hópnum voru með nokkurra ára nám að baki.“

Ung hjörtu mega vel við hvatningu, eins og við þekkjum. Jónas bjó í Þorlákshöfn hjá föður sínum á þessum árum en sótti gagnfræðanám í Hveragerði. Hann gleymir því ekki þegar hann lék einu sinni á píanó án þess kunna nokkuð að ráði á skólaskemmtun og skáldið Jóhannes úr Kötlum þakkaði honum fyrir og hvatti hann til að halda áfram að spila með orðunum „haltu áfram, þú átt erindi“. Þá hvatningu man Jónas enn í dag.

Annað þjóðþekkt skáld, Kristján frá Djúpalæk, var Jónasi líka innblástur. „Hann kenndi mér í Þorlákshöfn þegar ég var 12 ára og varð eiginlega minn besti vinur ævilangt, þótt hann væri mörgum árum eldri. Yndislegur maður, Kristján.“

Á þessum árum tíðkaðist ekki í Þorlákshöfn að menn væru spariklæddir á virkum dögum. Það vakti því athygli Jónasar þegar hann rakst í búðinni í Hveragerði á prúðbúinn mann, á glerfínum skóm, með hatt og trefil og í frakka sem náði niður á mjóalegg. Þetta glæsimenni var Kristmann Guðmundsson rithöfundur, sem bar með sér að hér var sigldur maður á ferð. „Mér þótti hann stinga í stúf við umhverfið sem ég var vanur og spurði Kristján: Hvað gerir svona fólk? Kristján þagði stutta stund en sagði svo: „Mundu það, Jónas minn, að fleira er líf en saltfiskur!“

Þegar ég var 13-14 ára bjó ég hjá hjónum sem breyttu lífi mínu. Þau voru Hróðmar Sigurðsson, sem kenndi í Hveragerði, og kona hans Ingunn Bjarnadóttir lagasmiður. Hróðmar átti miklu stærra orgel en ég hafði áður séð. Eitt sinn þegar ég opnaði stofuna var Hróðmar að spila Intermezzo úr Cavalleria rusticana eftir Mascagni. Í stofunni heima í Þorlákshöfn var lítið stofuorgel en upp úr því komu bara einföld ættjarðarlög og sálmar. Ég þekkti þessa tónlist og vissi að þetta var úr óperu. Ég hlýt að hafa heyrt þetta í útvarpinu, sem ég var býsna þaulsætinn við. Þegar Hróðmar hætti spurði ég heimilisfólkið: „Hver er uppáhaldsóperan ykkar?“ sem var óvenjuleg spurning fyrir sveitastrák úr fiskiþorpi. Ég man hvað þau hlógu dátt að þessu.“

Jónas segir að hann hafi verið ákaflega söngvið barn. „Söngvararnir í útvarpinu voru eins konar leikfélagar mínir og höfðu allir djúpstæð áhrif á mig, hver á sinn hátt. Ég gerði mér ekki grein fyrir því strax, en eftir á að hyggja höfðu kynni mín af þeim þau áhrif að ég fór að sjá fyrir framtíð mína í tónlistinni. Þannig breytti vistin í Hveragerði heimsmynd minni.“

Við komum að hinum stóru tímamótum sem nú standa fyrir dyrum. Hvernig tilfinning ætli það sé að vera að verða áttræður?

„Á ég ekki bara að segja að ég sé hamingjusamur? Ég hef verið svo heppinn að geta helgað líf mitt tónlistinni og fengið ótrúlega mörg tækifæri. Baráttan við veikindi hefur auðvitað sett sterkan svip á líf mitt undanfarin 26 ár. Ég hef glímt við þrjár tegundir af krabbameini og meðal annars farið í vélindabrottnám, sem er ein af stærri skurðaðgerðum sem menn fara í, og þar var barist upp á líf og dauða. Auk þess hefur verið rist og kroppað í mig hér og þar; það er til dæmis búið að klippa stóran hluta af öðru eyra mínu, eins og þú sérð. Öllu þessu hafa fylgt harðar meðferðir, orkuleysi og einbeitingarskortur; heimskan æðir í mann og maður verður örlyndur.“

Jónas kveðst vera af kynslóð sem ekki leitar til læknis nema í fulla hnefana. Á þessum aldarfjórðungi hefur hann náð góðum tímabilum, en líka tekið djúpar dýfur á milli.

Ólseigur og fádæma þrjóskur

„Allt líf mitt hefur samt verið undir hamingjusól. Ég er ekki bara ólseigur, heldur líka fádæma þrjóskur og þver, ég á yndislega konu og fjölskyldu, sem hefur ekki lítið að segja þegar aðstæður eru svona.“

Í stað þess að syngja sjálfur leitaðist Jónas alla tíð við að tengjast söngnum með píanóspili sínu. „Á mínum bestu kvöldum var ég ánægður að ná sambandi við sönginn í spilinu. Maður þarf að halla spilinu upp að söngvaranum og renna inn í sönginn. Spilið má ekki bara elta eins og hvolpur út í óvissuna.“

Svo eru það blessuð tónskáldin, sem skapa sjálf verkin sem síðan þarf að túlka. Jónasi eru eftirminnilegir tónleikar með sönglögum Jóns Ásgeirssonar, sem mörg eru ástsæl meðal þjóðarinnar, en þar kom hann fram ásamt söngvurunum Bergþóri Pálssyni og Auði Gunnarsdóttur.

„Að flutningi loknum var mikið klappað og tónskáldið kallað fram á sviðið. Þá lagði Jón sína stóru, þungu hönd á öxlina á mér, sem er ógleymanleg upplifun vegna þess að þá rann upp fyrir mér að ég væri undir handleiðslu hans – líkt og allra annarra tónskálda sem ég hef flutt verk eftir. Ég hef alltaf verið í þjónustu skáldsins, ég vel ekki prógrammið heldur velur það mig.“

Fleiri en tónlistarmenn hafa komið að málum gegnum tíðina. Jónas nefnir í því sambandi Reyni Axelsson stærðfræðing og ljóðaþýðanda. „Reynir elskulegur hefur þýtt hátt í 3.000 ljóð úr 18 tungumálum, sumt af því beinlínis fyrir mig. Allt er það hlaðið merkingu enda Reynir snillingur á sínu sviði. Hvar værum við án svona fólks og ástríðu þess?“ Trausti Jónsson veðurfræðingur, Ágústa og Jónas hafa síðan 1990 leitað uppi og safnað íslenskum einsöngslögum, skráð þau og varðveitt. Í samvinnu við Jón Kristin Cortes og Ólaf Vigni Albertsson hefur verið gefið út stórfallegt safn í mörgum bindum hjá útgefandanum Ísalögum. Jónas álítur að einsöngslögin séu einn heillegasti þráðurinn í íslenskri tónlistarsögu síðan 1880. Hér er því að mati Jónasar um að ræða menningarsögulegt þrifnaðarmál.

Annað safn sem þau hjónin hafa tekið saman á undanförnum árum eru upptökur frá tónleikum Jónasar sem einleikara og einnig upptökur frá tónleikum hans með íslenskum og erlendum einsöngvurum. Talsvert af þessu hefur verið gefið út á plötum og diskum, en margir tugir tónleika hafa hingað til verið óútgefnir. Nú má með samþykki listamannanna og rétthafa nálgast þessar upptökur á Spotify og öðrum tónlistarveitum. Þeim hefur verið bjargað frá glötun.

Í öllum þeim verkefnum sem hafa verið rædd í þessu viðtali hefur Ágústa Hauksdóttir eiginkona Jónasar tekið fullan þátt og þau unnið hönd í hönd. Án hennar hefði þetta aldrei getað orðið.

Að dómi Jónasar eigum við Íslendingar marga frábæra tónlistarmenn. „Tugir söngvara okkar hafa sungið og syngja í bestu tónlistarhúsum heims, án þess að við fáum af því fréttir í íslenskum fjölmiðlum. Ég óttast að fólk sé ekki nógu meðvitað um þetta ríkidæmi. Þetta hámenntaða listafólk syngur allar stíltegundir tónlistar á öllum mögulegum tungumálum. Þorri þjóðarinnar hefur varla hugmynd um þetta ævintýri. Þetta tómlæti fjölmiðla á ekki bara við um söngvara, heldur líka hljóðfæraleikara. Hugsanlega er þetta fálæti okkur sjálfum að kenna. Það er eitur í beinum flestra listamanna að hreykja sér. Það er ekki í okkar eðli að ýta á eftir svona hlutum.“

Tónninn sem er betri en þögnin

Enda þótt margt sé vel gert þá eru að dómi Jónasar blikur á lofti. „Menningarforskrift nútímans sýnist vera „eru ekki allir í stuði“ sem kallar á hraða, spennu, streitu og læti. Það getur verið gott að vera í stuði stundum, en að vera í stöðugu stuði getur valdið óþægindum. Það á ekki við mig enda fer ég á tónleika til að hlusta og upplifa augnablik þegar áheyrendur setur hljóða.

Öll tónlist byrjar í þögn; hún er fyrst óskrifað blað en síðan dragast upp línur, ein af annarri, sem verða að leik. Og þögnin er aldrei eins dýrmæt og þegar margir þegja saman. Á slíkum augnablikum verður maður yfirkominn af undirgefni. Í slíkri þögn er hollt að skoða hug sinn og njóta kyrrðar. Og þar sem öll tónlist byrjar í þögn þá verður það áskorun tónlistarmannsins að vekja aðeins þann tón sem er betri en þögnin sem hann rýfur. Tónlist er ekki um neitt, hún vekur hughrif hvers hlustanda. Hún kemur að hverjum og einum eins og hann er á sig kominn hverju sinni. Hún getur verið umvefjandi eða fráhrindandi. Tónlistin hefur enga skoðun. Hún fullyrðir ekki neitt. Hún ætlast ekki til að maður skilji hana á ákveðinn hátt; hún gefur bara í skyn. Það er á ábyrgð flytjandans að koma þessu til skila. Það er þetta sem gerir mann óstyrkan fyrir tónleika. Ekki það að slá feilnótu, heldur að missa marks.“

Afmælistónleikarnir

Tónlistarveisla

Daginn eftir áttræðisafmæli Jónasar Ingimundarsonar, hinn 31. maí kl. 17, verður opið hús í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, þar sem hann í hópi vina fagnar þessum tímamótum. Í þá tónlistarveislu eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir, og er best að hafa samband við miðasölu Salarins til að tryggja sér sæti.

Höf.: Orri Páll Ormarsson