Arnar Þór Jónsson á heimili sínu í Garðabænum.
Arnar Þór Jónsson á heimili sínu í Garðabænum. — Morgunblaðið/Eyþór
Ég hef horft á mannlífið frá mörgum útsýnishólum og kynntist fólki úr öllum áttum sem héraðsdómari.

Sunnudagsblaðið sest niður með Arnari Þór Jónssyni forsetaframbjóðanda á heimili hans í Garðabænum. Hljóðfæri eru áberandi í stofunni en Arnar kannast ekki við að geta leikið vel á hljóðfæri. Börnin séu hins vegar músíkölsk og eiginkonan Hrafnhildur Sigurðardóttir er söngkona.

Arnar er alinn upp í Garðabænum og býr raunar í sömu götu og hann gerði þá. Hann nam lögfræði fljótlega eftir framhaldsskólagönguna en í uppvextinum velti hann fyrir sér að verða kennari eða íþróttakennari og síðar kom til greina að fara í sagnfræði. „Þegar ég var krakki hafði ég líklega frekar lágstemmdar hugmyndir um hvað ég vildi verða og því var forsetaframboð ekki inni í myndinni. En lífið er rússíbani og í spænskumælandi löndum er það orðað: „la vida da muchas vueltas.“ Ég er staddur í einni beygjunni í rússíbananum og það var óvænt beygja en vonandi skemmtileg þótt kröpp sé,“ segir Arnar sem fæddist í Eyjum.

„Ég er fæddur í Vestmannaeyjum fyrir gos. Eitt af því sem ég hef áttað mig á er að gosið og eftirmálar þess reyndist mér þungbært en ég er kominn í gegnum það. Ég ólst upp í góðu umhverfi í Garðabænum og átti hér góða vini. Ég fékk að upplifa eitt og annað á yngri árum því ég fór í sveit, í málaskóla til Englands og sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Var einnig eitt ár í Austurríki þegar ég var í laganámi,“ segir Arnar og hann hefur verið í snertingu við stjórnsýsluna, háskólastigið og atvinnulífið.

Ferðataska sem ætti að henda

„Ég hef starfað í stjórnsýslunni, innan dómstólakerfisins, í háskólanum auk þess að vera lögmaður og ég vann meira að segja í banka í nokkra mánuði 2005. Ég hef horft á mannlífið frá mörgum útsýnishólum og kynntist fólki úr öllum áttum sem héraðsdómari. Þar þurfti ég að horfast í augu við hræðilegar heimilisaðstæður í sumum tilfellum. Ég hef kynnst fólki sem kallað er ógæfufólk en einnig fólki sem gegnir æðstu embættum á landinu og það er þroskandi að kynnast slíkri breidd í mannlífinu.“

Arnar fór í sálgæslunám og segir það hafa gert sér afskaplega gott. „Já það er diplómanám í endurmenntun Háskóla Íslands og gengur út á að styðja við fólk sem gengur í gegnum erfið tímabil eða er að vinna úr áföllum. Gagnaðist þetta mér til dæmis sem dómari því þar var ég oft í hlutverki að sætta foreldra sem deildu um forsjá barns eða þegar ég vildi reyna að skilja aðstæður fólks sem komið var á vondan stað í lífinu. Sálgæslunámið reyndist gott verkfæri til að fræðast betur um hina litríku flóru mannlífsins og allan þann farangur sem við öll burðumst með á bakinu en viljum ekki gera. Því miður erum við oft að burðast með ferðatösku sem við ættum bara að henda frá okkur. Fyrst er þó ágætt að opna þessa ferðatösku og velja hverju við viljum halda úr henni áður en hún fer á haugana. Öll þessi efnishyggja sem einkennir líf okkar gæti hugsanlega stafað af því að við séum á einhvers konar flótta frá því að horfast í augu við okkur sjálf.“

Úrslitin ráðast á lokakaflanum

Arnar segir nokkuð hafa borið á umræðu í kosningabaráttunni sem eigi ekki við þegar forsetakosningar séu annars vegar. Spurður um hvort eitthvað hafi komið sér á óvart er hann gagnrýninn á nálgun fjölmiðla.

„Ég verð að segja að komið hefur mér á óvart hversu mikið fjölmiðlar vilja gera úr skoðanakönnunum sem eru augljóslega unnar með lítið þýði að baki og svarhlutfall nálægt 50%. Ég geri athugasemdir við þá hugmynd að það liggi fyrir hverjir muni berjast um toppsætin í kosningunni, sérstaklega í ljósi þess hversu margir eiga eftir að ákveða sig. Ég velti því fyrir mér hvort fjölmiðlar eigi að sleppa því að gera skoðanakannanir þegar stutt er í kosningar og virða frjálsa skoðanamyndun fólks. Hvað aðra frambjóðendur varðar finnst mér þeir hafa komið vel fram í meginatriðum og kosningabaráttan hefur verið málefnaleg. Ég held raunverulega að úrslitin muni ráðast á lokakaflanum. Ég hef trú á dómgreind og skynsemi Íslendinga og þeir hafa sýnt áður að þeim er annt um frelsi sitt og sjálfstæði eins og Icesave kosningin undirstrikaði.“

Ganga sem ekki var kortlögð

Sagan sýnir okkur að forsetakosningar snúast að miklu leyti um persónur og sá sem gefur kost á sér þarf að selja sjálfan sig ef þannig má að orði komast. Hvernig finnst Arnari að setja sjálfan sig í þessa stöðu?

„Ég er í eðli mínu hlédrægur og feiminn. Fyrir vikið er framboðið því ótrúlega styrkjandi reynsla og er í raun sálræn áskorun. Í þessu ferli hef ég þurft að horfast í augu við sjálfan mig og það hefur komið mér á óvart hvað ég hef þurft að takast á við í því sambandi. Eftir að hafa ávarpað þá hluti þá get ég höndlað það betur næst. Ferlið er heilnæmt að þessu leyti, hreinsandi, styrkjandi og hollt. Þessu má lýsa sem göngu með dölum og hæðum sem ég hefði ekki getað kortlagt,“ útskýrir Arnar og nefndir dæmi um hvernig var fyrir hann að fá sjónvarpsfólk inn á gafl til sín.

„Hingað til okkar kom fréttakona til að taka upp innslag fyrir sjónvarp. Hún fór að tala um það sem fyrir augu bar í stofunni og konan mín sagði henni frá. Þær fóru að tala um brúðkaupsmynd af okkur og töluðu um mömmu mína. Ég bara gat ekki talað um þetta og það þyrmdi bara yfir mig. En núna get ég sagt þér frá þessu sem er merkilegt. Þegar maður hefur ávarpað svona hluti einu sinni þá kemst maður auðveldlega í gegnum þá næst. Við erum gjarnan með varnarmúra í kringum okkur og þegar þeir fara er maður berskjaldaður. Þessu mætti kannski líkja við fiðrildið sem kastar af sér púpunni og skurninni en getur styrkst og tekið flugið á nýjan hátt,“ útskýrir Arnar og telur sig raunar vera á krossgötum. Fari svo að hann nái ekki kjöri þá sjái hann fyrir sér að reyna sig í nýju starfi.

Bremsulaust stjórnarfar

Hvenær fór Arnar að íhuga að gefa kost á sér í embætti forseta?

„Áhyggjur af stjórnarfarinu á Íslandi hafa gerjast í undirvitund minni um nokkurra missera skeið. Eftir á að hyggja getur verið að þessi fræ hafi farið að spíra þegar við hjónin heimsóttum Fíladelfíu í Pennsylvaníu í nóvember í fyrra, þar sem ég sá m.a. Frelsisbjölluna [Liberty bell] með eigin augum. Þegar ég heyrði að Guðni ætlaði að hætta, þá sá ég fyrir mér að möguleiki væri að koma umræðu af stað um stöðuna eins og ég sé hana. Forsetaembættið er mikilvægt. Þar hafa menn bæði ræðupúlt en einnig tækifæri til að grípa í taumana ef þess þarf. Stjórnarfarið hefur í reynd verið bremsulaust í allt of langan tíma. Alþingi stendur að mörgu leyti veikum fótum gagnvart þeim ytri öflum sem þrýsta á það, hvort sem það eru alþjóðlegar stofnanir eða alþjóðleg stórfyrirtæki. Neitunarvaldinu sem við höfum í EES hefur aldrei verið beitt. Auk þess hefur embættismannaveldinu vaxið fiskur um hrygg og þráðurinn virðist vera orðinn lengri á milli hins sanna valdhafa, sem er þjóðin, og þeirra sem fara með völdin á hverjum tíma. Rétti maðurinn til að tala inn í þennan veruleika tel ég vera þjóðkjörinn forseti sem gætir hagsmuna almennings í landinu,“ segir Arnar en tekur fram að synjunarákvæðið sé neyðarhemill og hann sjái ekki fyrir sér að grípa ítrekað í hann. Það geri forseti ekki nema hann telji grafalvarlegt ástand vera fyrir hendi.

„Ég treysti mér algerlega til að gera greinarmun á stóru og litlu málunum. Sem lögfræðingur og fyrrverandi dómari er ég þjálfaður í því að greina á milli aðalatriða og aukaatriða. En ég tel að eftirliti forsetans megi sinna á fyrri stigum mála, til að mynda með samtölum við ráðherra og þingmenn til að greina hvað sé á leiðinni til þingsins. Þá væri hægt að hægja á málum og þá eru minni líkur að mál þurfi að steyta á því sem við köllum synjunarheimild forseta.“

Stuðningur sterkra kvenna

Spurður um hvað sé mikilvægast varðandi forsetaembættið segir Arnar að forsetinn sé þjóðarleiðtogi inn á við. Hann geti haft ýmis jákvæð áhrif og virðingu fyrir öðru fólki megi til dæmis efla hérlendis.

„Forseti Íslands er þjónn almennings í landinu og er eini maðurinn sem kjörinn er beinni kosningu til að gæta hagsmuna almennings. Á ögurstundu getur hann ávarpað þjóðina og þingið. Forsetinn getur talað kjark í þjóðina þegar þess þarf og huggað þegar gefur á bátinn. Hann á að vera fulltrúi þjóðarinnar út á við en ég tel að meginhlutverk forsetans sé að vera þjóðarleiðtogi inn á við. Um leið getur hann beint sjónum að því sem hægt sé að gera betur og þeim hugsjónum sem Ísland er byggt á varðandi frið, farsæld, sátt, mannúð og virðingu fyrir öðru fólki. Mér hefur þótt fjara undan því á síðustu árum þar sem Íslendingar eru farnir að tala of illa um náungann, og tala niður til náungans, í stað þess að lyfta upp og hampa því sem vel er gert. Ég tel að það sé í reynd farið að hamla tjáningarfrelsinu hvernig þeir eru kýldir niður sem ekki ganga í takti við hópinn. Við hljótum að vilja hvetja fólk til þátttöku í opinberri umræðu, ekki fæla það frá slíkri þátttöku.“

Þegar talið berst að fyrirmyndum í lífinu segist Arnar verið þakklátur fyrir að hafa verið umvafinn sterkum konum á lífsleiðinni.

„Ég hef átt margar góðar fyrirmyndir og er alinn upp af fólki sem var samviskusamt og allir í mínu nærumhverfi tileinkuðu sér gott vinnusiðferði. Mitt fólk innrætti mér góða siði og gerð var sú krafa að maður væri til fyrirmyndar. Mér var kennt að allir sem verða á vegi okkar í lífinu séu kennarar okkar á einhvern hátt. Á þeim forsendum hef ég lært að virða fólk sem kann að berjast áfram af þrautseigju þótt það hafi orðið fyrir mótlæti í lífinu. Ef ég ætti að nefna fræga persónu þá hef ég sagt að Jesús Kristur sé fyrirmynd. Einnig eru fyrirmyndir sem standa mér nærri eins og Hrafnhildur konan mín. Hún hefur verið mín stoð og stytta í 34 ár og saman eigum við fimm vel heppnuð börn. Ég hef alla mína tíð verið svo lánsamur að eiga stuðning sterkra kvenna með góða dómgreind. Ég er sérlega þakklátur fyrir það og nefni þar einnig móður mína, ömmu og móðursystur mínar.“