Oddný Harðardóttir
Oddný Harðardóttir
Lítið hefur farið fyrir umræðu um störf Alþingis síðustu vikurnar enda langflestir að fylgjast með forsetaframbjóðendum. Forsetakosningar verða 1. júní og strax eftir það fer athygli margra á skipulag sumarfría

Lítið hefur farið fyrir umræðu um störf Alþingis síðustu vikurnar enda langflestir að fylgjast með forsetaframbjóðendum. Forsetakosningar verða 1. júní og strax eftir það fer athygli margra á skipulag sumarfría. Þetta er því upplagður tími fyrir ríkisstjórn að koma umdeildum málum í gegnum þingið án mikilla viðbragða í samfélaginu.

Nú þegar hefur frumvarp um útlendingamál verið afgreitt til nefndar og þriðju umræðu í þinginu. Fleiri umdeild mál hafa verið afgreidd út úr nefndum. Ég nefni tvö mál sem bæði varða hag almennings sem ríkisstjórnin gætir ekki að.

Annað málið ber yfirskriftina „slit ógjaldfærra opinberra aðila“. Jafnvel þótt lagasetningin eigi að vera almenn að nafninu til er tilefni hennar skýrt, þ.e. bág fjárhagsstaða ÍL-sjóðs.

Það varð okkur dýrkeypt að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fóru saman í ríkisstjórn árið 2003. Samningar við lífeyrissjóði og fleiri um verðtryggð bréf í Íbúðalánasjóði til 40 ára voru stórkostlegur afleikur sem við súpum nú seyðið af. Sömu flokkar höfðu skömmu áður einkavætt bankakerfi sem hrundi í október 2008 með tilheyrandi tjóni fyrir almenning.

Nú vill ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar rifta samningunum þó að fyrir liggi lögfræðiálit um að lagasetningin sé brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til kostnaðarsamra dómsmála á hendur ríkinu. Auk þess mun það leiða til tugmilljarða króna tjóns fyrir almenning í landinu vegna tapaðra lífeyrisréttinda, skapa orðsporsáhættu fyrir landið og ógna fjármálastöðugleika.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar vill ekki standa við gerða samninga og vill að fólkið greiði fyrir hagstjórnarmistök ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar með lífeyrisréttindum sínum.

Hitt umdeilda málið er salan á eignarhlutum í Íslandsbanka. Með því frumvarpi eru ráðherra færð öll völd í söluferlinu og tekið fram að hann þurfi ekki að gæta að hæfi sínu líkt og stjórnsýslulög gera þó ráð fyrir. Að baki reglum um sérstakt hæfi liggja sjónarmið bæði um öryggi og traust. Markmiðið með hæfisreglunum er að minnka hættuna á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvarðanir. Reglunum er ætlað að stuðla að því að almenningur geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt.

Fjármálaráðherrann sem fór fyrir síðustu sölu á hlutum í bankanum, nú forsætisráðherra, gætti ekki að hæfi sínu líkt og frægt er orðið. Viðbrögð við þeirri gagnrýni eru þau að taka hæfisreglurnar úr sambandi!

Miklir ágallar eru á frumvarpinu sem gerir ekkert til að byggja upp traust og trúverðugleika á ný eftir vantraust sem hlaust af síðustu sölu. Auk þess fara hlutir í Íslandsbanka fallandi í verði og eru nú komnir undir gengið 100 en síðasta sala var með afslætti á genginu 117.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar. oddnyh@althingi.is

Höf.: Oddný Harðardóttir