Kappi Jaylen Brown fer mikinn fyrir Boston.
Kappi Jaylen Brown fer mikinn fyrir Boston. — AFP/Maddie Meyer
Úrslitakeppnin í bandaríska körfuboltanum brestur árlega á um svipað leyti og hinar björtu sumarnætur ryðja sér til rúms. Leikirnir fara fram á nóttunni þannig að beinar útsendingar þurfa ekki að þvælast fyrir fjölskyldulífinu

Karl Blöndal

Úrslitakeppnin í bandaríska körfuboltanum brestur árlega á um svipað leyti og hinar björtu sumarnætur ryðja sér til rúms. Leikirnir fara fram á nóttunni þannig að beinar útsendingar þurfa ekki að þvælast fyrir fjölskyldulífinu. Aðrir í fjölskyldunni eru sofandi meðan leikirnir eiga sér stað.

Ég er með þá kenningu að þegar bjart er alla nóttina þurfi maður minni svefn og læt reyna á þessa kenningu á hverju ári þegar úrslitakeppnin í NBA hefst. Þessar rannsóknir mínar standast sennilega engar vísindalegar kröfur. Þess utan er maður iðulega eins og svefngengill þegar maður ráfar um utan við sig og með svarta bauga eftir þessar vökunætur.

En það þýðir ekki að gefa eigi þessar rannsóknir upp á bátinn, enda jafnast engin skemmtun á við að fylgjast með körfubolta og nætursvefn frekar lítil fórn á altari drottningar íþróttanna.

Reyndar er líka afbragðsskemmtun að fylgjast með úrslitakeppninni í íslenska körfuboltanum. Keppni lauk hjá konunum í vikunni með sigri Keflavíkur á Njarðvík í þremur leikjum, en hjá körlunum eigast við Grindavík og Valur. Hlíðarendapiltar eru komnir með tveggja sigra forskot og dugar einn í viðbót til að landa titlinum, en björninn er ekki unninn. Þessari veislu hefur Stöð 2 sinnt af alúð og fagmennsku.