Ekki var aðeins sláttur á frambjóðendum til forseta í vikunni, heldur hófst einnig sláttur á höfuðborgarsvæðinu. Þessi ungi maður var í óðaönn að slá bæjarlandið á Seltjarnarnesi.
Ekki var aðeins sláttur á frambjóðendum til forseta í vikunni, heldur hófst einnig sláttur á höfuðborgarsvæðinu. Þessi ungi maður var í óðaönn að slá bæjarlandið á Seltjarnarnesi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Katrín Jakobsdóttir (22,1%) tók í fyrsta skipti forustu í skoðanakönnun Prósents, sem gerð var 14. til 19. maí. Í öðru sæti var Halla Hrund Logadóttir (19,7%), í því þriðja Baldur Þórhallsson (18,2%) og því fjórða Halla Tómasdóttir (16,2%)

18.5.-24.5.

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir (22,1%) tók í fyrsta skipti forustu í skoðanakönnun Prósents, sem gerð var 14. til 19. maí. Í öðru sæti var Halla Hrund Logadóttir (19,7%), í því þriðja Baldur Þórhallsson (18,2%) og því fjórða Halla Tómasdóttir (16,2%). Fylgið sveiflast og spennan vex. Svo mjótt er á munum að vikmörk efstu þriggja skarast.

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi sagði á forsetafundi Morgunblaðsins á Græna hattinum á Akureyri að hún myndi treysta sér til að sýna engum hollustu nema þjóðinni: „Forseti, ég ætla að leyfa mér að segja þetta, hans hollusta er bara ein og hún er við þjóðina.“

Gyrðir Elíasson skáld hlaut bókmenntaverðlaun kennd við sænska Nóbelsskáldið Tomas Tranströmer.

Bændur fáruðust yfir því að skilafrestur á athugasemdum við áætlun gegn riðu rynni út í miðjum sauðburði og uppskáru fjögurra vikna framlengingu á frestinum.

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Bayern München tóku við meistaraskálinni eftir síðasta leikinn í deildinni um liðna helgi. Glódís Perla er fyrirliði Bayern, sem vann titilinn með afgerandi hætti og tapaði ekki leik í deildinni á tímabilinu. Á þriðjudag lyfti Glódís Perla meistaraskálinni á svölum ráðhúss Münchenar á Marientorgi.

Daníel Ingi Egilsson bætti 30 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar í langstökki um 21 sentimetra þegar hann stökk 8,21 metra á Norðurlandamótinu í frjálsum íþróttum í Malmö um liðna helgi.

Breyting á raforkulögum þannig að stórnotendur geti selt orku aftur inn á kerfið er til athugunar. Smánotendur spyrja hvers þeir eigi að gjalda.

Streymisveitur á borð við Netflix, Disney+ og Stöð2+ munu þurfa að greiða menningarframlag til íslensks samfélags, til eflingar þess sem og eflingar íslenskrar tungu nái nýtt frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra fram að ganga.

Óánægja er með áform um byggingu gagnfræðaskóla í Laugardal. Margir hefðu viljað að byggt hefði verið við þá skóla, sem fyrir eru í hverfinu.

Aðsókn hefur minnkað í hvalaskoðun. Hjá fyrirtækinu Eldingu, sem er með ferðir frá Akureyri og Reykjavík, er gert ráð fyrir 10-15% færri bókunum en í fyrra.

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Fossvogsprestakalli, hefur verið ráðin biskupsritari og tekur við starfinu um leið og nýr biskup, Guðrún Karls Helgudóttir, tekur við embætti.

Fjórir sóttu um þegar Reykjavíkurborg auglýsti eftir samstarfsaðilum til rekstrar parísarhjóls á Miðbakka. Kom í hlut Taylors Tivoli Iceland að sjá um uppsetningu og rekstur á parísarhjólinu.

Eitt hundrað kjörseðlar vegna forsetakosninganna týndust á leið til Tenerife og urðu því um 80 íslenskir ríkisborgarar, sem hugðust greiða atkvæði, frá að hverfa. Atkvæðaseðlarnir fundust nokkrum dögum síðar í Madrid.

Vel hefur aflast í strandveiðum frá því þær hófust og er búist við að veiðiheimildir klárist á 35 veiðidögum. Í vikunni voru komnir tíu veiðidagar og því 25 eftir.

Icelandair hefur hafið áætlunarflug til Pittsburgh.

Ný þýðing Nönnu Kalkar á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness hlýtur mikið lof í dönskum fjölmiðlum. Frie folk heitir bókin á dönsku.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, tilkynnti á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, í Hádegismóum að hjá Hagkaupum yrði í næsta mánuði opnað fyrir netverslun með áfengi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði að það væri „ástæða til að verja einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins út frá lýðheilsunni og ég legg áherslu á það“.

Keflavík varð á miðvikudag Íslandsmeistari kvenna í körfubolta þegar liðið bar sigurorð af Njarðvík, 72:56, og vann seríuna 3-0. Þetta er 17. Íslandsmeistaratitill Keflavíkur.

Forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Mohammed bin Zayed Al Nahyan, afhenti Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, heiðursorðu Abú Dabí í vikunni fyrir framlag hans til loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem einmitt fór fram í olíuveldinu Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Samkvæmt svörum Reykjavíkurborgar er von á nýrri starfsemi í Sunnutorg við Langholtsveg, en ekki var tilgreint hvaða starfsemi. Sunnutorg var áður söluturn, en hefur ekki verið í rekstri um árabil og neglt fyrir glugga. Sigvaldi Thordarson teiknaði söluturninn.

Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að tafir matvælaráðherra á útgáfu hvalveiðileyfis væri ólíðandi stjórnsýsla.

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að skilmálar í lánssamningum banka um lán með breytilegum vöxtum væru of loðnir til að lántakendur gætu áttað sig á hvað réði því að vextir lánanna hækkuðu eða lækkuðu.

Stjórnendur Landsbankans sendu frá sér tilkynningu um að þeir teldu að vaxtabreytingaákvæði sín stæðust enn íslensk lög, þrátt fyrir að dómstóll EFTA kvæði þau ógagnsæ.

Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður lántaka sem reka dómsmál gegn Íslandsbanka og Landsbanka, segir að bankarnir áætli að undirliggjandi hagsmunir í dómsmálunum sem liggja fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, Héraðsdómi Reykjaness og Landsrétti um skýrleika skilmála breytilegra vaxta neytendalána nemi um 30 milljörðum króna.

Ferðamenn eru farnir að hafa skemmri viðdvöl á landinu en áður og hefur neysla þeirra minnkað að sama skapi.

Brotthvarf ungra karla á Íslandi á aldrinum 18 til 24 ára úr námi og starfsþjálfun í fyrra var það mesta í Evrópu samkvæmt tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópu. Brotthvarfið nam 15,8%. Brotthvarf kvenna á sama aldri var 10,8% og það áttunda mesta í álfunni.

Hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eiga menn von á því að hagvöxtur á Íslandi minnki í ár og verði 1,7%. Er það rakið til minni eftirspurnar innanlands og áðurnefnds samdráttar í neyslu ferðamanna.

Í umsögnum frá Isavia og öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna er lýst yfir áhyggjum af neikvæðum áhrifum vindorkuvera á flugumferð og flugöryggi.

Tæplega þriðjungur Íslendinga kaupir föt og skó á netinu, að sögn Rannsóknarseturs verslunarinnar. Hinir fara út í búð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra ætlar að eiga fund með stjórnendum RÚV um stefnu ríkismiðilsins um notkun kynhlutlauss máls. Hún segist ekki ætla að tala um Norðfólk í stað Norðmanna, en muni nota orðið tónlistarfólk.

Atvinnuleysi var 3,6% í apríl og dróst saman um 0,9% frá mánuðinum áður, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar.

Bandaríska flugfélagið United Airlines hóf í lok viku á ný beint flug frá Keflavík til New York/Newark í Bandaríkjunum.

Hvassviðri og rigning var á suðurhluta landsins á föstudag og á höfuðborgarsvæðinu fóru trampólín á flug og lentu jafnvel á miðjum umferðargötum í fyrstu haustlægðinni.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, sagði að áfram væri búist við eldgosi hvenær sem er.