Sauðfjárslátrun Slátrun sauðfjár er ekki lengur unnin af Íslendingum. Pólverjar hlaupa undir bagga og ganga í þessi störf. Sama fólkið ár eftir ár.
Sauðfjárslátrun Slátrun sauðfjár er ekki lengur unnin af Íslendingum. Pólverjar hlaupa undir bagga og ganga í þessi störf. Sama fólkið ár eftir ár. — Morgunblaðið /Hafþór Hreiðarsson
Óskar Bergsson oskar@mbl.is

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Sláturfélag Suðurlands (SS) auglýsir nú eftir slátrurum til starfa á komandi haustmánuðum. Einar Hjálmarsson, stöðvarstjóri SS á Selfossi, segir í samtali við Morgunblaðið að í heild verði ráðnir til starfa 110 til 120 manns á komandi sláturtíð. Er þetta álíka fjöldi og undanfarin ár, en sláturhúsin treysta mjög á erlent vinnuafl. Margir þessara erlendu starfsmanna koma endurtekið til starfa.

Íslendingar uppteknir í öðru

„Áður voru þessi störf mönnuð af fólki til sveita en það hefur breyst. Við auglýsum þetta hér heima til þess að gefa Íslendingum tækifæri til að sækja um, en svo virðist sem þeir séu uppteknir í annarri vinnu,“ segir Einar.

Fyrir covid-tímann komu flestir þessara erlendu starfsmanna frá Nýja-Sjálandi en það breyttist eftir að landinu var lokað í heimsfaraldrinum. Nú eru þessi störf að mestu unnin af Pólverjum sem hingað koma tímabundið til starfa. Einar segir þennan hóp vel þjálfaðan og að hann snúi til starfa ár eftir ár.

Starfsemi undir eftirliti MAST

Að sögn Einars fer slátrun þannig fram að lömb eru keyrð að sláturstað og geymd í rétt yfir nótt.

„Daginn eftir eru þau aflífuð, blóðguð, hengd upp og fara því næst eftir sláturlínunni í fláningu, innanúrtöku og snyrtingu. Síðan eru þau stimpluð af dýralæknum og sett í kæli. Á þessari sláturlínu starfa fimmtíu og fjórir,“ segir hann.

Eitt sláturhús eftir hjá SS

Sláturfélag Suðurlands slátrar nú einungis á einum stað, á Selfossi. Þar fer fram sauðfjárslátrun á haustin en stórgripaslátrun er stunduð þar árið um kring. Tuttugu og fimm manns eru þar í fastri vinnu.

„Það eru mörg störf sem fylgja slátruninni, við vinnum hér eftir reglugerðum og dýralæknar frá MAST fylgjast grannt með öllu frá morgni til kvölds,“ segir Einar Hjálmarsson stöðvarstjóri SS að lokum.

Höf.: Óskar Bergsson