Sigurmark Barbára Sól Gísladóttir fagnar sigurmarki sínu fyrir Breiðablik í toppslagnum gegn Val. Blikar eru með fullt hús stiga á toppnum.
Sigurmark Barbára Sól Gísladóttir fagnar sigurmarki sínu fyrir Breiðablik í toppslagnum gegn Val. Blikar eru með fullt hús stiga á toppnum. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik vann gífurlega sterkan sigur á Val, 2:1, í uppgjöri tveggja efstu liða Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í aftakaveðri á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Blikar halda þar með toppsæti deildarinnar og eru enn með fullt hús stiga, 18, að loknum sex umferðum

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Breiðablik vann gífurlega sterkan sigur á Val, 2:1, í uppgjöri tveggja efstu liða Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í aftakaveðri á Kópavogsvelli í gærkvöldi.

Blikar halda þar með toppsæti deildarinnar og eru enn með fullt hús stiga, 18, að loknum sex umferðum. Valur er í 3. sæti með 15 stig eftir að hafa tapað sínum fyrstu stigum á tímabilinu.

Valur var með undirtökin í fyrri hálfleik og leiddi verðskuldað, 0:1, þegar flautað var til leikhlés. Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skoraði glæsilegt mark þar sem hún klobbaði Ástu Eir Árnadóttur, fyrirliða Breiðabliks, og smellti boltanum svo framhjá Telmu Ívarsdóttur í markinu.

Í síðari hálfleik var Breiðablik hins vegar sterkari aðilinn og sneri taflinu við. Fyrst skoraði Andrea Rut Bjarnadóttir með þrumuskoti rétt innan vítateigs sem hafnaði uppi í markvinklinum nær.

Barbára Sól Gísladóttir tryggði Blikum svo sigurinn með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Öglu Maríu Albertsdóttur af vinstri kanti. Var þetta fyrsta mark Barbáru Sólar fyrir Breiðablik.

Þór/KA vann auðveldan sigur á Tindastóli, 5:0, í Boganum á Akureyri þar sem fjögur markanna komu í fyrri hálfleik.

Norðankonur hafa unnið fimm leiki í röð eftir að hafa tapað í fyrstu umferð fyrir Val og fóru með sigrinum upp í 2. sæti.

Sandra María Jessen skoraði eitt marka Þórs/KA og er markahæst í deildinni með tíu mörk í sex leikjum.

Stjarnan mætti nýliðum Fylkis í Miðgarði í Garðabænum og hafði betur, 2:1. Upphaflega átti leikurinn að fara fram utandyra á heimavelli Stjörnunnar en var færður inn í Miðgarð vegna veðurs.

Stjarnan hefur nú unnið tvo leiki í röð og er í 4. sæti með níu stig. Eftir góða byrjun hefur Fylkir nú tapað þremur leikjum í röð og er áfram í 8. sæti með fimm stig.

Hulda Hrund Arnarsdóttir kom Stjörnunni í forystu gegn uppeldisfélaginu áður en miðvörðurinn Hannah Sharts tvöfaldaði forystuna með sínu þriðja marki á tímabilinu.

Fyrirliðinn Eva Rut Ásþórsdóttir minnkaði muninn með skoti beint úr aukaspyrnu, hennar fjórða mark á tímabilinu, en þar við sat.