Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Afar brýnt er að taka vandaðar ákvarðanir í skólakerfinu. Því miður sýna dæmin okkur að oft hafa yfirvöld tekið fljótfærnislegar ákvarðanir.

Þorsteinn Þorsteinsson og Gunnlaugur Sigurðsson

Afar brýnt er að vanda mjög til verka þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir í hinu íslenska skólakerfi. Dæmin sýna okkur og sanna að oft hafa yfirvöld tekið fljótfærnislegar ákvarðanir í skólakerfinu.

Stytting framhaldsskóla

Eitt dæmið er stytting framhaldsskólans í þrjú ár sem var ekki unnin nægilega vel út frá skipulagi og samfellu náms. Styttingin var ákveðin með það eingöngu fyrir augum að spara fjármuni. Til greina kom að líta á námstíma í grunn- og framhaldsskóla sem 14 ára samfellu sem nýta hefði mátt betur sem 13 ára námstíma og yrðu þá fyrstu 3-4 árin með bekkjafyrirkomulagi en áfangakerfi eftir það. Mikilvægt er að ljúka framhaldsskóla í áfangakerfi þar sem háskólastigið er í raun og veru með áfangakerfi. Sama tekur við hjá þeim sem fara utan til náms. Þar er áfangakerfi alls ráðandi í nær öllum skólum. Bekkjakerfi fram á fullorðinsár er hrein tímaskekkja.

Sameining skóla

Þá er ákvörðun um sameiningu framhaldsskóla tekin án viðhlítandi umræðu eða tillögugerðar. Sama má segja um sameiningu háskóla enda er viðbúið að framkvæmd öll verði í skötulíki þar sem nægur undirbúningur er ekki fyrir hendi. Á árum áður störfuðu námsstjórar í flestum námsgreinum með góðum árangri. Störf þeirra voru lögð niður fyrirvaralaust. Ekkert kom í staðinn. Ekki varð þetta til eflingar námi og kennslu í skólum landsins.

Samræmd próf

Menntamálastofnun mistókst herfilega við framkvæmd samræmdra prófa á árum áður enda setti stofnunin fljótt upp tærnar og kom þá í ljós að hún hafði ekki afkastað miklu á tiltölulega löngum tíma. Það var og mikið óheillaspor þegar samræmd próf voru felld niður í grunnskólum. Öll lönd í Evrópu eru með samræmd próf í sínum grunn- og framhaldsskólum. Enda er það af flestum talið nauðsynlegt til að geta á faglegan hátt fylgst með og metið stöðu og námsframvindu nemendanna.

Námsmat

Hér á landi hafði fámennur öfgahópur með háværum hætti talið öll próf óþörf. Í kjölfarið hafa menn litlar sem engar samræmdar upplýsingar um stöðu nemenda í hinum ýmsu námsgreinum. Skyndilega vöknuðu menn upp við vondan draum þegar í ljós kom stöðugt lakari árangur nemenda á Pisa-prófunum í öllum námsgreinum og að stór hluti ungmenna, eða um 30% (helst drengja), gat ekki lesið sér til gagns. Er það viðunandi? Nei! Sannarlega ekki.

Yfirvöld menntamála verða nú þegar í stað að taka sig á og breyta þessari þróun til betri vegar og snúa vörn í sókn.

Höfundar eru fyrrverandi skólameistari og fyrrverandi skólastjóri.