Þjálfari Snorri Steinn er á leið á sitt annað stórmót með íslenska liðið.
Þjálfari Snorri Steinn er á leið á sitt annað stórmót með íslenska liðið. — AFP/Ina Fassbender
Ísland verður í öðrum styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið verður í riðla heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Zagreb á miðvikudaginn en mótið fer fram í janúar 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi

Ísland verður í öðrum styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið verður í riðla heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Zagreb á miðvikudaginn en mótið fer fram í janúar 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi.

Leikið verður í átta fjögurra liða riðlum þar sem þrjú efstu lið hvers riðils komast áfram í milliriðla keppninnar. Eitt lið úr hverjum styrkleikaflokki fer í hvern riðil.

Í fyrsta flokki eru Danmörk, Frakkland, Svíþjóð, Þýskaland, Ungverjaland, Slóvenía, Noregur og Egyptaland og eitt þessara liða verður því mótherji Íslands í undanriðli keppninnar.

Sjö sem Ísland mætir ekki

Með Íslandi í öðrum flokki eru Portúgal, Króatía, Austurríki, Holland, Spánn, Ítalía og Tékkland og íslenska liðið getur því ekki mætt neinu þessara liða í undanriðli.

Í þriðja flokki eru Pólland, Norður-Makedónía, Katar, Brasilía, Argentína, Kúba, Japan og Alsír.

Í fjórða flokki eru Barein, Túnis, Síle, Kúveit, Grænhöfðaeyjar, Gínea, Bandaríkin og Sviss.

Fyrir liggur að Þýskaland verður í A-riðli í Herning í Danmörku, Danmörk í B-riðli í Danmörku, Austurríki í C-riðli í Porec í Króatíu, Ungverjaland í D-riðli í Varazdin í Króatíu, Noregur í E-riðli í Noregi, Svíþjóð í F-riðli í Noregi, Slóvenía í G-riðli í Zagreb í Króatíu og Króatía í H-riðli í Króatíu. Ísland getur þar með ekki leikið í C- eða H-riðlum keppninnar.