Sigurður Halldór Bjarnason
Sigurður Halldór Bjarnason
Við eigum að ætlast til meiri mannkosta og heilinda af þeim sem fara með æðstu völd þjóðarinnar en við gerum til fólks almennt.

Sigurður Halldór Bjarnason

Núna hefur mikið verið talað um að lög og reglugerðir frá Evrópusambandinu fljóti viðstöðulaust í gegnum Alþingi Íslendinga, og renni í framhaldi viðstöðulaust í gegnum undirritun forseta á Bessastöðum.

En erum við ekki að missa sjónar á því sem skiptir máli?

Ef þingmenn og ráðherrar samþykkja og skrifa undir lög sem annaðhvort eru í andstöðu við hagsmuni íslenska ríkisins eða stjórnarskrá lýðveldisins þá eru þeir brotlegir við þann sáttmála sem þeir starfa undir.

Berist lög eða reglugerðir inn á borð forseta sem eru ekki til hagsmuna ríkis og þjóðar, þá ber honum að hafna þeim. Og þegar forseti neitar að skrifa undir lög eða reglur frá þinginu er hann að lýsa vantrausti á þingið. Og lýsi hann vantrausti á þingheim þá á hann í framhaldi að taka til baka umboð þjóðarinnar og boða til kosninga.

Íslenskir þingmenn, og í beinu framhaldi ráðherrar, eru kosnir og ráðnir til að gæta og sinna hagsmunum þjóðarinnar eins og best þeir geta. Og ráðherrar fá afhent umboð þjóðarinnar og í framhaldi vald yfir ráðuneytum og ríkisfjármunum.

Í öllum orðaleikjunum og rökræðunum er snyrtilega skautað fram hjá aðalatriðunum í þessu máli. Þegar þingmaður eða ráðherra tekur persónulega hagsmuni eða hagsmuni samtaka og/eða þrýstihópa fram yfir hagsmuni þjóðarinnar þá er hann brotlegur í starfi og á tafarlaust að vera vikið til hliðar. Sá flokkur sem hann situr fyrir á að bregðast samstundis við og víkja viðkomandi úr þingsæti. Verði ráðherrar uppvísir að því að brjóta lög eða stjórnarskrá á flokkur viðkomandi þingmanns tafarlaust að svipta þá stöðu sinni.

Því rétt eins og forseti afhendir þeim stjórnmálaflokkum sem þjóðin hefur valið að treysta næstu fjögur árin umboð til að stofna ríkisstjórn og fara þannig með vald þjóðarinnar og ríkisins fram að næstu kosningum, þá hefur hann sama vald til að kalla þetta umboð til baka. Forseti lýðveldisins er æðsti ráðamaður þjóðarinnar og í umboði hennar er hann handhafi og umboðsmaður allra þeirra valda og fjármuna sem íslenska ríkið á.

Þess vegna á hann að taka umboðið af sitjandi stjórn ef upp koma afbrot í störfum hennar. Því þegar fólk er valið í æðstu embætti þjóðarinnar þá leyfist því ekki að gera mistök. Því það er til nóg af fólki sem vill sinna þessum störfum af heilindum og samviskusemi. Og þegar ráðherrar gefa eða framselja vald „sitt“ til einkaaðila eða fyrirtækja þá er það afbrot. Því allt það vald sem ráðherra hefur er einungis að láni hjá þjóðinni.

Við eigum að ætlast til meiri mannkosta og heilinda af þeim sem fara með æðstu völd þjóðarinnar en við gerum til fólks almennt. Og þess vegna eigum við aldrei að sætta okkur við undirferli og lygar frá þeim sem fá umboð frá okkur til að stjórna landinu okkar. Það er okkar vilji og löngun að velja færasta og besta fólk á Íslandi til að stjórna ríkinu.

Alþingi og ríkisstjórn Íslands eiga að vera bæði meistaradeildin og landsliðið í mannkostum og samviskusemi. Það á ekki að vera samansafn af hagsmunapoturum og skrumurum sem ætla aldrei að standa við neitt af því sem þeir lofuðu. Við eigum ekki að sætta okkur við meðalmennsku og kæruleysi hjá þeim sem ráða okkar lífi. Því þeir sem stjórna ríkinu eru yfirmenn okkar, yfirmenn sem við völdum sjálf með lýðræðislegum kosningum. Við getum yfirleitt ekki handvalið þá sem við viljum helst sjá á þingi, við þurfum að kjósa á milli flokka. Flokka sem eru samansafn af bæði góðu og slæmu fólki. Forsetakosningar á Íslandi eru einu kosningarnar þar sem við getum valið á milli einstaklinga.

Og eins og þjóðmálin eru í dag þá horfir öll þjóðin á ríkisstjórnina algjörlega viljalausa stjórnast af fyrirskipunum annarra ríkja, og jafnvel fyrirskipunum alþjóðlegra stofnana og stórfyrirtækja, þar sem reglulega koma fram í fjölmiðlum ný met í vantrausti á ríkisstjórn, alþingi, heilbrigðiskerfið og löggæslu.

Í öllu þessu fárviðri þurfum við að velja okkur betri forseta en nokkurn tímann áður. Oft var þörf, nú er nauðsyn. Við megum ekki velja okkur forseta sem er hluti af spillingu undanfarinna ára eða einungis fyrir minnihlutahópa. Ekki heldur forseta sem er í framboði því honum leiðist eða er nú þegar starfsmaður alþjóðavæðingarinnar. Við verðum að velja okkur forseta sem sér hvað er að og vill breyta þessu ástandi, forseta sem er þarna fyrir íslensku þjóðina en ekki Evrópusambandið. Við verðum að velja forseta sem er lögfróður því þar liggja vandamálin í dag. Við verðum að velja okkur forseta sem er ekki skástur, heldur bestur í forsetaembættið.

Þess vegna ætla ég að kjósa Arnar Þór Jónsson.

Mér finnst enginn annar koma til greina í mikilvægasta embætti íslenska ríkisins.

Höfundur er kerfisfræðingur.