Möguleikar Máni segir víetnamskri viðskiptamenningu stundum lýst sem miðja vegu á milli viðskipta- og starfshátta í Kína og Japan.
Möguleikar Máni segir víetnamskri viðskiptamenningu stundum lýst sem miðja vegu á milli viðskipta- og starfshátta í Kína og Japan. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Tegra hefur stofnað dótturfélag í Víetnam til að geta betur mætt þörfum markaðarins fyrir ýmiss konar fyrirtækjahugbúnað. Ekki er mikið um íslenskan atvinnurekstur í Asíu, og hvað þá í Víetnam, og segir Máni Cong Van Jósepsson að það sé alls ekki sjálfgefið fyrir íslenskt fyrirtæki að hefja starfsemi af þessu tagi en eignarhald á nýja félaginu, sem fengið hefur nafnið Navisol, skiptist til helminga á milli Tegra og víetnamska samstarfsaðilans NaviWorld.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Tegra hefur stofnað dótturfélag í Víetnam til að geta betur mætt þörfum markaðarins fyrir ýmiss konar fyrirtækjahugbúnað. Ekki er mikið um íslenskan atvinnurekstur í Asíu, og hvað þá í Víetnam, og segir Máni Cong Van Jósepsson að það sé alls ekki sjálfgefið fyrir íslenskt fyrirtæki að hefja starfsemi af þessu tagi en eignarhald á nýja félaginu, sem fengið hefur nafnið Navisol, skiptist til helminga á milli Tegra og víetnamska samstarfsaðilans NaviWorld.

Máni er meðeigandi Tegra og segir hann tilganginn með stofnun Navisol að hafa betra svigrúm til að þróa hugmyndir að alls kyns nýjum vörum. „Það hafði runnið upp fyrir okkur að stærstur hluti daglegrar starfsemi okkar á Íslandi fer í það að sinna og viðhalda kerfum fyrir viðskiptavini okkar og lítill tími aflögu til að vinna að öllum þeim góðu hugmyndum sem okkur langar að gera að veruleika. Við viljum geta boðið markaðinum upp á fleiri lausnir, sem kallar á að hafa betri tíma til að forrita,“ útskýrir hann.

Það voru fyrrverandi starfsmenn LS Retail sem stofnuðu Tegra á sínum tíma og mynda hugbúnaðarlausnir LS Retail kjölfestu í rekstrinum. Líkt og lesendur vita er LS Retail í dag í hópi stærstu hugbúnaðarfyrirtækja Íslands og í hópi þeirra söluhæstu í heimi á sviði hugbúnaðar fyrir verslunarrekstur en félagið starfrækir útibú um allan heim. LS Retail notar fyrirtækjahugbúnað Microsoft sem sinn grunn og vinnur með fjölda söluaðila á borð við Tegra.

Máni segir styrkleika Tegra einkum felast í ráðgjöf, innleiðingu og aðlögun kerfa en í hópi stærstu viðskiptavina félagsins má nefna Bláa lónið, N1 og skipafélagið Stena Line. „Staðlaður hugbúnaður nægir oft minni fyrirtækjum en stærri viðskiptavinir þurfa alla jafna á sérsniðnum lausnum að halda s.s. til að tengja saman ólík kerfi,“ útskýrir Máni. „Þannig þurftum við í tilviki Bláa lónsins, svo dæmi sé nefnt, að forrita tengingu á milli lausna LS Retail annars vegar og bókunarkerfis baðstaðarins og hótelsins hins vegar, enda átti félagið þegar eigið bókunarkerfi sem ekki var að því hlaupið að skipta um. Eins þurftum við að forrita tengingu við skannakerfið sem notað er til að hleypa gestum inn á baðstaðinn svo það gæti talað snurðulaust við önnur kerfi fyrirtækisins.“

Samstarfið við NaviWorld segir Máni hafa byrjað að mótast á alþjóðlegum viðburðum sem LS Retail heldur með reglulegu millibili en þar lágu leiðir fulltrúa Tegra og NaviWorld saman. „NaviWorld er endursöluaðili LS Retail líkt og við og hefur á að skipa bæði forriturum og ráðgjöfum, og starfar bæði í Asíu og Ástralíu, en félagið hefur margoft hlotið viðurkenningu RS Retail fyrir framúrskarandi vinnubrögð og býr að mjög sterku orðspori,“ útskýrir hann en ætlunin er að þær nýju lausnir sem Navisol smíðar verði einkum markaðssettar í Evrópu.

Víetnam á uppleið en sýna þarf aðgát í viðskiptum

Það hjálpaði við að koma á góðum tengslum við NaviWorld að Máni er sjálfur ættaður frá Víetnam en foreldrar hans flúðu landið á sínum tíma og komu til Íslands sem flóttamenn árið 1990 þegar Máni var aðeins þriggja ára gamall. Segir hann að það hafi komið sér vel að bera skynbragð á sérkenni víetnamskrar viðskiptamenningar og samskipta, og eins hafi það liðkað fyrir verkefninu að gerðir hafa verið bæði tvísköttunar- og fríverslunarsamningar á milli Íslands og Víetnams.

Hagkerfi Víetnams vex nú með ógnarhraða og hefur nærri fjórfaldast að stærð undanfarinn áratug. Er því ekki nema von að margir renni hýru auga til þessa fallega og merkilega lands og eðlilegt að spyrja Mána hvort íslensk fyrirtæki eigi þangað erindi. Hann segir að þó Víetnam hafi ýmsa kosti fram yfir önnur lönd í sama heimshluta þá kalli viðskiptaumhverfið þar á að sýna mikla varkárni. „Við hefðum ekki stigið þetta skref ef við hefðum ekki þegar byggt upp sterk tengsl við NaviWorld undanfarin tíu ár,“ segir hann og bætir við að þeir sérfræðingar sem Tegra ráðfærði sig við hafi allir brýnt fyrir félaginu að fara varlega. „Það er líka mjög óvenjulegt að erlent fyrirtæki og víetnamskt skipti með sér til helminga eignarhaldi á sameiginlegu félagi og algengara að víetnamski samstarfsaðilinn eigi mun minni hlut. Skýrist það af því að ef upp koma lagaleg álitamál á milli samstarfsaðilanna þá sýnir reynslan að erlendi meðeigandinn stendur höllum fæti. Skilst okkur að á undanförnum árum hafi ekki nema um fimm fyrirtæki verið stofnuð í Víetnam með sambærilegu fyrirkomulagi og Navisol.“

Spurður um víetnamska viðskiptamenningu segir Máni að Víetnamar séu stolt fólk og miklu skipti fyrir hátt setta aðila í atvinnurekstri að „bjarga andlitinu“ eins og það er kallað. Þá segir Máni suma hafa lýst taktinum í víetnömsku atvinnulífi þannig að Víetnaminn lendi miðja vegu á milli kínverskra og japanskra kollega sinna: „Sagt er um Kínverjann að hann vilji tala um hlutina áður en hann byrjar að framkvæma, en að Japaninn klári hlutina og tali svo. Víetnaminn vill tala um hlutina en framkvæma á sama tíma,“ segir hann. „Vestrænir viðskiptamenn þurfa líka að gæta sín á að í Víetnam er fólk gjarnt á að tala í kringum hlutina og á fundum þarf að skilja duldu merkinguna á bak við það sem er sagt, en fyrir þá sem eru óvanir þessu gæti virst eins og að á fundum sé talað um allt og ekkert.“

Sóknarfæri

Markmiðið með stofnun Navisol er að hafa betra svigrúm til að forrita og smíða nýjar vörur.

Leggjast á eitt með öðrum söluaðila LS Retail og byggja á sambandi sem hefur verið lengi að mótast.

Máni kom þriggja ára gamall til Íslands sem flóttamaður.