Már Gunnarsson
Már Gunnarsson
Þökk sé framlagi forvera okkar hefur margt áunnist sem okkar kynslóð nýtur góðs af og getur byggt á í dag.

Már Gunnarsson

Kæri lesandi.

Nú í sumar eru liðin 85 ár frá því að nokkrir blindir einstaklingar tóku sig saman og stofnuðu félag sem átti að berjast fyrir réttindum blindra á Íslandi.

Flest okkar sem ekki sjáum, þekkjum ekkert annað en að hafa aðgengi að blindrafélaginu, ráðgjöfum félagsins, félagslífi og öðrum stuðningi.

En svona hefur þetta ekki alltaf verið.

Árið 1939 var engin sérþekking til á Íslandi, hvað varðar menntun blindra og sjónskertra þrátt fyrir að á hinum norðurlöndunum hefðu verið stofnaðir blindraskólar um það bil 100 árum fyrr!

Í 85 ár hafa félagsmenn lagst á eitt við að koma á fót kerfi á Íslandi sem tekur á móti blindu og sjónskertu fólki á öllum aldri og styður það til sjálfstæðis.

Þökk sé framlagi forvera okkar hefur margt áunnist sem okkar kynslóð nýtur góðs af og getur byggt á í dag.

Þrátt fyrir gríðarlegar framfarir þá færa breyttir tímar ávallt nýjar áskoranir. Tæknin er einn besti vinur okkar, hún gerir okkur kleift að sinna flestum þeim verkefnum sem krefjast athygli okkar í daglegu lífi.

En hún getur mjög fljótt orðið okkar helsti andstæðingur, því oft er þess ekki gætt að hanna hana þannig að hún sé aðgengileg blindum.

Þjónustustörfum fer fækkandi og fólk er farið að sækja sér hina og þessa þjónustu á þjónustuskjám eða á netinu.

Af því leiðir að skortur á mannlegum samskiptum getur orðið alvarlegt vandamál og því verðum við að tryggja að öllum bjóðist jöfn tækifæri til að nýta þessa tækni og þjónustuna sem henni fylgir. Þetta er eitt af mörgum stórum baráttumálum okkar í dag.

Félagasamtök viðhalda sér ekki nema að það sé fólk til staðar sem hefur áhuga og metnað til að sinna þeim. Eitt það besta sem við getum gert til að stuðla að velgengni Blindrafélagsins okkur öllum til haga, er að senda frá okkur jákvæða orku og tala fallega um félagið sem við erum svo þakklát fyrir.

Í tilefni stórafmælis Blindrafélagsins höfum við efnt til 85 ára afmælishappadrættis sem nú er farið af stað. Félagið er nánast ekkert ríkisstyrkt og erum við því þakklát fyrir hvern seldan happadrættismiða. Öll getum við lagst á árarnar með því að hvetja fólkið í kringum okkur til að styðja þennan góða málstað.

Ég hef sjálfur keypt miða og er að kynna þetta fyrir fólkinu mínu í rólegheitum.

Hver seldur miði skiptir máli. Síðan eiga allir jafna möguleika til að fá vinning, sem væri ekki leiðinlegt.

Meðal vinninga í ár eru Toyotabifreið, utanlandsferðir, farsímar, gjafabréf og fleira.

Nánari upplýsingar á heimasíðu blindrafélagsins.

Læt þetta duga í bili, áfram við!

Höfundur er tónlistarmaður og sundkappi.

Höf.: Már Gunnarsson