Þórdís Valdimarsdóttir fæddist á Ísafirði 4. ágúst 1945. Hún lést 10. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Guðrún Kristjánsdóttir, f. 4.6. 1902, d. 8.6. 1986 og Valdimar Veturliðason, f. 21.7. 1909, d. 21.9. 1992.

Þórdís var yngst 12 systkina sem í aldursröð eru: Fríða Hólm, Ari látinn, Helga látin, Finnur Ingólfur, látinn í frumbernsku, Finnur látinn, Gunnar Valdimar látinn, Pétur látinn, Sigurður Þórður látinn, Haraldur látinn.

Guðrún átti tvo syni áður en leiðir þeirra Valdimars lágu saman, þá Kristján Hólm og Guðmund Björn, sem drukknuðu ungir við Arnarnes á leið frá Súðavík til Ísafjarðar.

Þórdís giftist 12. október 1963 Herði Þór Snorrasyni frá Hrísey, hann lést 15. júní 2011. Foreldrar hans voru Snorri Jónsson og Elínrós Eiðsdóttir.

Börn Þórdísar og Harðar eru:

1) Elínrós Helga, fædd 12. febrúar 1964, hún lést 26. mars 1995, 31 árs gömul. Maki Gunnlaugur Höskuldsson. Synir Helgu eru: a) Hörður Þór látinn, synir hans eru Kristófer Freyr og Elvar Andri og b) Steingrímur. Maki Sigrún Ósk Jóhannsdóttir, saman eiga þau soninn Brynjar Þór, fyrir átti Steingrímur soninn Mikael Helga. Barnsfaðir Helgu er Jóhannes Steingrímsson látinn. 2) Guðrún, fædd 16. júní 1967. Maki Jón Þór Arnarson. Þau eiga saman soninn Alex Þór. Fyrir átti Guðrún soninn Andra Frey, barnsfaðir Flemming Þór Hólm. 3) Pálmi Viðar, fæddur 21. október 1973. Maki Guðbjörg Magnúsdóttir. Börn Pálma eru: a) Rakel Ósk, barnsmóðir Guðrún Halldórsdóttir, maki Þórður Ármann Lúthersson, börn þeirra eru Lúther Sveinn, Gyða Dröfn og Pálmi Freyr. b) Birta. c) Alexander. Barnsmóðir Katrín Laufdal. d) Gabríela Ósk. Barnsmóðir Sólveig Eiríksdóttir. 4 Drengur, fæddur 3. nóvember 1980, en hann lést sama dag.

Þórdís er fædd og uppalin á Ísafirði. Árið 1961 kynnist hún ástinni sinni. Fyrstu árin bjuggu þau í Reykjavík, síðan í Hafnarfirði og 1968 flytjast þau til Hríseyjar á æskuslóðir Harðar. Þau voru dugleg að ferðast og fóru alltaf reglulega til sólarlanda og þá oftar en ekki um jól og áramót. Þórdís flutti til Akureyrar árið 2018. Þar bjó hún þangað til hún lést.

Útför Þórdísar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 27. maí 2024, kl. 13.

Elsku besta mamma mín. Það er erfitt að kveðja og söknuðurinn er mikill en mikið er ég líka þakklát fyrir allar góðu minningarnar. Mamma var einstök kona. Ekki hefði ég getað hugsað mér betri móður. Alltaf gat ég leitað til þín alveg sama með hvað.

Þú varst alltaf svo ljúf og góð, þú varst hógvær, trygg og ábyrg kona. Aldrei heyrði ég þig kvarta og kveina. Mamma og pabbi voru einstaklega samhent hjón og áttu fallegt og gott samband. Alltaf voruð þið samstiga. Þið virtuð heilshugar hvort annað.

Mamma hafði yndi af matseld og bakstri. Hún var mikil félagsvera og elskaði að hafa fólkið sitt í kringum sig. Ég á eftir að sakna svo mikið jólanna, sem þú varst alltaf hjá okkur eftir að pabbi lést, en áður en þú komst suður til okkar þurftir þú að skoða veðurspá vel og vandlega því ekki flaugst þú í hvaða veðri sem er. Ég á eftir að sakna þess að koma til Akureyrar og geta ekki heimsótt þig. Ég á eftir að sakna þess að hafa þig ekki hjá okkur í þínu herbergi – ömmu herbergi, en þú áttir þitt eigið herbergi hjá okkur. Ég á eftir að sakna að geta ekki hringt í þig, ég á eftir að sakna þess að geta ekki sagt þér frá árlegum frænkuhittingum, dætrum systkina þinna sem gladdi þig mjög mikið.

Mamma mín var einstök og frábær mamma og amma. Hún var listræn, bjó til sín eigin jólakort og tækifæriskort sem hún saumaði í og skreytti og lagði mikla vinnu í og skrifaði svo fallega á þau.

Það var mikið áfall fyrir mömmu að missa dreng sem lést sama dag og hann fæddist, þegar Helga systir lést aðeins 31 árs og þegar pabbi lést aðeins 69 ára. Elsku mamma mín, ég veit að pabbi, Helga og sonur hafa tekið vel á móti þér í sumarlandinu ásamt öllum hinum sem eru farin. Ég bið að heilsa öllum. Takk fyrir allt, ég elska þig.

Þótt móðir mín

sé nú aðeins minningin ein

mun ég ávallt minnast hennar

með glöðu geði

og dýpstu virðingu,

hugheilu þakklæti

og hjartans hlýju,

fyrir allt og allt.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þín dóttir,

Guðrún.

Elsku Dísa tengdamamma er fallin frá eftir stutt og erfið veikindi. Ég minnist hennar sem einstaklega ljúfrar konu sem ég hitti fyrst fyrir fimm árum þegar við Pálmi fórum að slá okkur upp. Hún tók mér og mínum dætrum strax opnum örmum, alltaf brosandi og til í spjall.

Í covid æxlaðist það þannig einn daginn að við eyddum heilum degi bara við tvær saman, töluðum út í eitt um söguna okkar beggja og fórum á rúntinn í Reykjavík þar sem við keyrðum á milli staða sem hún átti minningar frá frá yngri árum eins og Ránargötu, Baldursgötu og Kleppsvegar. Við ræddum um lífið, ástina, hjónabandið, sorgina og missinn sem hún hafði upplifað og hvaða áhrif þessir atburðir höfðu á hana. Þarna vorum við einfaldlega vinkonur á trúnó og þar sem kynni okkar voru ekki gömul er ég ennþá einstaklega þakklát fyrir þennan dag þar sem við náðum að kynnast á dýpri hátt og ég fékk að heyra fjölskyldusöguna frá hennar hlið.

Dísa var húsmóðir af gamla skólanum, átti fallegt heimili og alltaf hlaðborð af kræsingum þegar við heimsóttum hana á Akureyri. Hún hafði mikið dálæti á að fara út að borða góðan mat þar sem sushi var í uppáhaldi og svo var hún svo mikil dama sem var alltaf vel tilhöfð og hafði gott auga fyrir góðum efnum í flíkum. Hagsýn var hún og sparsöm með eindæmum og var mjög meðvituð um hvað hlutirnir kostuðu sem mér fannst aðdáunarvert. Hún talaði mikið um að við ættum alltaf að njóta lífsins meðan við gætum og munum við Pálmi einfaldlega hlýða því!

Ég kveð Dísu með söknuði en á sama tíma þakklát fyrir okkar góðu kynni.

Guðbjörg Magnúsdóttir.

Kveðja til litlu systur.

Litlu systir sem fór svo skyndilega að ekki var tími til að kveðja og þakka allar góðu samverustundirnar.

Ég er ekki alveg búin að ná því að hún Dísa litla sé farin.

Dísa sem mundi alla afmælis- og heiðursdaga í fjölskyldunni, Dísa sem bjó til flottustu jólakortin og hafði alltaf yndi af því að búa til eitthvað fallegt.

Ég man svo vel þegar hún kom í heiminn, hvað við Helga systir vorum glaðar. Við vorum orðnar svo leiðar á öllu þessu strákastóði, sex bræður í röð og einn eldri, með tilheyrandi fjöri og strákalátum sem var ekki alveg að okkar skapi á þeim árum.

Svo kom hún Dísa, yngst af 10 alsystkinum, alltaf ljúf og jákvæð.

Og árin runnu hjá og hún var ekki Dísa litla lengur, orðin stór og falleg stúlka. Búin að hitta draumaprinsinn frá Hrísey sem var að klára sitt nám í borginni.

Í Hrísey bjuggu þau sér heimili og áttu börn.

Meðan bæði lifðu var Hrísey alltaf besti staðurinn til að búa á, þannig var það bara.

Og nú er ég viss og trúi því að hún Dísa mín sé búin að hitta ástvini sína alla sem farnir eru á undan.

Hugheilar samúðarkveðjur til barna og fjölskyldna þeirra.

Þín systir,

Fríða.