„Við erum öll í sama liði og þurfum alltaf að styrkja landið okkar sem eina heild,“ segir Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi.
„Við erum öll í sama liði og þurfum alltaf að styrkja landið okkar sem eina heild,“ segir Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sýn mín er alltaf að stækka möguleikana okkar með því að vinna saman. Þess vegna á orðið samvinna vel við af því að það er mín sýn.

Halla Hrund Logadóttir fann tíma til að mæta upp á Morgunblað á milli þess sem hún ferðast á milli landshluta og talar við kjósendur, enda er í nógu að snúast nú þegar styttist í kosningar. Hin brosmilda Halla Hrund staldraði fyrst við hjá áhugasömum stuðningsmönnum áður en hún settist niður með blaðamanni Sunnudagsblaðsins til að ræða um manneskjuna í framboði, sýn hennar á forsetaembættið og þau málefni sem hún brennur fyrir.

Að vinna fyrir almenning

Halla Hrund hefur lengi fundið sig í leiðtogahlutverki og segist hafa brennandi áhuga á samfélaginu.

„Rauði þráðurinn í mínum ferli hefur verið að vinna fyrir almenning eða að almannhag; í jafnréttismálunum, menningarmálunum og nú síðast í orkumálunum. Ég hef vitað hvar hjartað slær, fyrir landið okkar og fyrir almenning heilt yfir.“

Spurð hvaðan þessi áhugi á að taka forystu komi minnist Halla Hrund á sveitina sem hafði mikil áhrif á líf hennar. „Í sveitinni fékk ég ung að axla ábyrgð. Við sveitastörfin er maður sífellt að koma hlutum í framkvæmd og þaðan kannski má segja að komi þessi ástríða fyrir að vinna með fólki og klára verkefni.“

Halla Hrund segir þörfina fyrir að bæta samfélagið og byggja upp hluti hafa einkennt feril sinn að stóru leyti. Hægt er að líta til jafnréttisverkefna, starfa hennar við Harvard-háskóla við að byggja upp Arctic Initiative verkefnið og verkefni úr menningarstarfi.

„Sýn mín er alltaf að stækka möguleikana okkar með því að vinna saman. Þess vegna á orðið samvinna vel mína áherslur. Það gerast stórir hlutir ef við erum að þétta raðir og vinna saman að verkefnum. Þá verður útkoman miklu stærri og mikilvægari fyrir ólík svið og þar með fyrir landið okkar.“

Forsetinn öflugur liðsmaður

Spurð út í sýn sína á forsetaembættið sjálft segir Halla Hrund forsetann vera öflugan liðsmann sem styrkir ólík svið samfélagsins, sama hvort það sé menning, jafnréttismál, atvinnulíf eða samfélagsmál.

„Forsetinn getur einmitt dregið saman ólíka aðila, tengt saman fólk sem deilir sýn á ákveðin verkefni, veitt málum athygli með því að setja þau á dagskrá og hjálpað líka við að stækka tækifærin erlendis á þessum ólíku sviðum sem skipta okkur máli. Og auðvitað tala skýrt fyrir hagsmunum Íslands um leið,“ segir Halla Hrund og bætir við að forsetaembættið sé eina embættið sem þjóðin á öll saman. Þá segir Halla Hrund forseta eiga að fá samfélagið til að horfa á það sem sameinar okkur, ekki síst á þessum tímapunkti.

„Það er orðið meira bil á milli höfuðborgarinnar og landbsyggðarinnar, samfélagið okkar er orðið fjölbreyttara og það er meira bil á milli kynslóða heldur en áður. Einnig eru nú miklar tæknibreytingar og þá þarf forsetinn að vera sá aðili sem fær okkur til að horfa í sömu átt og átta okkur á því hvað við eigum sameiginlegt og efla bjartsýni í þjóðfélaginu okkar. Það skiptir máli og hjálpar okkur að halda í gleðina.“

Þegar kemur að valdheimildum forseta segir Halla Hrund forsetann ekki eiga að grípa stöðugt fram fyrir hendurnar á alþingi.

„Við erum með þingmenn sem allir kjósa til þess að sinna því hlutverki þannig að fyrir mér er það bara í aðstæðum sem eru mjög sérstakar. Ég hef nefnt auðlindamálin sem dæmi um mál sem geta haft langtímaafleiðingar. Ég mun beita mér fyrir vitundarvakningu þjóðarinnar um einstakt verðmæti fjölbreyttra náttúruauðlinda okkar og horfa til valdheimilda til tryggja stjórn Íslands yfir þeim. Það reynir sífellt meira á þessi mál og birtist meðal annars í kröfu um ótímabundin leyfi í auðlindum eða þrýsting á sölu Landsvirkjunar sem fyrri kynslóðir byggðu upp fyrir samfélagið. Í þessum málum mun þekking mín og reynsla, bæði sem orkumálastjóri en ekki síst úr störfum við lykilstofnanir erlendis, nýtast vel þar sem ég hef séð afleiðingar þess þegar ríki missa stjórn af auðlindum en ég hef meðal annars skrifað þau mál í samhengi við jarðakaup erlendra aðila hér á landi. Einnig mun ég nýta reynslu úr orku- og loftslagsmálum í starf forseta erlendis, enda eru þessir málaflokkar þungamiðja í alþjóðastarfi og mikilvægt að forseti geti talað um þau af trúverðuleika.“

Tækni, auðlindir og tunga

Í embætti forseta vill Halla Hrund efna til vitundarvakningar um mikilvægi auðlinda Íslands og verðmæti þeirra.

„Hér þurfum við langtímahugsun og passa upp á að það sé jafn mikil langtímasýn í ákvarðanatöku núna eins og hún var hjá forfeðrum okkar sem við erum svo þakklát, þeim sem tóku þessar góðu ákvarðanir.“

Þá bætir hún við að forsetinn geti hjálpað samfélaginu að eiga þetta samtal með því að setja málið á dagskrá.

„Sem forseti ætla ég að vaka yfir og efla vitund þjóðarinnar á þessum auðlindum sem eiga að gagnast framtíðarkynslóðum. Ég vil að stelpurnar mínar horfi til baka á okkur með þakklæti og hugsi: Þau voru meðvituð um auðlindirnar okkar og vönduðu sig alveg eins og fyrri kynslóðir.“

Auðlindamálin verða þó ekki eini málaflokkurinn sem Halla Hrund hyggst setja á oddinn heldur nefnir hún einnig sókn í nýsköpun og tækni. Hún segir samfélagið á áhugaverðum tímapunkti í tæknibyltingunni og það skipti máli fyrir Ísland að vera í sókn á slíkum tímamótum til þess að samfélagið komi sterkt út úr slíkum breytingum.

„Ég held að forsetinn eigi að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi auðlindanna okkar. Þau tækifæri sem við erum að sjá núna í nýjum fyrirtækjum, koma til með nýtast fyrir ungu kynslóðina. Þess vegna vil ég leggja áherslu á tækni og nýsköpun. Ef við hugsum um framtíð Íslands, þá er mikið af tækifærum um allt land þegar það kemur að til dæmis tengingu á milli nýsköpunar og auðlindanna okkar. Ég sé það í heimsóknum, öll þessi spennandi störf sem eru að verða til úti um allt land.“

Þá bætir Halla Hrund við að málaflokkurinn sé líka tengdur við íslenska menningu og tungu. Hún telur að það þurfi að passa upp á að íslenskan verði varðveitt.

„Þess vegna mun ég halda áfram því góða starfi sem Guðni hefur unnið, að vera í samvinnu við tæknifyrirtækin heima og erlendis til þess að stuðla að því að íslenskan verði málið sem við notum í framtíðinni.“

Atorkusamur og duglegur forseti

Þegar samtalið berst að kosningabaráttunni segir Halla Hrund undanfarnar vikur hafa verið þær skemmtilegustu sem hún hefur upplifað.

„Það skemmtilegasta er að vinna með fólki og sjá möguleikana á að geta lyft upp hlutum. Ég hef verið spurð hvort þetta sé ekki þreytandi og krefjandi en ég held að ef þér finnst ekki gaman að vera í kosningabaráttunni þar sem þú ert að hitta alla, þá er það að vera forseti eflaust krefjandi hlutverk,“ segir Halla Hrund og bætir við að hún vilji einmitt vera atorkusamur og duglegur forseti sem er í góðum tengslum við fólk um allt land.

Halla Hrund segir það hafa komið sér á óvart hvað fólk hefur mikinn áhuga á manneskjunni sem er í framboði. „Sem er eitthvað sem skiptir máli því fólk er auðvitað ekki að kjósa málefni á sama hátt og í pólitík. Þú ert að kjósa gildismat og þú ert að kjósa bakgrunn, menntun og sýn að einhverju leyti,“ segir hún.

„Sumir hafa spurt hvort mér hafi þótt kosningabráttan óvægin – en ég segi, ég barma mér ekki yfir þessum spurningum sem koma upp því að mér er ljúft og skylt að svara þeim, það er það sem skiptir máli. Stelpurnar mínar eru kannski orðnar pínu leiðar á að það sé einhver blaðamaður heima í morgunmat en við erum orðin vön því að borða seríósið fyrir framan alþjóð.“

Vinn alltaf af heilum hug

Halla Hrund segir það mikinn styrk fyrir framtíð landsins að við séu með öflugt samfélag alls staðar; það sé styrkleiki að tækifæri séu ekki bara í þessum landshluta heldur um allt land.

„Við erum öll í sama liði og þurfum alltaf að styrkja landið okkar sem eina heild,“ segir Halla Hrund og er staðráðin að gefa sig alla í verkið, nái hún kjöri.

„Ég vinn þannig að ég gef mig alltaf af heilum hug í allt sem ég tek mér fyrir hendur og þess vegna segi ég að ég verði atorkusamur og dugmikill forseti sem stendur með þjóðinni í blíðu og stríðu. Hjarta og hugur vill þjóna þjóðinni.“

Við sláum aðeins á léttari strengi og blaðamaður leggur fyrir Höllu Hrund nokkrar laufléttar spurningar.

Ertu með leyndan hæfileika?

„Já, ég vann hæfileikakeppnina í Kvennó fyrir að leika dýr, þar sem ég lék allt frá steinbíti yfir í skógarþröst.“

Hvaða manneskju vildir þú hitta og leita ráða hjá?

„Ruth Bader Ginsburg.“

Hvaða manneskju, bók og mat tækir þú með á eyðieyju?

„Ég myndi taka með mér Eddu Björgvins eða Sögu Garðars til að halda uppi gleðinni. Svo tæki ég með harðfisk því hann geymist bæði og smakkast svo vel og íslenskt smjör því það er ómissandi! Ég myndi svo taka með stílabók til að skrásetja dvölina og búa til flöskuskeyti.“