Fjöldi Íslendinga á hús á Spáni og býr þar stóran hluta ársins eins og minnt hefur verið á í tengslum við forsetakosningarnar. Fjöldi Íslendinga ferðast einnig til Spánar í leit að sól en það er þó aðeins dropi í hafið, því að í fyrra ferðuðust yfir 85 milljónir til Spánar, að sögn Frankfurter Allgemeine. Varð Spánn með þessu vinsælasta ferðamannaland heims og skákaði Frakklandi sem náði titlinum af Bandaríkjunum árið 2017.

Fjöldi Íslendinga á hús á Spáni og býr þar stóran hluta ársins eins og minnt hefur verið á í tengslum við forsetakosningarnar. Fjöldi Íslendinga ferðast einnig til Spánar í leit að sól en það er þó aðeins dropi í hafið, því að í fyrra ferðuðust yfir 85 milljónir til Spánar, að sögn Frankfurter Allgemeine. Varð Spánn með þessu vinsælasta ferðamannaland heims og skákaði Frakklandi sem náði titlinum af Bandaríkjunum árið 2017.

Í umfjöllun þýska blaðsins kemur fram að tekjur af ferðamönnum á Spáni hafi í fyrra vaxið um fjórðung á milli ára og aldrei verið meiri. Ferðageirinn sé „drifkraftur spænska efnahagslífsins.“

Þessu fylgir þó ekki eintóm gleði Spánverja því að gremjan hefur skotið upp kollinum og birtist skýrast í fjölmennum mótmælum á götum úti. Kveikjan að mótmælunum er annars vegar áhrifin á almennt vöruverð og hins vegar, sem líklega veldur meiru, íbúðaskortur fyrir almenning þar sem æ fleiri íbúðir hýsa ferðamenn en ekki innfædda.

Þessar aðstæður eru Íslendingum ekki ókunnar. Hér blandast vaxandi fjöldi ferðamanna saman við langvarandi heimatilbúinn skort á íbúðarhúsnæði. Þann skort má laga með auknum nýbyggingum en mótmælin á Spáni ættu þó að verða Íslendingum til umhugsunar. Ferðamennska eins og annað á sér þolmörk og nær er að reyna að fá hingað færri og betur borgandi ferðamenn en fleiri á afsláttarkjörum.