Alda Útsýnið yfir Fossvogsbrúna frá Kópavogi yfir til Reykjavíkur.
Alda Útsýnið yfir Fossvogsbrúna frá Kópavogi yfir til Reykjavíkur. — Tölvumynd/Efla/Beam Architects
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur samþykkti á síðasta fundi sínum að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir vinnu við landfyllingar sem ráðast þarf í vegna brúargerðar yfir Fossvog. Skrifstofu stjórnsýslu og gæða var falið að gefa út leyfið

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur samþykkti á síðasta fundi sínum að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir vinnu við landfyllingar sem ráðast þarf í vegna brúargerðar yfir Fossvog. Skrifstofu stjórnsýslu og gæða var falið að gefa út leyfið.

Hin nýja Fossvogsbrú er hluti af 1. áfanga uppbyggingar vegna borgarlínu en um er að ræða lágreista brú með akrein almenningsvagna í miðju og aðskildum stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur til hliðar. Hún verður 270 metrar að lengd. Á landfyllingum sitt hvorum megin brúarinnar verða áningarstaðir ásamt tengingu brúarinnar við önnur samgöngukerfi.

Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfið. Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að framkvæmdatími sé áætlaður þrjú ár. Vinna við gerð landfyllingar hefjist í sumar og verklok verði árið 2027. Gildir leyfið til loka þess árs.

Kostnaður við landmótun og yfirborðsfrágang er áætlaður 2,1 milljarður króna.

Tilskilin leyfi fyrir framkvæmdinni eru fyrir hendi af hálfu sveitarfélaganna Reykjavíkur og Kópavogs.

Fram kemur í umsögn verkefnastjórans að neikvæð áhrif verði mest á framkvæmdatíma. Þá megi búast við ónæði vegna fyrirhugaðra framkvæmda og vegna efnisflutninga að svæðinu. Eðli málsins samkvæmt verði hér um tímabundin áhrif að ræða.

Efnt var til samkeppni um Fossvogsbrú og bar tillagan Alda sigur úr býtum. Fram hefur komið í fréttum að kostnaðaráætlanir hafi stórhækkað frá því sem lagt var upp með. Hefur verið kallað eftir endurskoðun á verkinu. sisi@mbl.is