[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Heildargreiðslur RÚV til verktaka námu 993 milljónum króna í fyrra. Þær námu til samanburðar 740 milljónum króna árið 2018. Sú upphæð er um 995 milljónir króna á verðlagi í apríl, samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar, sé upphæðin núvirt frá og með desember 2018.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Heildargreiðslur RÚV til verktaka námu 993 milljónum króna í fyrra. Þær námu til samanburðar 740 milljónum króna árið 2018. Sú upphæð er um 995 milljónir króna á verðlagi í apríl, samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar, sé upphæðin núvirt frá og með desember 2018.

Greiðslur til verktaka hafa því staðið í stað á þennan mælikvarða en verktökum fjölgað eins og grafið hér til hliðar sýnir.

Haft var eftir Stefáni í Morgunblaðinu á dögunum að verktakar hjá RÚV væru „eðli málsins samkvæmt ekki starfsmenn og þurfa því ekki leyfi til að sinna öðrum störfum líkt og gildir um fastráðna starfsmenn“.

Tilefnið var að verktaki hjá RÚV, sem var áberandi sjónvarpsmaður, hafði samhliða fengið verktakagreiðslur frá Reykjavíkurborg. Það vakti spurningar enda hefur RÚV meðal annars gert samninga við borgina vegna sölu byggingarlóða í Efstaleiti og vegna leigu á hluta Útvarpshússins.

Sinna afmörkuðum verkefnum

Stefán staðfesti aðspurður að þetta gilti um alla verktaka hjá RÚV en þeir voru samtals 924 í fyrra.

„Verktakar eru eðli máls samkvæmt að sinna afmörkuðum verkefnum hverju sinni. Skýrasta dæmið um það eru t.d. tökumenn, sem starfa jöfnum höndum við framleiðslu á efni hjá öðrum fjölmiðlum og framleiðendum efnis, við gerð kvikmynda, sjónvarpsþátta og svo framvegis,“ sagði Stefán í skriflegu svari.

Af þessu leiðir að tæplega þúsund verktakar sem störfuðu fyrir RÚV í fyrra voru undanþegnir kröfum um að starfa ekki samhliða fyrir aðra aðila. Almennt er slíkt óheimilt á fjölmiðlum til að hindra hagsmunaárekstra nema sérstök heimild sé veitt.

Hefur fjölgað um 60%

Þá fengu 83 verktakar hjá RÚV greiddar fimm milljónir eða meira í fyrra. Þeir voru til samanburðar samtals 52 2018 og hefur þeim því fjölgað um 60% síðan þá. Á það ber að líta að þessar tölur eru á verðlagi hvers árs.

Jafnframt hefur verktökum hjá RÚV sem hafa samtals yfir þrjár milljónir á ári fjölgað úr 76 árið 2018 í 94 í fyrra eða um tæpan fjórðung.

Loks hefur verktökum sem hafa undir 300 þúsund fjölgað úr 518 árið 2018 í 559 í fyrra eða um 8%. Ýmsar ályktanir má draga af þessum tölum. Ein er sú að RÚV hefur verulegt vægi í hagkerfi skapandi greina á Íslandi. Margir hafa enda tekjur af verktöku.

Samkvæmt ársreikningi Ríkisútvarpsins ohf. 2023 námu laun og launatengd gjöld 3,43 milljörðum í fyrra. Þá námu laun og launatengd gjöld hjá RÚV sölu ehf. 233,2 milljónum í fyrra. Björn Þór Hermannsson fjármálastjóri RÚV áréttar að fjárhæðirnar séu allar án VSK en RÚV geri VSK upp sérstaklega í heild sinni.