Ferðamenn Eftirspurn er eftir afþreyingu eins og íshellaskoðun.
Ferðamenn Eftirspurn er eftir afþreyingu eins og íshellaskoðun. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sveitarfélagið Bláskógabyggð vinnur nú að skipulagsbreytingum til að heimila uppbyggingu íshellis. „Við erum búin að skipuleggja eina lóð uppi á jökli fyrir íshelli og svo erum við að vinna að skipulagsbreytingu þannig að það verða þá tvær…

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Sveitarfélagið Bláskógabyggð vinnur nú að skipulagsbreytingum til að heimila uppbyggingu íshellis.

„Við erum búin að skipuleggja eina lóð uppi á jökli fyrir íshelli og svo erum við að vinna að skipulagsbreytingu þannig að það verða þá tvær lóðir þar sem er heimilt að vera með íshella,“ segir Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar í samtali við Morgunblaðið.

Hann bindur vonir við að ferlinu ljúki í sumar og svo í kjölfarið verði lóðirnar auglýstar. Helgi segir að fara verði eftir þjóðlendulögum í þessu ferli en hellirinn yrði á þjóðlendu.

„Við höfum fundið fyrir áhuga aðila sem vilja fá lóðir og bjóða upp á upplifunarferðir. Þá höfum við líka meiri stýringu á öllu þannig að menn hafi aðstöðu og geti tryggt öryggi ferðamanna. Það verður að vera ákveðið utanumhald.“

Hann segir ferðamenn sýna þessu áhuga og eftirspurn vera eftir þessari afþreyingu.

Aðspurður segir Helgi að á öðru svæðinu sé nú þegar íshellir sem er opinn og að boðið sé upp á ferðir í hann. Nú sé verið að vinna að skipulagsbreytingum á hinni lóðinni.

Hann segir sveitarfélagið hafa góða reynslu af íshellinum sem fyrir er.