Ef ekki verður spyrnt við fótum og Alþingi Íslendinga eflt er hætt við að lýðveldið Ísland verði ekki til í núverandi mynd að tveimur áratugum liðnum. Þetta er mat Arnars Þórs Jónssonar, hæstaréttarlögmanns og forsetaframbjóðanda, sem er nýjasti gestur Spursmála

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Ef ekki verður spyrnt við fótum og Alþingi Íslendinga eflt er hætt við að lýðveldið Ísland verði ekki til í núverandi mynd að tveimur áratugum liðnum. Þetta er mat Arnars Þórs Jónssonar, hæstaréttarlögmanns og forsetaframbjóðanda, sem er nýjasti gestur Spursmála.

„Ég tel að það sé víða vegið að sjálfstæði lýðveldisins okkar. Nú fögnum við í ár 80 ára afmæli þess. Ég er ekki viss um að við munum sjá það verða 100 ára með sama áframhaldi og ég meina það,“ segir hann og þegar hann er inntur eftir því hvað valdi nefnir hann m.a. til sögunnar flokksræði og ásælni erlendra risafyrirtækja og ofurfjármagns í auðlindir Íslands.

„Við getum vart treyst núverandi þingmönnum fyrir framtíð landsins, svo aumt er ástandið orðið,“ segir hann enn fremur. Arnar Þór vill beita sér í embætti forseta Íslands með meira afgerandi hætti en þeir sex einstaklingar sem gegnt hafa hlutverkinu fram til þessa. Þannig vill hann funda um mikilvæg stjórnarmálefni á vettvangi ríkisráðs og nefnir í því sambandi nýja löggjöf um lagareldi þar sem hann segir núverandi stjórnvöld vera að afhenda sameiginleg verðmæti þjóðarinnar í hendur erlendra aðila án eðlilegs endurgjalds.

Höf.: Stefán E. Stefánsson