Ásgeir Kristjánsson fæddist 24. apríl 1958 á Þverá í Öxarfirði. Hann lést 11. maí 2024.

Foreldrar hans voru Kristján Benediktsson, f. 21. júlí 1917, d. 30. september 2011 og Svanhildur Árnadóttir, f. 25. febrúar 1929, d. 15. júlí 2016. Þau voru bændur á Þverá.

Ásgeir var sjötti í röð níu systkina en þau eru: Tómas Magnús Guðgeirsson, f. 10. nóvember 1950, d. 5. júní 2022. Edda, f. 17. febrúar 1953. Benedikt, f. 20. janúar 1954. Árni Jón, f. 20. desember 1955. Björg, f. 30. nóvember 1956. Jónas, f. 15. desember 1959. Kristján, f. 9. desember 1963 og Theódór, f. 7. apríl 1966.

Ásgeir eignaðist tvö börn. Dóttir hans er Rebekka Ásgeirsdóttir, f. 1. apríl 1986. Móðir hennar er Margrét G. Þórhallsdóttir. Eiginmaður Rebekku er Hólmgeir Rúnar Hreinsson, f. 20. september 1979. Dætur Rebekku og Hólmgeirs eru Rakel, f. 19. október 2006 og Svana, f. 8. júní 2017. Sonur Ásgeirs er Óskar Ásgeirsson, f. 1. september 2000. Móðir hans og fyrrverandi eiginkona Ásgeirs er Elsa Ramirez Peres. Sambýliskona Óskars er Bjartey Guðný Söebeck Birkisdóttir, f. 13. nóvember 2002. Sonur Óskars og Bjarteyjar er Gabriel Viðar Óskarsson, f. 3. júní 2022.

Ásgeir lauk hefðbundinni skólagöngu, fyrst við Ísaksskóla í Reykjavík, síðan Skúlagarði í Kelduhverfi og Lundi í Öxarfirði. Hann útskrifaðist sem búfræðingur frá Hólaskóla og lauk námi í stýrimannaskólanum. Ásgeir var einnig löggiltur vigtarmaður og kjötmatsmaður.

Ásgeir stundaði búskap á æskuslóðum sínum á Þverá. Hann var til sjós víða á landinu og starfaði í Fjallalambi á Kópaskeri. Þegar heilsan brást honum og starfsgetan var orðin skert tók hann að sér ýmis verkefni á Kópaskeri og nágrenni. Hann stofnaði garðsláttufyrirtæki og voru umsvifin orðin töluverð sem hentaði honum vel því Ásgeir var þekktur dugnaðarmaður og þurfti alltaf að hafa nóg fyrir stafni.

Útför Ásgeirs fer fram í dag, 25. maí 2024, frá Skinnastaðakirkju og hefst athöfnin kl. 14.

Laugardaginn 11. maí síðastliðinn fengum við systkinin sorgarfréttir. Fréttir sem settu allt á hvolf í okkar lífi. Pabbi fannst látinn. Dagarnir síðan hafa verið óraunverulegir og verulega erfiðir. Þrátt fyrir að aðstæður séu okkur nánast óbærilegar hafa þær gefið okkur tækifæri á að rifja upp minningar. Minningar um mesta dugnaðarfork sem við höfum á ævi okkar kynnst. Klaufann sem átti sér engan líkan, blíða manninn með viðkvæma góða hjartað, pabba okkar. Okkur langar að kveðja þig með ljóði sem við létum semja fyrir þig:

Til pabba

Vorið boðar líf og kætir dýr og menn

en bárur lífs þér fleyttu á aðrar lendur.

Svo blíður, klaufskur, réttsýnn, nagli, allt í senn

stoltur pabbi, afi, sterkar hendur.

Þó elsku pabbi farinn sért á guðs þíns fund

þá fögnum við og brosum gegnum tárin.

Að hafa átt með þér svo marga góða stund

og þökkum fyrir allt í gegnum árin.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Við erum viss um að nú sé mikið um að vera hjá þér og Tomma bróður þínum því næg eru verkin hjá afa. Amma hefur einnig tekið vel á móti þér með hlýjan faðminn.

Pabbi kvaddi okkur alltaf með því að segja „jæja, ætli sé ekki best að fara að dóla sér“. Við vonum að þú sért að dóla þér inn í sumarlandið. Þangað til næst. Góða ferð, góða ferð, góða ferð.

Rebekka og Óskar Ásgeirsbörn.

Það voru mikil sorgartíðindi að heyra af sviplegu andláti frænda míns og vinar, Ásgeirs Kristjánssonar. Ásgeir var einn af níu börnum hjónanna Svanhildar Árnadóttur og Kristjáns Benediktssonar bænda að Þverá í Öxarfirði en Kristján var móðurbróðir minn. Það var mikill samgangur og samheldni á milli móður minnar, systkina hennar og frændfólksins á Þverá. Börnin voru sum send í sveit á Þverá og Þverárbörnin til okkar í Vestmannaeyjum og Reykjavík. Reyndar var það svo að Ásgeir var hjá Sigurveigu föðursystur sinni þegar hann var við nám í Reykjavík. Sigurveigu og Olgeiri manni hennar var afar hlýtt til Ásgeirs og var það gagnkvæm væntumþykja.

Í seinni tíð hafa fjölskylduböndin verið styrkt með ættarmótum á Þverá, síðastliðið sumar söfnuðust saman um hundrað manns hvaðanæva af landinu á Þverá til að endurnýja og efla kynnin. Þá var farið í göngu upp á Þverárhyrnu, fyrir ofan bæinn, og farið á hestbaki um landareignina. Um kvöldið var safnast saman í skemmunni á Þverá þar sem búið var að koma fyrir borðum og stólum fyrir allt þetta fólk. Á borðum var grillað lamb á teini og um leið og við nutum matarins hlustuðum við á sögu ættarinnar, sem Theodór bróðir Ásgeirs rakti af mikilli þekkingu en ættin hefur búið á Þverá í nokkra mannsaldra.

Ásgeir og systkini hans eru öll miklir dugnaðarforkar og afar samheldin. Á sínum yngri árum tók Ásgeir virkan þátt í búskap foreldra sinna og bræðra enda með próf frá Bændaskólanum á Hólum. Hann fór síðar í nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík og varð sjómennska hans starfsvettvangur lengst af.

Hin síðari ár var hann sjálfstæður verktaki og bjó á Kópaskeri. Þá vorum við Hildur svo heppin að fá að njóta starfskrafta hans við ýmis viðhaldsverkefni í Framnesi sem öll voru unnin af stakri samviskusemi og vandvirkni. Eftir því sem við kynntumst Ásgeiri betur fundum við hvað hann var velviljaður, orðvar og traustur.

Ásgeir á tvö börn, þau Rebekku og Óskar, og þegar hann var í Framnesi hjá okkur fundum við vel fyrir því hvað hann hafði mikið dálæti á börnum sínum og barnabörnum.

Við viljum votta Rebekku og Óskari, fjölskyldum þeirra og systkinunum á Þverá og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Egill og Hildur.