— Morgunblaðið/Eggert
Hvenær og hvernig byrjaðir þú að gera tónlist? Ég byrjaði að glamra á gítarinn þegar ég var 13 ára og hafði gaman af því að prófa mig áfram í því að semja lög og skrifa texta. Ég byrjaði bara að spila með útvarpinu og tónlist sem ég fílaði, og kenndi mér á ákveðinn hátt sjálfur

Hvenær og hvernig byrjaðir þú að gera tónlist?

Ég byrjaði að glamra á gítarinn þegar ég var 13 ára og hafði gaman af því að prófa mig áfram í því að semja lög og skrifa texta. Ég byrjaði bara að spila með útvarpinu og tónlist sem ég fílaði, og kenndi mér á ákveðinn hátt sjálfur. Svo spilaði ég í ýmsum hljómsveitum þegar ég var um tvítugt og eyddi næstu árum í það að spila með þeim. Þegar ég var 25 ára fór ég í tónlistarframleiðandanám í London vegna þess að mig langaði að geta gefið út mína eigin tónlist. Ég kláraði mína fyrstu plötu þegar ég var 29 ára en gaf hana hins vegar aldrei út. Ég var eiginlega hættur í tónlist en nýlega byrjaði ég að spila aftur og hafa gaman af því að semja lög og texta og er núna kominn með heila plötu sem kemur út í haust.

Hvernig tónlist flyturðu?

Það er alltaf erfitt að svara þessari spurningu. Það er nú líklegast blanda af indí-popp-rokk-stíl. Það fer líka eftir hverju lagi og þau eru mjög ólík. Það mætti segja að það fari bara eftir því hvernig við sjáum fyrir okkur hvert lag og hvað við höldum að passi best. Hvert lag er eiginlega einstakt og með ákveðinn stíl.

Hvaðan sækir þú innblástur?

Ég skrifa mikið texta út frá tilfinningum mínum og lagið fylgir oft ósjálfrátt með. Það er því hægt að segja að ég sæki innblástur frá mannlegu eðli og ég set bara í orð hvernig mér líður. Þaðan kemur innblásturinn fyrir flest mín lög og því eru þau svo ólík. Þegar ég skrifaði lagið Wolfheart var ég líka mikið að hlusta á P.J. Harvey svo það var líka ákveðinn innblástur fyrir mig.

Hvað er næst á döfinni?

Ég er bara búinn að gefa út eitt lag en öll platan er þó tilbúin. Hún mun koma út í heild sinni í haust og ég vonast eftir því að fá umfjöllun og góðar viðtökur. Stefnan er auðvitað sú að halda áfram í tónlist og gefa út fleiri plötur á næstu árum.

Atli Sævar Guðmundsson gengur undir listamannanafnimu „Sæfarinn“. Hann var að gefa út sitt fyrsta lag „Wolfheart“ og mun gefa út samnefnda plötu í haust.