Veisla Akkelóusar eftir Peter Paul Rubens og Jan Brueghel eldri.
Veisla Akkelóusar eftir Peter Paul Rubens og Jan Brueghel eldri.
Þú skalt hugsa vandlega um það með hverjum þú munt borða og drekka, frekar en hvað þú munt borða og drekka.“

Smitberinn

Halldór Armand

halldor.armand@- gmail.com

Sumar langanir okkar eru náttúrulegar, aðrar tilgangslausar; á meðal þeirra náttúrulegu eru sumar nauðsynlegar, aðrar eru aðeins náttúrulegar; og á meðal þeirra sem eru nauðsynlegar, þá eru sumar nauðsynlegar fyrir hamingju okkar, aðrar til að tryggja ró í líkamanum, og enn aðrar fyrir lífið sjálft. Með því að skoða þessa hluti vel lærum við að velja ávallt það sem stuðlar að betri heilsu líkamans og róar hugann, því það er tilgangur hins góða lífs. Því allt sem við gerum er til þess að forðast sársauka og ótta; og þegar við komumst í þetta ástand verður algjört logn í huganum, vegna þess að ekki þarf að leita nokkurs annars til þess að tryggja velferð sálar eða líkama.“

Þetta skrifaði gríski fornaldarheimspekingurinn Epíkúros (341-270 f.Kr.) í bréfi sínu til Menókeifs. Meginhugmyndin í heimspeki hans um hið góða líf var sú að fólk ætti að reyna að auka sem mest ánægju sína og forðast sársauka. Hér er þó alls ekki um hreinan hedónisma að ræða. Þvert á móti aðhylltust Epíkúros og fylgismenn hans naumhyggju; þetta var fólk sem hafði mest gaman af því að sitja einhvers staðar í skugganum, ræða saman og hlæja meðan það drakk vatn og rétti hvað öðru brauðbita. „Láttu mig fá ostbita og ég get lifað í munaði hvenær sem ég vil,“ skrifar Epíkúros einhvers staðar.

Dæmi um löngun sem Epíkúros kallar bæði náttúrulega og nauðsynlega væri löngun í næringu, því án hennar verður til sársauki. Náttúruleg en ónauðsynleg löngun væri þá löngun í einhvers konar merkjavöru. Við þurfum úlpu til að hlýja okkur á veturna – náttúruleg og nauðsynleg löngun – en það að langa í einhverja tiltekna úlpu vegna þess að það er eitthvert merki utan á henni væri ónauðsynleg löngun að mati Epíkúrosar. Það sem þú borgar aukalega fyrir merkið gerir ekkert til að minnka sársauka þinn. Síðan eru líka til langanir sem eru bæði ónáttúrulegar og ónauðsynlegar og Epíkúros segir mega rekja til viðhorfa annarra, sumsé hégóma. Þetta væri til dæmis löngun í embætti, völd eða að reist verði af þér stytta. Slíkt er bara ávísun á kvíða og ófullnægju, segir Epíkúros.

Þetta er áhugaverð sýn á lífið sem jafnframt fer gjörsamlega í bága við það sem rætt var um á þessum vettvangi fyrir tveimur vikum; hvernig nútímasamfélag er án afláts að segja fólki, beint og óbeint, að það sé einskis virði og skipti engu máli. Gott líf í dag er mælt í völdum, frægð og auðlegð. Ekkert þykir sjálfsagðara en að lifa lífi sínu eftir þeirri einföldu reglu að reyna að taka til sín sem allra mest í staðinn fyrir sem allra minnst. Hófsemi er hrein vitfirring.

Af Epíkúrosi lærum við hið þveröfuga. Hið góða líf kristallast fyrst og fremst í því ástandi sem kallað var ataraxia. Ætli „sálarró“ væri ekki ágætis þýðing. Nái fólk henni getur það „lifað eins og guð meðal manna“. Hann setti andlega vellíðan skör hærra en líkamlega vegna þess að líkaminn væri aðeins plagaður af líðandi stund meðan sálin ætti í baráttu við hið liðna, núið og framtíðina allt í senn. Þannig væri andleg vellíðan sú mikilvægasta og ávextir hennar mestir.

Og hvað var það sem helst stuðlaði að andlegri vellíðan manna? Að sögn Epíkúrosar kenndi viskan okkur að það væri vináttan – ekkert stuðlaði meira að öryggi okkar en hún. „Þú skalt hugsa vandlega um það með hverjum þú munt borða og drekka, frekar en hvað þú munt borða og drekka. Því að borða kjöt í kvöldmat án félagsskapar vinar er eins og líf ljóns eða úlfs,“ skrifaði hann.

Í heimspekiskólanum sem Epíkúros hélt á heimili sínu, „Garðinum“, voru allir velkomnir, konur, karlar, þrælar og börn. Í einu af bréfum Seneka kemur fram að yfirskriftin yfir Garðinum hafi verið: „Aðkomumaður, hér er gott að staldra við, hér eru æðstu lífsgæðin ánægjan.“ Sönn velgengni, hið góða líf, felst í því að gefa og þiggja ást og kærleika.