Meistari Róbert Aron Hostert með Evrópubikarinn eftir leik í Aþenu.
Meistari Róbert Aron Hostert með Evrópubikarinn eftir leik í Aþenu. — Morgunblaðið/Jóhann Ingi
„Ég fór bara að gráta,“ sagði Róbert Aron Hostert leikmaður Vals í samtali við Morgunblaðið eftir að hann varð Evrópubikarmeistari í handbolta með liði sínu eftir sigur á gríska liðinu Olympiacos í Aþenu á laugardagskvöld

„Ég fór bara að gráta,“ sagði Róbert Aron Hostert leikmaður Vals í samtali við Morgunblaðið eftir að hann varð Evrópubikarmeistari í handbolta með liði sínu eftir sigur á gríska liðinu Olympiacos í Aþenu á laugardagskvöld.

Úrslitin réðust í vítakeppni eftir að staðan var hnífjöfn, 62:62, eftir tvo leiki. Valur skoraði úr öllum fimm vítaköstum sínum en gríska stjarnan Savvas Savvas skaut í slá í síðasta víti Olympiacos.

„Ég er stoltur af liðinu. Það var þvílíkt mótlæti, mér fannst bara allt á móti liðinu í leiknum. Dómgæslan var ekki góð og mér fannst eins og það væri að brotna undan þessu en við sýndum styrk. Að koma til baka, fara í vító og klára þetta eins og alvörutöffarar.

Sástu þessa gæja og vítin þeirra? Maður býr til sína eigin heppni og Björgvin lokaði á hann og hann skaut í slána. Þetta er það fallega við íþróttir, þetta getur verið stöngin inn og stöngin út,“ sagði Róbert.

Einvígið var sjöunda Evrópueinvígi Vals á löngu og ströngu tímabili.

„Þetta er búið að vera langt tímabil með endalaust af ferðalögum. Við erum að vinna heima, erum píparar, lögfræðingar og með fjölskyldur og við höfum þurft að púsla öllu saman. Við höfum þurft að safna fyrir þessu og sjálfboðaliðar og allir sem hafa komið að þessu eiga þetta svo skilið. Þetta er fyrir þau,“ bætti hann við og hélt áfram:

„Það hefur ekkert lið á Íslandi gert þetta áður. Að taka á móti bikarnum hérna eftir allt þetta mótlæti er geggjað,“ sagði Róbert Aron.