Samhugur Vel var fjallað um samhug Íslendinga á fullveldisdegi sínum með þeirri finnsku í kjölfar innrásarinnar.
Samhugur Vel var fjallað um samhug Íslendinga á fullveldisdegi sínum með þeirri finnsku í kjölfar innrásarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Með tilliti til atburðanna í Finnlandi síðastliðinn sólarhring hefir Stúdentaráðið ákveðið að hátíðahöldin 1. desember falli niður. Hins vegar skora Stúdentaráðið og Stúdentafjelag Reykjavíkur á alla stúdenta, eldri og yngri, að mæta kl. 13.30 við Stúdentagarðinn, en þaðan er ákveðið að fara hópgöngu til finska ræðismannsins í samúðar- og virðingarskyni við finsku þjóðina.“

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Með tilliti til atburðanna í Finnlandi síðastliðinn sólarhring hefir Stúdentaráðið ákveðið að hátíðahöldin 1. desember falli niður. Hins vegar skora Stúdentaráðið og Stúdentafjelag Reykjavíkur á alla stúdenta, eldri og yngri, að mæta kl. 13.30 við Stúdentagarðinn, en þaðan er ákveðið að fara hópgöngu til finska ræðismannsins í samúðar- og virðingarskyni við finsku þjóðina.“

Svo hljóðaði auglýsing á forsíðu Morgunblaðsins fullveldisdaginn 1939, en daginn áður, 30. nóvember, höfðu Sovétríkin hafið innrás í Finnland. Innrásin setti mikinn og dökkan svip á fullveldisdaginn og var öllum formlegum viðburðum dagsins frestað vegna hennar.

Í frétt blaðsins um hátíðahöldin og frestun þeirra kom fram að Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn hefði einnig ákveðið að hætta við fögnuð sinn, en einnig var nefnt að Heimdallur, félag ungra Sjálfstæðismanna, sem og félög Alþýðuflokksins hefðu tekið sömu ákvörðun.

Innrás Sovétmanna vakti mikla samúð hjá meginþorra landsmanna, og má lesa hug Morgunblaðsins í fréttinni. „Þessi ákvörðun Stúdentaráðsins og annara þeirra, er til hátíðahalda höfðu efnt í dag, er áreiðanlega í fylsta samræmi við hugarfar allrar þjóðarinnar, hina miklu samúð með Finnum, sem ríkir í hugum hvers einasta manns sem verðskuldar að bera heitið Íslendingur,“ segir í frétt Morgunblaðsins.

„Því af öllum þeim hræðilegu ógnum, sem hingað til hafa skollið yfir í styrjöld þessari, og fregnir hafa borist af hingað, hefir ekkert gagntekið hugi manna hjer, sem tíðindin frá Finnlandi í gær,“ sagði ennfremur í frétt blaðsins.

Þéttskipaðar götur

Hafa ber í huga að í lok nóvember 1939 hafði lítið gerst í styrjöldinni sem þá geisaði í Evrópu eftir að Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1. september 1939. Bretar og Frakkar höfðu þá lýst yfir stríði á hendur Þjóðverjum, en gátu lítið gert til þess að koma Pólverjum til aðstoðar, hvað þá eftir að Sovétríkin hófu sína eigin innrás 17. september 1939 samkvæmt griðasamningnum sem Hitler og Stalín gerðu með sér í ágúst 1939.

Styrjöldin milli Þjóðverja og bandamanna lá því í nokkurri ládeyðu um haustið, en á sama tíma hófu Sovétmenn að þrýsta á Eystrasaltsríkin, Rúmeníu og Finnland um að veita sér herstöðvar og/eða landsvæði. Finnar höfðu neitað boði Sovétmanna, en sögðust vera reiðubúnir til samninga, þegar Sovétríkin hófu innrás sína 30. nóvember.

Það var því skiljanlega mönnum hér á landi mikið áfall, þegar ráðist var á frændþjóð okkar, sem einnig var hlutlaus smáþjóð í Evrópu, og sáust viðbrögð manna glöggt á fullveldisdaginn.

Hópgangan sem Stúdentaráð boðaði til var t.d. vel sótt, og mætti mikill mannfjöldi til þess að sýna Finnum samhug sinn við Hafnarhúsið, þar sem finnska ræðismannsskrifstofan var til húsa. Sagði í lýsingu Morgunblaðsins 2. desember að hér hefði verið um að ræða „fjölmennustu stúdentagönguna“ sem hér hefði sést, og hafði enginn tölu á mannskapnum.

„Má án efa fullyrða að aldrei hafi annar eins mannfjöldi tekið þátt í hópgöngu hjer í bæ og þennan fullveldisdag, sem helgaður var bræðraþjóðinni í austri,“ segir m.a. í frétt blaðsins. Voru allar nálægar götur þéttskipaðar fólki og áætlaði blaðið að á bilinu 8-10 þúsund manns hefðu verið viðstaddir, og hafði annað eins mannhaf „aldrei sjest hjer í Reykjavík.“

Á sömu síðu var einnig fjallað um fund sem Heimdallur boðaði til með litlum fyrirvara vegna innrásarinnar undir yfirskriftinni „Finnlandsmálin og kommúnistar“. Sagði í lýsingu blaðsins að Varðarhúsið hefði verið þéttskipað áheyrendum og stóðu mörg hundruð manns fyrir utan og hlýddu á ræðurnar í gegnum hátalara sem komið hafði verið fyrir utan á húsinu.

Frétt blaðsins fór m.a. vel yfir ræðu sem Jóhann Hafstein, þáverandi formaður Heimdallar og síðar forsætisráðherra, flutti, en hann rakti m.a. í ræðunni „feril kommúnista hjer“. Sagði Jóhann að kommúnistar hefðu lofsungið friðaranda og vilja hinnar rússnesku einræðisstjórnar og haldið þeim lofsöng áfram jafnvel eftir að „Rússar herjuðu Pólland úr baksátri og kúguðu Eystrasaltsríkin og einnig nú, eftir að hafin var hin grimmilega árás á Finnland.“ Vonaði Jóhann því að dagurinn myndi opna augu þjóðarinnar fyrir „þjóðskemdarstarfi kommúnista“.

„Finnagaldurinn“

Ljóst er að kommúnistar á Íslandi, sem höfðu stofnað Sósíalistaflokkinn ásamt Héðni Valdimarssyni árið áður, voru ekki viðbúnir þeim viðbrögðum sem innrás Sovétmanna og stuðningur þeirra við hana kölluðu fram.

Næstu daga mátti lesa í Morgunblaðinu og öðrum blöðum harða gagnrýni á afstöðu kommúnista og má sem dæmi nefna að leiðari Morgunblaðsins sunnudaginn 3. desember bar einfaldlega heitið „Föðurlandssvikarar“, þar sem rakið var hvernig kommúnistar og málgögn þeirra hefðu fagnað og lagt blessun sína yfir allar gjörðir Sovétríkjanna frá upphafi styrjaldarinnar.

Sú gagnrýni var ekki einskorðuð við dagblöðin, því að mánudaginn 4. desember lýstu 42 þingmenn af 49 því yfir að Alþingi væri misboðið með þingsetu kommúnista vegna afstöðu þeirra til „frelsis, rjettinda og lýðræðis smáþjóðanna síðustu vikurnar, og alveg sjerstaklega viðvíkjandi málefnum Finnlands.“ Þrír voru þá fjarverandi frá þingi, en hinir fjórir voru fulltrúar Sósíalistaflokksins. Þá samþykkti Íslandsdeild norræna þingmannasambandsins að víkja þingmönnunum fjórum úr deildinni.

Andaði mjög köldu til þingmanna kommúnista þennan veturinn en Héðinn gekk úr flokknum ásamt helstu samstarfsmönnum sínum. Þeir sem eftir sátu sáu hins vegar lítið athugavert við framgöngu sína og gáfu öllum þessum atburðum heitið „Finnagaldurinn“. Munu þeir þar m.a. hafa vísað sérstaklega til þess hvernig Morgunblaðið hefði magnað upp andstöðu almennings við afstöðu sína í vetrarstríðinu.