Ingveldur Guðrún Valdimarsdóttir, Inga, fæddist í Reykjavík 28. september 1933. Hún lést á Landspítalanum 26. mars 2024.

Faðir hennar var Valdimar Jónsson, stýrimaður og verslunarmaður þar og á Akureyri, f. 4. mars 1900 í Stykkishólmi, d. 5. febrúar 1959 og móðir hennar Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir, Hugrún, rithöfundur, f. 3. október 1905 í Skriðu í Svarfaðardal, d. 8. júní 1996. Þau giftust 1932. Seinni eiginmaður Filippíu, gift 1971, var Einar Eiríksson áður sjómaður f. 25. ágúst 1905, d. 13. ágúst 2003.

Bræður Ingu voru Kristján Eyfjörð, f. 27. febrúar 1935, d. 12. janúar 1963, eiginkona hans var Bryndís Helgadóttir, f. 23. maí 1940, d. 29. mars 2024 og Helgi Þröstur, f. 16. september 1936, d. 6. ágúst 2018, fyrri eiginkona hans var Ólöf Vilhelmína Ásgeirsdóttir, f. 28. júlí 1935, d. 30. apríl 2019, synir þeirra: 1) Ásgeir Rúnar, f. 5. nóvember 1957, synir hans Hugi Hrafn og Arnaldur Muni. 2) Valdimar, f. 22. desember 1962, börn hans Helgi Már, Sigríður Ólöf og Jóhann Daði. Seinni kona Helga Guðrún Agnarsdóttir, f. 2. júní 1941, börn þeirra: 1) Birna Huld, f. 15. desember 1964, börn hennar Kristján Helgi Swerford, Lilja Guðrún Filippía og Valdís Sylvia Beatrice. 2) Agnar Sturla, f. 31. júlí 1968, börn hans Atli Snorri og Guðrún Diljá. 3) Kristján Orri, f. 24. október 1971, synir hans Kjartan Þorri og Agnar Guðmundur.

20. júlí 1966 giftist Inga Ágústi Guðmari Eiríkssyni garðyrkjumanni, f. 14. apríl 1937. Faðir hans var Eiríkur Ágústsson verslunarmaður, f. 6. október 1909, d. 16. apríl 1984 og móðir hans Ingigerður Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 21. september 1901, d. 20. júní 1999. Sonur Ágústs er Elfar Ingi, f. 17. ágúst 1959. Þau Inga og Ágúst tóku að sér fósturson, Þórhall Jón Jónsson, f. 21. apríl 1967, d. 13. apríl 2023.

Hinsta kveðja Ingu fór fram í kyrrþey í kapellu Fossvogskirkju 19. mars 2024.

Inga var elsta barn foreldra sinna, sem þá bjuggu í Reykjavík, og ólst þar upp ásamt bræðrum sínum. Á bernskuárunum geisaði seinni heimsstyrjöldin, margir fluttu til Reykjavíkur utan af landi, húsnæðisskortur og fólk þurfti oft að flytja. Valdimar vann sem stýrimaður á togara og við verkamannastörf, Filippía gætti barnanna og stundaði ritstörf. Ingveldur Jónasdóttir, fósturmóðir Valdimars, bjó einnig hjá þeim. Inga bar nafn þessarar ömmu sinnar og varð strax dugleg, byrjaði snemma að vinna við barnagæslu og fleiri störf sem börnum eða unglingum buðust. Gætti ung sona skólastjórahjónanna á Hvanneyri að sumarlagi og síðar sem unglingur 30 barna á Litlu-Tjörnum, barnaheimili Góðtemplara á Ljósavatni. Hún gekk í Laugarnesskóla og bjó þar í heimavist einn vetur. Á hverju vori fór Filippía með börnin norður í Svarfaðardal, þar sem þau dvöldu á Brautarhóli hjá ömmu og afa sumarlangt. Þannig urðu til og héldust sterk bönd við fjölskylduna og sveitina. Þegar foreldrar Ingu fluttu til Akureyrar 1946 fór Inga í Héraðsskólann á Laugum þar sem móðurbróðir hennar var kennari og síðar skólastjóri, og þaðan varð hún gagnfræðingur 1949. Hún fór svo í húsmæðraskóla í Svíþjóð 1951. Síðar fór hún í Hjúkrunarskóla Íslands og lauk námi þar 1958. Hún starfaði víða við hjúkrun og reyndist dugandi, úrræðagóð og umhyggjusöm og aflaði sér fjölbreyttrar reynslu. Vann við Sjúkrahús Patreksfjarðar frá vori 1958 til hausts 1959, Sjúkrahús Akraness frá hausti 1959 til febrúar 1962, Elli- og hjúkrunarheimili Grundar frá febrúar 1962 til maí sama árs og Sjúkrahús Hvítabandsins frá 1. júní 1962 til 1968. Síðan við skóla- og heimahjúkrun við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur 1968-71. Þau Ágúst og Inga keyptu húsið Teig í Laugarási 1970 og þar setti Ágúst upp gróðurhús með agúrkurækt. Þá tóku þau Þórhall í fóstur en hann var þriggja ára og ólst þar upp með þeim og hjálpaði Ágústi með agúrkuræktunina. Inga vann við Heilsugæslustöðina í Laugarási 1971-76 og síðar við Sjúkrahús Suðurlands, Selfossi, frá 1977-1997 en þá fluttu þau aftur til Reykjavíkur. Þórhallur flutti þá á sambýli og bjó þar síðustu ár sín en hafði regluleg samskipti við fósturforeldra sína. Við komuna til Reykjavíkur fór Inga að vinna á Heilsuverndarstöðinni og svo á Grensásdeildinni. Inga stundaði síðar framhaldsnám í stjórnun við Nýja hjúkrunarskólann 1988 og einnig nám í bráðahjúkrun 1992-3. Þau Ágúst undu vel saman og bjuggu lengst á Snorrabraut 81 en gerðu víðreist um heim í fríum sínum og nutu þess mjög. Inga tamdi sér snemma að vera sjálfri sér nóg og hafði ekki mikla þörf fyrir félagsskap annan en við sína nánustu en hafði mikið yndi af bóklestri og átti mikið bókasafn. Ævinlega var gott milli þeirra systkina, hennar og Helga og fjölskyldu hans. Síðustu árin bjuggu þau Ágúst í þægilegri íbúð við Dalbraut en Inga átti þá við heilsubrest að stríða og lést níræð á Landspítala 26. mars sl. Ég minnist Ingu mágkonu minnar með hlýju, hún var heilsteypt, traust og vönduð manneskja sem helgaði sig vinnu sinni, eiginmanni og syni.

Guðrún Agnarsdóttir.