Krafinn svara Arnar Þór Jónsson er nýjasti gestur Spursmála. Hann er síðastur sex frambjóðenda til þess.
Krafinn svara Arnar Þór Jónsson er nýjasti gestur Spursmála. Hann er síðastur sex frambjóðenda til þess.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, segir að formleg völd forseta Íslands bjóði upp á mun meiri íhlutun í stjórnskipan landsins en forsetar lýðveldisins hafa fram til þessa kosið að beita

Spursmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, segir að formleg völd forseta Íslands bjóði upp á mun meiri íhlutun í stjórnskipan landsins en forsetar lýðveldisins hafa fram til þessa kosið að beita. Sjálfsagt sé, miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar, að forsetinn beiti sér með ákveðnari hætti, m.a. til þess að ná fram ákveðinni siðbót í íslenskum stjórnmálum. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Arnar Þór í Spursmálum en það er aðgengilegt á mbl.is og á öllum helstu streymisveitum.

„Á ögurstundu getur forseti gripið inn í. Ólafur Jóhannesson orðaði það þannig í bók sinni um stjórnskipun Íslands að þegar það eru uppi óvenjulegar aðstæður í stjórnkerfinu á Íslandi þá er ekki hægt að gagnrýna forseta fyrir að beita því formlega valdi sem hann hefur samkvæmt stjórnarskránni. Ég tel að það séu óvenjulegar aðstæður uppi á Íslandi,“ segir Arnar.

Þegar hann er inntur eftir því með hvaða hætti þessi formlegu völd birtist vísar hann m.a. til samskipta forseta og ríkisstjórnar.

„Ég tel til dæmis að það sé býsna brýnt orðið að forseti eigi alvarleg samtöl við ráðherra, til að mynda á ríkisráðsfundi, kalli ráðherra þangað inn til þess að ræða brýnustu stjórnarmálefni Íslands. Mér sýnist ekki vanþörf á því að stuðla að einhverskonar siðbót í íslenskum stjórnmálum. Forseti gæti gert athugasemdir við að af stað fari hringekja þar sem ráðherra látist vera að bera ábyrgð á verkum sínum en setjist svo að nokkrum dögum eða vikum liðnum í annan ráðherrastól. Forseti samkvæmt stjórnarskrá skipar og veitir ráðherrum lausn frá embætti. Forseti ber að þessu leyti ábyrgð á því hvernig stjórnarfarið er í landinu ásamt ríkisstjórn.“

Þú segir að þú getir rætt þetta inni í ríkisráðinu, en ertu þá að halda því fram, af því að þú ert að vísa til Bjarna Benediktssonar …

„Og Svandísar Svavarsdóttur.“

Lýðveldið ekki einkafyrirtæki

Ertu að segja að þú gætir ímyndað þér að þær aðstæður kæmu upp að þú myndir neita að skipa ráðherra í embætti?

„Já, ég meina þetta. Því ég tel að þetta séu óvenjulegar aðstæður. Ég tel að stjórnmálamenn hafi of lengi umgengist í raun lýðveldið Ísland eins og að það sé einkafyrirtæki þeirra. Það eru augljóslega samgróningar milli stjórnmálaflokkanna á Íslandi. Valdið tilheyrir ekki þessu fólki. Forsetinn, sem eini þjóðkjörni maðurinn á þessum ríkisráðsfundum, þarf að gæta að hag almennings í landinu, verja okkur fyrir einhverskonar ofstjórn, ofríki og spillingu. Hann getur verið rödd heilbrigðrar skynsemi þegar svona aðstæður koma upp.“

En eins og með ráðherrana. Ef þú myndir sem forseti við þessar aðstæður segja, heyrðu félagi þú getur hætt hér sem fjármálaráðherra en þú ert ekki að fara að verða utanríkisráðherra á minni vakt, alla vega ekki strax. Þetta er bara stríðsyfirlýsing.

„Já, ég held að það sé bara allt í lagi að þetta viðnám sé veitt. Ef við ætlum að vera trú okkar stjórnarskrá okkar með öllu því sem í henni felst með „checks and balances“, þá held ég að forseti á svona stundu, bara sem dæmi, þurfi að veita raunverulegt viðnám.“

Virki nýja grein

Í forsetakosningum er alla jafna rætt talsvert um málskotsrétt forseta. Bendir Arnar Þór á að lengi vel hafi fræðimenn og álitsgjafar verið á þeirri skoðun að 26. grein stjórnarskrárinnar sem kveði á um þann rétt forseta væri í raun óvirk. Annað hafi komið á daginn þegar fimmti forseti lýðveldisins beitti henni. Þetta nefnir Arnar Þór þegar hann er spurður hvort hann gæti hugsað sér að virkja 25. grein stjórnlaganna, en hún kveður á um að forseti geti lagt frumvörp fyrir Alþingi, til samþykktar eða synjunar.

„Já, ég myndi treysta mér til þess og þá er ég ekki kominn út fyrir neinn ramma. Vegna þess að t.d. ríkisstjórn Íslands hefur ákveðnar skyldur samkvæmt stjórnarskrá og ef ríkisstjórnin vanrækir þær þá ber forseta að leggja fram frumvarp.“

Hvert yrði fyrsta frumvarpið?

„Ég er ekki farinn að hugsa svo langt, þetta er algjört neyðarúrræði og ég myndi ekki fara af neinu gáleysi með þetta. Ég er bara að segja að ef þingið eða ríkisstjórn eru að bregðast skyldum sínum, ef þau eru ekki að rækja stjórnskipulegar skyldur sínar eða að bregðast tilteknum hópum í samfélaginu, þá myndi ég ekki vera feiminn við að beita þessu ákvæði. En auðvitað þyrfti það að vera þannig að ráðherra yrði að mæla fyrir um þetta. En það er ekki vandamálið.“

Gagnrýnir kannanafyrirtæki og heilbrigðisyfirvöld

„Auðtrúa þú aldrei sért“

Arnar Þór segist leggja áherslu á það í uppeldi barna sinna að þau trúi ekki öllu því sem þeim er sagt. Horfa verði á heiminn með gagnrýnum efasemdaraugum. Í viðtalinu í Spursmálum er Arnar Þór t.d. mjög gagnrýninn á fyrirtækin sem framkvæma kannanir í aðdraganda kosninganna. Vill hann meina að í mörgum tilvikum hafi fyrirtækin aðra hagsmuni en þá að greina frá raunverulegum vilja fjöldans, þannig að þau reyni jafnvel að hafa áhrif á niðurstöður kosninga.

Arnar Þór hefur einnig verið gagnrýninn á yfirvöld og aðgerðir þeirra á tímum kórónuveirufaraldursins. Þau hafi t.d. fullyrt of margt um gagnsemi þeirra bóluefna sem lítið prófuð voru notuð til þess að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar alræmdu.

Í vðitalinu er Arnar Þór einnig spurður út í nýleg ummæli hans þar sem hann segist efast um að menn hafi nokkru sinni stigið fæti á tunglið. Segist hann ekki hafa rannsakað það mál, en hann hafi í raun verið að benda á að það sé ekki alltaf allt sem sýnist.