Óskar Þór Sigurbjörnsson fæddist á Ólafsfirði 17. júní 1945. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hornbrekku, Ólafsfirði, 11. maí 2024.

Óskar var sonur hjónanna Ármanníu Þórlaugar Kristjánsdóttur húsfreyju, f. 27.7. 1915, d. 8.10. 2004, og Sigurbjörns Björnssonar sjómanns, f. 8.11. 1915, d. 14.11. 1992. Systkini hans eru fjögur: Kristín Björg, f. 1940, Ásta, f. 1946, Gunnar, f. 1949, og Sigurlína, f. 1955.

Hinn 16. júní 1971 kvæntist Óskar Soffíu Margréti Eggertsdóttur, f. 28.9. 1951. Þau bjuggu á Ólafsfirði öll sín hjúskaparár utan tveggja vetra á árunum 1993-1995 þegar þau dvöldu við framhaldsnám í Kanada. Heimili fjölskyldunnar á Túngötu 13 byggðu hjónin sjálf og bjuggu þar lengst af. Foreldrar Soffíu Margrétar voru Eggert Gíslason skipstjóri, f. 12.5. 1927, d. 12.7. 2016, og Sigríður Regína Ólafsdóttir húsfreyja, f. 23.4. 1929, d. 22.4. 2016.

Synir Óskars og Soffíu Margrétar eru: 1) Ólafur Ármann, f. 1972, hann var kvæntur Sigrúnu Sigurðardóttur, f. 1968, þau skildu og eru börn þeirra: Signý Rós, Sigurður Bogi og Gréta Þórey. 2) Eggert Þór, f. 1973, eiginkona: Magna Lilja Magnadóttir, f. 1974. Börn þeirra eru Maren Ósk, Aron Snær og Regína Lind. 3) Sigurbjörn Reginn, f. 1979, eiginkona: Elísabet Pétursdóttir, f. 1980. Börn þeirra eru Kjartan Bessi, Baldur Þór og Kolbrún Lilja. 4) Kristján Uni, f. 1984, eiginkona: Sylvía Dögg Hjörleifsdóttir, f. 1986. Börn þeirra eru: Elísa Dröfn, Óskar Pálmi og Embla Hólmfríður.

Óskar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1965 og BA-prófi í ensku, landafræði og sögu frá heimspekideild Háskóla Íslands 1970. Kennsluréttindum lauk hann 1971 og kenndi samhliða námi til þeirra við Hagaskóla. Einnig lauk Óskar meistaragráðu í stjórnun menntastofnana frá University of British Columbia í Vancouver í Kanada 1995. Hann kenndi stærstan hluta starfsævi sinnar við Gagnfræðaskólann Ólafsfirði, frá 1971, og var þar skólastjóri frá 1980 til 1993 og 1995 til 2000. Frá 2000 til 2006 starfaði hann sem skólamálafulltrúi fyrir skólaþjónustuna ÚTEY. Þá gegndi hann margs konar félags- og trúnaðarstörfum, m.a. fyrir sóknarnefnd Ólafsfjarðarkirkju, Rótarýklúbb Ólafsfjarðar, Menntaskólann á Akureyri og Norræna félagið auk þess að sitja í bæjarstjórn og ýmsum nefndum m.a. um gerð Múlaganga, byggingarnefnd vegna stækkunar Ólafsfjarðarkirkju 1998, hafnarmál á Ólafsfirði og fleira. Óskar hafði samhliða starfi sínu sem kennari og skólastjóri milligöngu um nemendaskipti fjölda ungmenna á milli Ólafsfjarðar, Ástralíu og Kanada á vegum Rótarýklúbbsins. Á sumrin reri Óskar til fiskjar á trillunni Perlunni ÓF-75 sem hann gerði út frá Ólafsfirði allt frá árinu 1977 og fram á sjötugsaldur.

Útför Óskars verður gerð frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 27. maí 2024, kl. 14.

Þegar ég lít til baka og horfi yfir ævi föður míns er mér efst í huga hversu góður maður hann var og hversu mikið yndi hann hafði af barnabörnunum sínum. Þá minnist ég föður míns fyrir mikla vinnusemi og dugnað, oft sem svolítið upptekins manns og minnist ég þess oft að hafa horft út um stofugluggann á Túngötunni, yfir fótboltavöllinn og fylgst með því hvenær ljósið á skólastjóraskrifstofunni yrði slökkt og gamli færi nú að skila sér heim í kvöldmat.

Ég man að ég tengdist pabba mínum vel þegar við bjuggum í Kanada árin 1993-1995. Mér fannst pabbi hafa öðlast aukinn tíma til samveru með fjölskyldunni, tíma til að sinna tómstundastarfi okkar bræðranna, ferðast um sveitir British Columbia-fylkis og sjá til þess að við bræðurnir kæmumst reglulega á skíði í Grouse Mountain eða Whistler. Ber hæst minninguna um stundirnar sem hann gaf mér í endalaus ferðalög út um alla Vancouver-borg á fótboltaæfingar, alls konar aukaæfingar og keppnisleiki sem leiknir voru á hinum og þessum völlum borgarinnar meðan pabbi fylgdist með á hliðarlínunni ásamt því að blanda geði við hina foreldrana. Og ótrúlegur var hann í samskiptum við fólk, hvernig honum tókst að kynnast, og á einhvern frábæran hátt tengjast fólki út um allan heim vináttuböndum. Við stóðum gjarnan á gati yfir því hvernig hann fór að þessu og við bræðurnir gerðum oft góðlátlegt grín að þegar jólakort bárust frá gömlum vinum með skrýtnum nöfnum úr norrænu samstarfi eða áströlskum eða amerískum Rótarýklúbbum.

Það má segja að það allra fallegasta við pabba hafi verið hversu mikill barnakarl hann var. Hann ljómaði þegar hann umgekkst börn okkar bræðranna, gaf sér alltaf tíma fyrir þau. Við Sylvía vorum ennþá í menntaskóla þegar við eignuðumst Elísu og fluttum með hana inn á Akureyri þegar hún var aðeins níu mánaða til þess að klára skólann. Eitthvað gekk erfiðlega hjá okkur að fá pössun fyrir stelpuna og fór það svo að gamli skólastjórinn keyrði inn eftir til Akureyrar í hverri viku þann veturinn, passaði fyrir okkur ungbarnið og sá til þess að við gætum einbeitt okkur að náminu. Þegar við svo fluttum til Reykjavíkur til að fara í háskólanám kom upp álíka staða og aftur, eins og kannski við mátti búast af föður mínum, kom hann til okkar til að aðstoða okkur með Elísu. Fylgdust þau að um Þingholtin, stoppuðu við á leikvöllum hverfisins og skoðuðu kisurnar á Baldursgötunni þar sem við hófum búsetu okkar fyrir sunnan, gamli maðurinn með litlu afastelpuna sína. Hóf Elísa leikskólagöngu sína í fylgd afa síns þetta sama haust þegar hann fylgdi henni í aðlögun á Ægisborg.

Alltaf þykir okkur Sylvíu jafn vænt um að rifja þetta upp, þessa ótrúlegu góðvild og hvernig það var pabba svo eðlislægt að gefa af sér á þennan hátt til okkar og barnabarnanna. Við erum þakklát fyrir að Óskar nafni hans og Embla Hólmfríður hafi, eins og eldri systir þeirra, fengið að kynnast afa sínum vel og eignast góðar minningar með honum sem munu alltaf lifa með okkur.

Meira á:

www.mbl.is/andlat

Kristján Uni Óskarsson.

Nú er komið að kveðjustund og er það með þakklæti í huga sem ég rifja upp þann tíma sem við áttum með elsku Óskari tengdaföður mínum.

Fyrsta skiptið sem ég kom norður með Sigurbirni er minnisstætt. Þar tókstu á móti mér með þinni einstöku hlýju og brosi og fórst í þessari fyrstu heimsókn í gegnum nokkur myndaalbúm í stofunni og sagðir frá uppvaxtarárunum hjá Sigurbirni. Hann hafði orð á því hvort þú ætlaðir virkilega að sýna mér allar þessar myndir og þú brostir og sagðist þurfa að sýna mér aðeins frá uppvaxtarárunum. Myndasýningarnar áttu svo eftir að verða fleiri í gegnum árin enda voru myndir og myndbönd eitt af þínum mörgu áhugamálum sem við fjölskyldan nutum góðs af.

Mér er líka ofarlega í huga þegar ég kom norður til ykkar Grétu með Baldur Þór eins árs til að vinna að lokaverkefni. Við dvöldum hjá ykkur í viku og var sá tími mjög lýsandi fyrir þig. Þú naust þín við að sinna Baldri, gefa honum að borða, spjalla við hann og leika. Ég sat niðri og skrifaði en kom svo upp í pásunum og spjallaði í eldhúsinu um hvernig ritgerðarskrifin gengu. Það var ávallt gott að sitja í eldhúskróknum á Túngötunni og þar var oft setið löngum stundum yfir spjalli og kaffi. Eitt kvöldið þessa viku tókstu fram skyggnuvélina, bauðst upp á rauðvínstár og sýndir mér myndir af ferðalögum ykkar Grétu í gegnum árin en það var sérstaklega gaman að hlusta á þig og fylgjast með þér segja frá í gegnum myndir.

Þær eru ófáar minningarnar sem við eigum um þig þar sem hlýja, húmor, jafnaðargeð og gestrisni koma helst upp í hugann. Barnabörnin voru augasteinarnir þínir og naustu þín best í afahlutverkinu og við að fylgjast með þeim vaxa og dafna. Það er með söknuði í hjarta sem við nú kveðjum þig en nú hefurðu loksins fengið hvíld eftir erfiða baráttu sem þú tókst á við af miklu æðruleysi.

Ástvinir munu þér aldrei gleyma

meðan ævisól þeirra skín.

Þú horfin ert burt til betri heima.

Blessuð sé minning þín.

(Theodór Einarsson)

Elísabet.

Elsku afi.

Það er margt sem ég man úr barnæsku minni. Eða ég tel mig að minnsta kosti muna það en veit hins vegar ekki hvort það eru raunverulegar minningar eða bara myndefni af spólunum þínum. Sama hvað við vorum að bauka, þá varstu á augabragði kominn með vélina á loft og byrjaður að taka upp. Hvort sem við vorum að leika okkur í sandkassanum, borða grjónagraut og brauð með eggi, spreyta okkur á leikjanámskeiðum, fótbolta, skíðum eða bara stara út í bláinn á meðan þú gerðir heiðarlegar tilraunir til að ná sambandi við okkur. „Hæ Gréta. Hvað ertu stór? Hvað ertu sterk? Horfðu á afa. Brostu. Leyfðu afa að sjá þig. Gúgú. Hvar er afi? Váá. Horfðu hingað. Grétaaa! Halló? Jááá þarna er Gréta. Dugleg. Hvað ertu stór? Má ég sjá? Vá svoona stór!?“

Minningarnar eru margar en þær dýrmætustu og eftirminnilegustu eru frá tímanum sem ég fékk að verja með þér í vinnunni á Hornbrekku síðustu tvö sumur. Ég fékk að kynnast þér á nýjum nótum, kynnast Óskari afa án þess að vera alltaf í afahlutverkinu. Það voru engin 11 önnur barnabörn að bíða eftir grjónagraut og eggjabrauði, engir pappírar og skjöl sem þurfti að undirrita og þó svo að veikindi þín hafi verið komin á þetta stig kom það sjaldan að sök því það var nærveran sem mér þótti svo vænt um. Bara það að geta setið hjá þér án þess að þurfa að segja nokkurt orð eða geta gengið með þér eftir ganginum á góðum degi var mér einstaklega kært. Svo má ekki gleyma öllum þeim skiptum sem þú bauðst litlu Grétu að leggja sig í holunni þinni. „Nei afi, núna er ég er á vakt. En kannski seinna.“

Elsku afi. Þó þú sért bara hjá okkur í anda munu minningarnar og allt spólumyndefnið ylja mér ævilangt. Ég lofa að halda áfram að spila á píanóið fyrir þig þangað til við hittumst aftur og þá mun ég loksins leggja mig í holunni þinni. Ég lofa.

Gréta Þórey Ólafsdóttir.

Elsku afi Óskar.

Margar góðar minningar koma upp í hugann nú þegar við kveðjum þig. Við komum svo oft til ykkar ömmu á Ólafsfjörð og fannst alltaf gott að vera á Túngötunni og á Aðalgötunni eftir að þið fluttuð þangað. Við komum til ömmu og afa í flestum fríum og það var alltaf nóg að gera. Það var stutt á skíðin af Túngötunni en við gátum bara labbað upp í brekku til að renna okkur og líka gert snjóhús eða farið í fótbolta í garðinum. Á sumrin var svo farið með afa út í fjöru til að sækja sand í sandkassann. Okkur fannst líka gaman að fara með afa um borð í Perluna, bátinn hans, og fá að kasta með veiðistöng við bryggjuna. Afi vaknaði alltaf með okkur á morgnana og eldaði oft grjónagraut í hádeginu og lék svo við okkur með allt gamla dótið í stofunni. Stundum var líka farið í göngutúr til að gefa öndunum, meðfram vatninu eða sagað og neglt í spýtur í skúrnum. Svo sátum við með afa á skrifstofunni og lékum okkur í tölvunni meðan hann opnaði póstinn með bréfahnífnum sínum.

Eftir að afi varð veikur heimsóttum við hann á Hornbrekku. Þá komum við oft hlaupandi úr sundi eða af fótboltavellinum og hittum afa í kaffitímanum, fengum okkur kakó og fleira gott. Þegar við vorum að fara aftur heim til Reykjavíkur vildi afi alltaf veifa okkur úr glugganum sínum áður en við keyrðum af stað. Takk fyrir allt elsku afi.

Kjartan Bessi,
Baldur Þór og
Kolbrún Lilja.

Elsku Óskar afi, ég er þakklát fyrir árin sem ég átti með þér áður en það fór að hægjast á og þú varðst eins og gömul dísilvél. Þegar þú lagðist á gólfið og lékst fjall sem við keyrðum dótabílum yfir eða skelltir þér á fjóra fætur og við settumst á bak. Sá leikur varð aldrei þreyttur. Þvílíkt ævintýri sem það var að vera barn í heimsókn hjá ömmu og afa á Túngötunni. Þar sem flugusafnandi gluggakistan og gleypandi gardínurnar voru skotheldur felustaður þegar „jæja, nú förum við heim“ tók yfir gleðina og skemmdi ævintýraupplifunina. Barnabarnamynd í stiganum. Alltaf einn í fýlu eða að horfa eitthvað annað. „Mús og skott“ sagðirðu brosandi og tókst okkur í fangið.

Allir pennarnir í brjóstvasanum, grjónagrautur af ævintýradiskum og laumast í búrið. Það var allt gott sem kom úr búrinu. Gamli rugguhesturinn og felustaðurinn undir stiganum, fisherman-hálsmolarnir og klinkið á hillunni í eldhúsinu, lagspilandi dyrabjallan og falskasta píanó sem sögur fara af, allir glömruðu á það. Skíðastafurinn, bílasíminn, kíkirinn, langbylgjuútvarpið á baðinu sem var alltaf í gangi, ísinn í frystikistunni, vonda lyktin af þér þegar þú komst af Perlunni, góða lyktin í bílskúrnum og fótbolti í garðinum. Það var bras að ná boltanum aftur upp þegar hann rúllaði í kartöflugarðinn, helst áður en þú tækir eftir því að við værum að traðka á kartöflunum og beygla rabarbarann. En við kipptum þeim bara með upp fyrst þeir voru hvort sem er brotnir og þið amma settuð sykur í dollu og allt varð gott. Þið amma urðuð svo eftir á tröppunum og vinkuðuð þar til við keyrðum fyrir horn.

Afi, þú varst svo mikill sögumaður. Allt varð að frásögn. Hversdagsleg augnablik urðu að stórmerkilegum atburði sem þurfti að festa á filmu. Og auðvitað tala yfir. Ég yfirfærði allar spólurnar og horfði á allt efnið. Þar sá ég þróunina á barnabörnunum, æskan á filmu. En ég sá líka þróunina á þér, hvernig heilsan versnaði með hverri spólunni þar til þú hættir að taka upp. Ég er með vélina þína og ég lofa að passa hana vel. Ég lofa að vera dugleg að taka upp allt sem ég sé. Allt sem fangar athygli mína. Ég lofa að trufla fólkið mitt með viðtölum á meðan það borðar hádegismat. Ég lofa að taka upp eitthvað sem skiptir engu máli eins og þú gerðir ein áramótin þegar þú tókst upp heila flugeldasyrpu út um stofugluggann á Túngötunni. Engar áhyggjur afi minn, ég skal sjá um þetta. Ég skal taka við keflinu. Fanga öll fallegu augnablikin. Ég pældi ekki í því þá en ég sé það núna hvað það er dýrmætt.

Í draumaheimi setjum við systkinin trilluna þína á flot og ímyndum okkur að þú sért með í för er við siglum á móti sólinni sem býður okkur góðan daginn. En þú siglir nú einn á önnur mið. Mið þar sem líkaminn hlýðir boðum frá heilanum fyrirvaralaust. Þú ert léttur á fæti, stekkur um borð í Perluna þína með gömlu húfuna skakka á höfðinu. Þú ert með minningar í nesti.

Elsku afi minn, takk fyrir sögumannsfræin, ég lofa að nýta og næra þau vel.

Takk fyrir ævintýrin og góða ferð út á eilífðarmiðin.

Þar til næst.

Þín

Signý Rós.

Óskar Þór var næstelstur í okkar fimm systkina hópi. Sú elsta var fimm ára gömul þegar hann fæddist og sú yngsta kom í heiminn þegar Óskar var 10 ára.

Bernsku-, æsku- og unglingsárin einkenndust af leik, lærdómi, uppátækjum og ýmsum störfum. Við systkinin áttum góð uppvaxtarár í foreldrahúsum og höfum alla tíð verið miklir vinir gegnum súrt og sætt.

Óskar var námfús og samviskusamur. Hann byrjaði snemma að taka til hendinni við ýmis störf, var í sumarvinnu á síldarplani og háseti á síldarbáti. Hann var handlaginn og eitt sinn smíðaði hann lítið hús handa litlu systur og hélt hún „kaffiboð“ þar inni.

Snemma kom í ljós hversu ábyrgðarfullur og stefnufastur bróðir okkar var. Hann fann lausnir og miðlaði málum í systkinahópnum en gat líka sjálfur verið þrár og þrjóskur. Hann var líka mjög stríðinn og höfðum við hin ekki roð við honum þar.

Ungur sýndi Óskar félagsmálum áhuga. Við munum eftir skátafundunum heima í stofu. Seinna tóku við félagsmál þar sem þeir æskuvinirnir hann og Þórleifur létu til sín taka. Félagsmál og félagsstörf voru bróður okkar hugleikin alla tíð.

Óskar var mikill skólamaður og gerði kennslu og skólastjórnun að ævistarfi. Sjórinn heillaði hann líka og eignaðist hann bát og stundaði sjóinn á sumrin.

Óskar var sá eini okkar systkina sem settist að í Ólafsfirði. Gestrisni var mikil á Túngötu 13 þar sem fjölskyldan bjó.

Synirnir fæddust og gaman var að fylgjast með bróður okkar í föðurhlutverkinu og síðar í hlutverki afa 12 barnabarna. Þegar afi fór á eftirlaun brá hann sér milli staða og aðstoðaði með barnabörnin. Gamli skólastjórinn fylgdi einu barnanna í aðlögun í leikskóla. Síðar fréttist að honum hefði verið boðið starf í leikskólanum.

Seint verður fullþökkuð sú alúð og umhyggja sem Óskar og fjölskylda sýndu foreldrum okkar.

Þegar Óskar greindist með parkinsonsveiki hélt hann ótrauður áfram daglegum gönguferðum með gönguhópi sínum til áratuga og nýtti sér aðra þjálfun. Þegar draga fór úr hreyfifærni og raddstyrk hafði það mikil áhrif á mann sem alltaf hafði stundað útiveru og sem notað hafði rödd sína sem „vinnutæki“ í starfi og félagsmálavafstri. Mikil viðbrigði urðu að geta ekki lengur átt óheftar samræður við vini og samferðafólk. En hugsunin og gott minni var á sínum stað og hægt var að „fletta upp“ í honum ef eitthvert okkar hinna mundi ekki nöfn eða vantaði svör.

Æðruleysið sem Óskar sýndi í veikindum sínum var með eindæmum og honum tókst líka einhvern veginn að halda sínum góða húmor fram undir það síðasta.

Síðustu tvö árin átti bróðir okkar heimili á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hornbrekku. Þar naut hann alúðar, umhyggju og virðingar hjá því dásamlega fólki sem þar starfar.

Við systkinin þökkum okkar kæra bróður samfylgdina gegnum lífið og biðjum honum blessunar. Systkinabörnin þakka frænda sínum góðsemi og væntumþykju sem hann sýndi þeim alla tíð.

Elsku Gréta, synir, tengdadætur og barnabörn, minningin um mætan mann lifir.

Kristín Björg, Ásta,
Gunnar og Sigurlína.

Óskar Þór Sigurbjörnsson hefur kvatt þessa jarðvist eftir langa og á köflum stranga glímu við illvígan vágest. Hann greindist með parkinssonsjúkdóminn fyrir rétt um fimmtán árum og síðustu árin var hann vistmaður á Hornbrekku í Ólafsfirði. Sjálfsagt hefur hann orðið hvíldinni feginn því gesturinn herti tökin smátt og smátt og á síðustu misserum var löngu orðið ljóst að engin leið væri til lands úr þeim heljargreipum. Vissulega tók þetta stríð á þó aldrei heyrðum við Óskar kvarta undan hlutskipti sínu. Þær mágkonur Gréta og Ásta systir hans stóðu þétt við bakið á honum og það var aðdáunarvert hversu natnar, kærleiksríkar og þrautseigar þær voru í sínum daglegu heimsóknum og umönnun þann tíma sem hann dvaldi á Hornbrekku.

Óskar var mikill fjölskyldu maður og bar hag fjölskyldu sinnar mjög fyrir brjósti. Þegar barnabörnin fæddust eitt af öðru fylgdist hann náið og af kærleika með þroska þeirra og framförum allt fram á síðustu dægur. Hann var óþreytandi við að taka af þeim vídeómyndir og sýndi þær oft, stoltur afi. Þessar myndir og minningar þeim tengdar eru og verða öllum afkomendunum mikill fjársjóður til langrar framtíðar.

Óskar hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, var staðfastur í afstöðu sinni til stjórnmála, lét sig varða framgang samfélagsins á mörgum sviðum og tók af heilindum þátt í bæjarpólitík, safnaðarstarfi Ólafsfjarðarkirkju, starfsemi Rótarýklúbbsins og sinnti vel norrænu vinabæjarsamstarfi svo eitthvað sé nefnt. Hann var mikill Ólafsfirðingur, heyrðist aldrei halla orði á sína kæru heimabyggð og ef hann var símleiðis inntur eftir því hvernig veðrið væri þarna fyrir norðan þá stundina var svarið jafnan að það væri bara ágætisveður í Ólafsfirði þann daginn.

Óskar var myndarlegur á velli, sterklega byggður og bar sig vel. Hann var ljóshærður, bjartur yfirlitum og svipsterkur, handtakið var sterkt og þétt. Ættmóðirin Hrefna Þorsteinsdóttir hafði oft orð á því hvað hann Óskar hefði fallegt höfuðlag. Hann hafði ágæta kímnigáfu sem hann hélt allt fram á það síðasta og hafði gaman af glettni og góðlátlegu gríni, þó ekki hefði hann sjálfur oft uppi uppi gamanmál.

Óskar hafði unun af því að ferðast og þau Gréta fóru víða bæði innan lands og utan. Óskar aflaði sér vitneskju og þekkingar um staðina sem heimsóttir voru og var duglegur við að miðla til samferðamanna sinna. Þau hjónin voru frændrækin vel og rausnarleg, höfðingjar heim að sækja, gestrisin í betra lagi og veittu gjarnan vel bæði í mat og drykk. Heimsóknir á Túngötu og síðar Aðalgötu voru sannarlega hátíðarstundir. Frá fjölmörgum ferðum okkar hér innanlands eigum við einnig góðar og hlýjar endurminningar. Fyrir allt þetta ber að þakka.

Við sjáum á bak mági og svila en einnig kærum vini til margra áratuga og hefur hvergi borið skugga á okkar samskipti. Hans verður sárt saknað.

Við sendum Grétu, sonum, tengdadætrum og afkomendum öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur en einnig Ástu systur Óskars sem nú syrgir kæran bróður.

Guð blessi minningu Óskars Þórs Sigurbjörnssonar.

Hrefna og Kjartan.

Óskar frændi.

Í þessum orðum fólst svo margt, ómældur kærleikur, umhyggja, gleði og tilhlökkun. Mannvinurinn, móðurbróðir minn, skólastjórinn, trillusjómaðurinn og rótarýfélaginn, svo fátt sé nefnt, skipaði risastóran sess í hjarta mínu, innst í kjarnanum, alveg frá því ég man eftir mér. Hann var svo barngóður, ég var sérstaklega hænd að honum, og seinna sonur minn og síðan barnabörn, öll nutum við ljúfmennsku hans og góðvildar. Þegar Óskar hóf nám í HÍ var hann tíður gestur hjá okkur. Mamma og pabbi opnuðu hjarta sitt og heimili fyrir systkinum mömmu, og það var og er gagnkvæmt. Einu sinni sem oftar var frændi hjá okkur, ég þá þriggja ára skott og heldur betur ánægð með að hafa elsku Óskar frænda í heimsókn, sem var alltaf svo undurgóður en … hann vissi nákvæmlega hvernig hann fékk litlu frænku sína til að rjúka upp og svara svo fyrir sig, enda ákveðin. Hann var nefnilega dálítið stríðinn, en þarna fékk ég nóg og rak hann út með harðri hendi. Ég man, pollróleg, í hvítum blúndukjól, þegar Óskar fór í frakkann sinn, setti trefilinn á sig á leiðinni út og lék hlutverk sitt svo vel að góður leikari hefði mátt skammast sín. Bróðir minn, árinu eldri en ég, spurði mömmu hvort hún ætlaði að láta mig reka Óskar frænda út. Mamma sagði: Helga mín, ætlarðu virkilega að reka gestinn okkar út? Ég svaraði snögglega: Hann er enginn gestur, hann er alltaf hérna! Svo mörg voru þau orð. Fyrir náð og miskunn fékk hann að koma inn aftur, eftir að hafa fengið sér góðan göngutúr. Það er mikið búið að skemmta sér yfir þessari uppákomu í gegnum tíðina. Aldrei vísaði hann mér þó á dyr, tók ávallt á móti mér, drengnum mínum, barnabörnum og vinum, opnum örmum, og yndislega Gréta hans ekki síður. Það var dálítið skemmtilegur frasi sem ég notaði mikið og fannst eðlilegur, en öðrum þótti ótrúlega fyndinn. Notaði hann þegar ég var að biðja frænda að koma með mér út að slá grasið á Garðstíg 1, á æskuslóðunum í Óló. Ég sagði alltaf: Óskar, eigum við að fara út að lemja? Sama merking fyrir mér. Já, hann hafði gaman af litlu frænku sinni og ég dýrkaði og dáði frænda, var líka handviss um að flaggað væri fyrir honum á þjóðhátíðardaginn 17. júní, á afmælisdegi Óskars.

Ég græt þegar ég skrifa þessar minningar, tárin streyma og byrgja mér sýn. Ég sakna þín svo mikið, en er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa haft þig í lífi mínu og allar ljúfu, góðu, skemmtilegu og ómetanlegu samverustundirnar gegnum tíðina. Uppbyggjandi samræður en stutt í grínið, grillveislurnar og önnur veisluhöld, umvefjandi traust faðmlagið. Þann 27. júlí 2001, á afmælisdegi elsku ömmu, fór ég með Óskari, Grétu og fleirum í eina af skemmtilegri gönguferðum sem ég hef farið í. Gangan hófst rétt fyrir utan Grenivík, við gengum að Látrum og til baka sama dag. Unnum líka í veðurhappdrættinu, 25 gráður og undurfallegt. Ég man að Óskar frændi var eins og fjallageit, þvílíkt fimur og í forystu fyrir hópnum. Ógleymanleg ævintýraferð. Það er svo óendanlega margs að minnast og ljúft verður að ylja sér við góðu minningarnar. Þótt sorfið hafi að klettinum mínum sl. ár skyggði það ekki á þá göfugu sýn sem ég hafði á honum alla tíð.

Elsku Gréta mín, Óli, Eddi, Sibbi, Uni og fjölskyldur. Elsku mamma mín, Ásta, Gunni, Lína og fjölskyldur. Hjartans samúð til ykkar allra.

Ég kveð elsku hjartans ljúfa og góða Óskar frænda með ómældri virðingu og þökk. Blessuð sé minning þín fagra.

Helga Bjarnadóttir.

Fallinn er frá góður vinur sem ég mat mikils. Er mér bæði ljúft og skylt að minnast hans með þakklæti.

Vegir okkar lágu saman er ég kom nývígður prestur til Ólafsfjarðar. Það er ómetanlegt hverjum presti að vinna með góðu fólki. Flestir eiga því láni að fagna sem betur fer. Þannig var það á mínum árum í Ólafsfirði. Frábær hópur fólks tilbúinn að leggja fram krafta sína og metnað fyrir kirkjustarfið. Einn þeirra var Óskar sem fljótlega varð formaður sóknarnefndar. Á þeim árum þurfti sóknarnefnd að leysa margan vanda og peningaeign sókna mátti teljast engin. Á mínum fyrstu árum voru nánast öll störf fyrir kirkjuna unnin í sjálfboðavinnu. Við Óskar áttum gott og langt samstarf bæði í kirkjustarfinu, skólastarfi og félagslífi staðarins. Soffía, eiginkona hans, var organisti hjá mér í upphafi og lagði fjölskyldan því verulega til safnaðarins. Ég vil hér þakka kærlega fyrir öll þau störf, vináttu og velvild.

Guð blessi Óskar, minningu hans og alla ástvini.

Úlfar Guðmundsson.

Í dag kveð ég vin minn Óskar Þór Sigurbjörnsson. Hann hefur verið í lífi mínu og starfi einn af þeim mönnum sem ég hef borið hvað mesta virðingu fyrir.

Hann starfaði sem kennari og skólastjóri og sat í bæjarstjórn Ólafsfjarðarbæjar um árabil og gegndi þessum störfum af mikill kostgæfni og ábyrgð.

Ég starfaði með Óskari í sóknarnefnd Ólafsfjarðarkirkju í nær aldarfjórðung, þar sem hann var formaður nefndarinnar allan þann tíma. Í því starfi kynntist ég Óskari best.

Á þessum tíma vorum við Ólafsfirðingar svo heppnir að þrír nýútskrifaðir guðfræðingar hófu ævistarf sitt hér í Ólafsfirði. Það var mikil og góð reynsla, ekki síður mikil gæfa, að kynnast þessum mætu mönnum, sem allir reyndust góðir og öflugir þjónar kirkjunnar.

Ótalmargt kallaði á störf nefndarinnar á þessum árum og þar var Óskar í forystu og þegar kom að endurnýjun og stækkun kirkjunnar og safnaðarheimilisins voru störf Óskars við þá framkvæmd ómetanleg. Vil ég minna fólk á það, ekki síst í dag þegar við kveðjum hann. Sú framkvæmd var bæði flókin og vandasöm en ég held að það erfiða verkefni hafi tekist vel og þar á Óskar mestan heiður skilinn.

Þessi hægi, prúði maður, hann Óskar okkar, notaði ekki mörg orð, en lét verkin tala. Störf hans og krafta sem hann hefur lagt fram fyrir bæjarfélag okkar ber að þakka og meta.

En allt hefur sinn tíma eins og þar stendur. Síðustu ár hans hafa verið mjög erfið eftir að hann veiktist af erfiðum sjúkdómi sem hann tókst á við af æðruleysi og þrautseigju. Í þessum veikindum hefur Soffía, hans góða og mæta eiginkona, staðið eins og klettur við hlið hans.

Ég sendi Soffíu, sonum þeirra og öðrum ættingjum samúðarkveðju.

Jón Þorvaldsson.

Hann var kennari minn þegar ég var unglingur og hann var samstarfsmaður síðar, sennilega tuttugu ár.

Það eru óblíð örlög að fá parkinsonsveiki og það var mjög oft erfitt að heimsækja Óskar í seinni tíð því hann átti erfitt með að tjá sig. En alltaf sá maður lífsgleðina í augunum á honum, alltaf sá maður manninn á bak við augun, sem horfðu eins og þau væru skilningsvana en þráðu lífið og sjálfur fór ég út í bíl eftir hverja heimsókn í Aðalgötu og enn síðar á Hornbrekku, og grét þann mann sem ég þekkti einu sinni.

Því ég saknaði mannsins sem ég þekkti. Óskar var perla, stundum hrjúfur í tali og tónum en hver er það ekki, og við vorum ekki alltaf sammála en alltaf þótti mér vænt um hann því honum þótti vænt um bæinn sinn, var síhugsandi, alltaf að velta fyrir sér hvernig betur mætti fara, síkvikur, sílifandi, þótt sjúkdómur tæki yfir líf hans síðustu árin. Það var erfitt, en ekki gat Óskar eignast betri konu en Soffiu, Kleifaskvísuna, sem var ekki bara lífsförunautur frá fyrstu tíð og saman eignuðust þau fjóra frábæra stráka, heldur bjuggu þau til fallegt heimili í Túngötu 10, áttu sitt líf, sinn feril með strákunum sínum, trygg og trú sínum heimabæ sem er meira en ég get sagt, ég sem flutti burt af ákveðnum ástæðum.

Óskar var stór maður í öllum skilningi, maður sem gerði Ólafsfjörð stærri með tilveru sinni og lífsstarfi, hvort sem það var í skólanum eða bæjarstjórn og fyrir það viljum við þakka. Saman voru Óskar og Soffía sterkt afl í mannlífi og skólastarfi Ólafsfjarðar. Saman eiga þau sterka sögu sem nær aftur í ættir. Við Halla þökkum þeim samfylgdina. Við þökkum Óskari allt sem hann gerði fyrir okkur og bæinn okkar gamla. Við vitum að hann átti stóran þátt í að ná Múlagöngum í gegn á sínum tíma, þrátt fyrir óvelvild fjármálaráðherra þess tíma, og minnstu munaði að ríkisstjórn (sem ég kallaði stundum reikistjórn) spryngi þess vegna. Við þökkum Soffíu. Við þökkum strákunum, Óla, Edda, Sigurbirni og Una, sem var æskuvinur Harðar okkar. Fáir menn hafa gert meira fyrir samfélag sitt en Óskar Þór Sigurbjörnsson.

Helgi Jónsson og
Halla Harðardóttir.

„Mínir vinir fara fjöld.“

Óskar er sjötti úr 27 manna hópi sem fermdist í Ólafsfjarðarkirkju á hvítasunnudag 17. maí 1959 til að yfirgefa þessa jarðvist. Þau sem á undan eru gengin eru Kristín Hafdís Kristinsdóttir, Hannes Kristmundsson, Jónína Fannbergsdóttir, Guðrún Magnúsdóttir og Jón Þór Björnsson.

Óskari var afar annt um þessa vini okkar og nefndi nokkrum sinnum að hann hefði viljað gera sitt til að gera minningu þeirra sem hann ekki náði að minnast á sinn hátt betri skil en aðstæður leyfðu. Blessuð sé minning þeirra allra.

Fermingarundirbúningurinn og síðasta skólaárið okkar í firðinum voru síðustu stundirnar sem hópurinn átti allur saman. En þrátt fyrir að leiðir skildi hjá flestum fljótlega eftir það og mörg okkar færu burt til náms eða á vit annarra viðfangsefna hefur hópurinn alloft safnast saman til endurfunda í firðinum góða. Óskar var ómissandi og óþreytandi við að hvetja til og undirbúa þessa fundi. Hann var stálminnugur, mikill fróðleiksbrunnur og sagnamaður hinn mesti. Hann tranaði sér aldrei fram og hreykti sér ekki upp, var einfaldlega best til fallinn að hafa með höndum leiðsögn, rifja upp framvindu og breytingar í firðinum og gamlar minningar þegar hópurinn hittist. Nú er hann horfinn okkur, fallinn fyrir skelfilegum taugasjúkdómi og verður sárt saknað.

Leiðir okkar Óskars lágu saman allt frá bernskuárum. Það mun hafa verið í kringum fimm ára aldur okkar sem foreldrar hans fluttu fjölskyldu sína í Brekkugötu 1 sem afi minn og amma byggðu árið 1923. Ég man eftir mér í þessu húsi frá því að forfeður mínir og frændfólk bjuggu þar og sótti snemma í að heimsækja Óskar til leikja í umhverfi sem var grópað í æskuárin. Leikvangurinn færðist snemma í áttina að fjörunni og á bryggjurnar þar sem gamli hafnarvörðurinn, Grímur í Mó, þurfti ósjaldan að stugga við þessum ungu dorgveiðimönnum sem stunduðu þarna gáleysislegt atferli.

Við vorum ekki gamlir þegar við fórum að elta Mumma Villa verkstjóra á Jökli til að vera viðbúnir þegar hann sneri sér snögglega við, horfði á röðina og kallaði þú, þú og þú, eftir því hve marga gutta hann þurfti til vinnu. Við munum hafa verið 12 ára þegar við vorum fastráðnir starfsmenn á Jökli. Mikil upphefð og sigur þar sem við fengum dýrmæta innsýn í atvinnulífið.

Árgangurinn okkar var óvenju samheldinn og fékk fljótt viðurnefnið englabekkurinn. Má það vafalaust að einhverju leyti þakka frábærum barnakennurum og síðar öflugu æskulýðsstarfi sem efldi með okkur vináttu og lífsgildi sem dugðu okkur vel. Óskar var svo sannarlega einn af þeim sem áttu þátt í að skapa bekknum góða ímynd.

Þótt landfræðileg fjarlægð hafi lengst af verið mikil milli okkar hafa vinaböndin aldrei rofnað. Jóla-, afmælis- og hversdagskveðjur, gagnkvæmar fjölskylduheimsóknir, samvera í fríum og þátttaka í ferða- og vinahópnum Brynjuferðum eru allt skær ljós í minningunni. Ferðahópurinn sem fór árlega í viku ferðalög um hina ýmsu landshluta, oftar en ekki með Óskar og Grétu í skipulags-, fræðslu- og leiðtogahlutverki, hefði ekki kynnst eins miklu af landinu ef þessar ferðir hefðu ekki komið til. Er hópurinn óumræðilega þakklátur Óskari og Grétu fyrir vináttu og samfylgd fyrr og síðar og sendir Grétu og afkomendum og systkinum Óskars innilegar samúðarkveðjur.

Vinur, far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þórleifur Jónsson.

Sáðmaður gekk út að sá.

Hlutverk þeirra sem sinna kennslu og stjórnun fræðslustofnana er í eðli sínu líkt starfi garðyrkjumannsins, sem sáir sæði, hlúir að því, vökvar og passar að illgresið nái ekki fótfestu og bíður uppskerunnar.

Haustið 2004 var ég svo lánsöm að Ólafsfirðingar treystu mér til að verða presturinn þeirra og fyrir árin þar, sem urðu 16, verð ég alltaf þakklát. Fljótlega mættu félagar í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar á prestssetrið og buðu mér á fund. Meðal Rótarýfélaga eignaðist ég gott tengslanet og skemmtilega vini. Í þeim hópi var Óskar Þór Sigurbjörnsson sem þá var hættur að starfa sem skólastjóri og helgaði tíma sinn og krafta meðal annars félagsstörfum. Hann hafði um árabil verið félagi og lagt málefni Rótarýklúbbsins sér að hjarta, verið vakandi yfir framgangi klúbbsins og hvernig félagar gætu stutt við nærsamfélagið með hvetjandi verkefnum. Nýjum félögum tók hann vel og lagði sig fram um að þeir fyndu sig velkomna.

Óskar var kirkjurækinn og lögðu þau hjónin starfi Ólafsfjarðarkirkju lið á margvíslegan hátt. Hann var formaður byggingarnefndar kirkjunnar og árið 2007 var lokið við framkvæmdir við safnaðarheimilið og það vígt síðla árs. Þá var lærdómsríkt að fylgjast með framgöngu Óskars, kynnast því hvað hann var nákvæmur og vandvirkur, framsýnn og úrræðagóður. Hann hvatti okkur stjórnendur kirkjunnar til að horfa til langrar framtíðar varðandi búnað og útlit heimilisins.

Einstakur félagi og vinur var Óskar sem gott var að leita til og þiggja leiðsögn hans. Hann var greindur maður, vel lesinn, viðræðugóður og hafði skemmtilegt skopskyn. Óskar hafði sterka réttlætiskennd og var skoðanafastur.

Í eðli sínu var Óskar sáðmaður og lífssýn hans smitaði út frá sér. Aðstæðum daganna mætti hann með æðruleysi og trú, von og kærleika. Þakklátur var hann fyrir líf sitt, Soffíu og strákana sína og gleðin yfir því að eignast sín eigin barnabörn, hlúa að þeim og sjá þau vaxa úr grasi, gaf honum lífsfyllingu.

Öllum sem Óskari voru kær sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Óskars Þórs Sigurbjörnssonar.

Sigríður Munda
Jónsdóttir.