Skagafjörður Skólastarfið á Hólum byggist á aldalangri sögu.
Skagafjörður Skólastarfið á Hólum byggist á aldalangri sögu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Samstarfið verður styrkur beggja skóla og eflir landsbyggðina,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum í Hjaltadal. Undirritað var í lok síðustu viku samkomulag um að Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands verði sameinaðir í samstæðu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Samstarfið verður styrkur beggja skóla og eflir landsbyggðina,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum í Hjaltadal. Undirritað var í lok síðustu viku samkomulag um að Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands verði sameinaðir í samstæðu. Slíkt þýðir að gagnvegir verða milli skólanna svo sem í námsframboði. Einnig er horft til þróunar námsgreina með áherslu á þarfir atvinnulífs og samfélags, samþættingar prófgráða, aukinnar þjónustu, aðferða við kennslu og rannsóka.

Háskólaráðuneytið segir að samstæða sé í átt að sameiningu skóla, þó að stórt skref sé ekki stigið nú. Sameiginlegt háskólaráð verður þó fyrir báða skóla þar sem rektor HÍ gegnir formennsku. Áfram verður þó sinn rektorinn í hvorum skóla og með þessu fá þeir svigrúm til vaxtar umfram það sem hægt hefði verið með óbreyttu fyrirkomulagi. Kapp verður lagt á að hvor háskóli og hver stofnun innan samstæðunnar haldi sinni sérstöðu og styrkleikum.

Kjarnasvið Háskólans á Hólum eru fiskeldi, ferðaþjónusta og hestafræði. Hólmfríður segir að nemendum nyrðra bjóðist með samstarfinu nú nýir möguleikar til fjölbreyttara náms. Akkur geti verið til dæmis í því fyrir þá sem nema ferðamálafræði eða hestamennsku að bæta við sig viðskiptagreinum við HÍ. Nám í umhverfisfræðum geti einnig komið til greina. „Möguleikarnir eru annars í báðar áttir. Nemendur í HÍ geta líka sótt að Hólum eins og nám í fiskeldi sem ekki er við aðra háskóla,“ segir Hólmfríður.

Fram undan er á Hólum frekari uppbygging sérhæfðrar kennslu og rannsóknaaðstöðu fyrir hesta- og ferðamálafræðinám. Einnig verður farið í framkvæmdir á Sauðárkróki, þar sem fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans er með aðstöðu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson