Sigurður Kjartan Lúðvíksson fæddist 18. ágúst 1948. Hann lést 27. apríl 2024.

Útför Sigurðar fór fram 8. maí 2024.

Góðar minningar fylgja góðum dreng. Við Sigurður eða Siggi Lú, eins og hann var alltaf kallaður, áttum samleið í um 40 ár. Þau samskipti voru í fyrstu við golfiðkun, ótalmargar golfferðir, og fjöldinn allur af golfhringjum hér heima. Frá þessum tíma koma upp í hugann fjölmargar minningar og þá ekki síst í utanlandsferðum okkar, ein góð er þegar Siggi tók skál með eggjahræru sem ætluð var til skiptanna fyrir fjóra og taldi það fyrir einn, það voru gerðar athugasemdir en eftir stendur að eggjahræra kallast eftir það „Lúari“. Siggi var góður golfari og náði tvívegis draumahöggi allra golfara, hann var flottur á velli og bar sig jafnan vel, sama hvað!

Samræður og rökræður voru af ýmsum toga og oft var setið lengi yfir kaffibolla eftir golfhring og yfirleitt fór minnsti tíminn í að ræða nýafstaðinn hring heldur fóru umræður fljótlega um víðan völl, ekkert heilagt í þeim efnum.

Siggi var góður vinur vina sinna, skapgóður og hjálpsamur og yfirleitt til í hvað sem var. Eftir nokkurra ára kunningsskap þróuðust okkar samskipti út fyrir golfiðkun og hann eyddi öllum sínum frítíma eitt vorið við að hjálpa mér við endurbætur á húsnæði fjölskyldunnar, þær stundir eru okkur hjónum ógleymanlegar. Það varð mér síðar sönn ánægja að geta endurgoldið það að hluta. Síðustu árin var golfið minna stundað en þeim mun meira kíkt í kaffi.

Elsku Anna og fjölskyldan öll, við sendum okkar innilegustu samúðarkveðju til ykkar, einstaklega ljúfur og góður vinur hefur nú kvatt okkur, en minningin lifir.

Ásgeir, Gabi og fjölskylda.