Sterkur Benedikt Gunnar Óskarsson lék gríðarlega vel í fyrri leiknum gegn Olympiacos og skoraði tíu mörk í sínum síðasta heimaleik með Val í bili.
Sterkur Benedikt Gunnar Óskarsson lék gríðarlega vel í fyrri leiknum gegn Olympiacos og skoraði tíu mörk í sínum síðasta heimaleik með Val í bili. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er geggjað. Maður getur ekki beðið eftir að spila seinni leikinn,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson leikmaður Vals í samtali við Morgunblaðið í rútuferð frá Eretríu til Aþenu í Grikklandi í gær

Í Aþenu

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Þetta er geggjað. Maður getur ekki beðið eftir að spila seinni leikinn,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson leikmaður Vals í samtali við Morgunblaðið í rútuferð frá Eretríu til Aþenu í Grikklandi í gær. Þar mætir Valsliðið Olympiacos frá Grikklandi í seinni úrslitaleik Evrópubikarsins í handbolta klukkan 17. Keppnin er sú þriðja sterkasta í álfunni.

Valur vann fyrri leikinn, 30:26, á heimavelli fyrir viku og fer því með fína stöðu í erfiðan útivöll í dag. Valur kom mörgum á óvart með því að komast í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð en það er næststerkasta keppni Evrópu á eftir Meistaradeildinni.

„Eftir Evrópudeildina í fyrra fannst mér við eiga heima í þeirri keppni. Þegar við fórum síðan í þessa var alltaf markmiðið að fara í úrslit. Við vildum reyna að vinna þetta og ég átti alveg eins von á þessu þegar tímabilið byrjaði,“ sagði Benedikt.

Pabbi er brenndur

Valur fór í undanúrslit árið 2017 en féll úr leik gegn Turda frá Rúmeníu þar sem flestir eru sammála um að dómarar leiksins hafi verið spilltir og gert allt í sínu valdi til að láta Val tapa. „Pabbi er svolítið brenndur af því og það væri skemmtilegt að ná í þennan titil fyrir hann líka,“ sagði Benedikt en faðir hans, Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfar Val.

Benedikt lék sinn síðasta leik á Hlíðarenda í fyrri leiknum gegn Olympiacos, í bili hið minnsta, en hann hefur samið við norska félagið Kolstad og gengur í raðir þess fyrir næsta tímabil. Hann varð klökkur í viðtali við RÚV strax eftir leik.

„Ég átti erfitt með þetta viðtal sem ég fór í og það var strax eftir leik á meðan allt var að hellast yfir mann á sama tíma. Maður sá alla vini sína og áttaði sig á því að maður væri að spila þarna í síðasta skipti. Það var tilfinningarík stund. Það var gott að ná að kveðja þetta með góðum leik og allri þessari stemningu.“

Búinn að vinna alla hina

Íslenskt félagslið hefur aldrei unnið Evróputitil og geta Valsmenn því skrifað söguna með jákvæðum úrslitum í Aþenu í dag. Benedikt hefur unnið alla titla sem í boði eru heima og væri það fullkominn endir á góðum ferli hjá Val að verða Evrópubikarmeistari.

„Það væri auðvitað mjög stórt. Maður er búinn að vinna alla hina titlana með Val. Það væri mjög stórt að ná þessum líka og skrifa söguna og allt það. Það er mjög stórt og skemmtilegt að við getum verið fyrsta íslenska liðið til að vinna Evrópukeppni,“ sagði hann.

Spenntur fyrir landsliðinu

Benedikt æfði með A-landsliðinu fyrir leikina við Eistland í umspili um sæti á HM fyrr í mánuðinum. Hann var þó ekki í hópnum og á því enn eftir að spila sína fyrstu mótsleiki með A-landsliðinu en er þó kominn með tvo A-landsleiki.

„Ég spilaði vináttuleikina í Grikklandi en það er ekki það sama og að spila alvöruleiki. Ég er mjög spenntur að fá kallið ef það kemur,“ sagði Benedikt.

Eins og áður hefur komið fram er Benedikt á leiðinni í norska félagið Kolstad fyrir næstu leiktíð. Liðið hefur verið það besta í Noregi undanfarin ár og leikur í Meistaradeild Evrópu. Hann er því á leiðinni í stórt félag þegar hann hefur atvinnumannaferilinn erlendis.

„Mig langaði alltaf að taka eitthvert svona skref. Ég er búinn að hugsa þetta svolítið og ég vildi finna gott félag þegar ég færi út. Ég vildi ekki fara út bara til að fara út. Þegar þetta kom var erfitt að segja nei. Þetta er stórt félag sem spilar í Meistaradeildinni og það heillaði mikið.

Þeir heyrðu í umboðsmanninum á síðasta tímabili á meðan við vorum í Evrópukeppninni. Það var áhugi beggja aðila en ég vildi ekki fara eftir síðasta tímabil og þeir vildu líka frekar fá mig núna í sumar. Mér líst vel á þetta,“ sagði Benedikt.

Hann var væntanlega svipað mikið í Valsheimilinu og heima hjá sér þegar hann ólst upp. Faðir hans Óskar Bjarni þjálfaði hann lengi í yngri flokkum og þá spilaði hann með bróður sínum Arnóri Snæ Óskarssyni áður en Arnór samdi við Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Þeir feðgar og bræður voru því mikið saman en verða allir hver í sínu landinu á næsta tímabili.

„Það verður skrítið. Ég held að maður átti sig ekki almennilega á því fyrr en maður er farinn og er orðinn einn. Það verður aðeins öðruvísi,“ sagði hann.

Þrír Íslendingar hjá Kolstad

Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur leikið með Kolstad undanfarin ár og Sveinn Jóhannsson samdi við félagið á dögunum. Það verða því þrír Íslendingar hjá félaginu á næstu leiktíð.

„Ég hef eiginlega ekkert heyrt í Svenna þar sem hann er nýbúinn að skrifa undir. Ég þekki hann samt ágætlega því við erum með sama styrktarþjálfara. Ég er búinn að ræða við Sigvalda og hann hefur hjálpað mér með íbúð og svona. Sigvaldi talaði mjög vel um þetta enda nýbúinn að skrifa undir mjög langan samning. Honum líður mjög vel þarna,“ sagði Benedikt.