Stella Breiðfjörð Magnúsdóttir fæddist í Stykkishólmi 17. nóvember 1940. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 8. maí 2024.

Foreldrar Stellu voru Gróa Elínborg Jóhannesdóttir, f. 11.10. 1901, d. 12.7. 1963, og Magnús Bjarnason, f. 6.8. 1914, d. 16.8. 1995.

Systkini Stellu sammæðra voru Sigrún Elívarðsdóttir, f. 14.7. 1922, d. 23.12. 2011, Vilhjálmur Hákon Elívarðsson, f. 18.12. 1925, d. 17.5. 1972, Klara Elívarðsdóttir Hansen, f. 24.6. 1928, d. 11.10. 2004, Elín Elívarðsdóttir, f. 6.9. 1930, d. 13.9. 2015, Vilberg Alexandersson, f. 30.9. 1937, d. 23.1. 2019, og uppeldisbróðir er Fjölnir Sigurjónsson, f. 26.11. 1949.

Systkini Stellu samfeðra eru Marta Magnúsdóttir, f. 5.11. 1938, Ingibergur Magnússon, f. 25.7. 1950, og Kristín María Magnúsdóttir, f. 26.11. 1951.

Stella giftist Aage Nielsen, f. 30.10. 1937, d. 22.3. 1992, þann 29.6. 1963.

Börn þeirra eru: 1) Ólafur Pétur Nielsen, f. 1.7. 1961, eiginkona hans er Sakorn Seedathong, þau eru búsett í Danmörku. Fyrir átti Ólafur börnin Dagmar Maríe, f. 1984, og John Aage, f. 1986. 2) Agnar Þór Nielsen, f. 4.4. 1965, búsettur í Bandaríkjunum. 3) Díana María Burr Nielsen, f. 14.10. 1967, eiginmaður hennar er Harold Burr, barn þeirra er Kenya Mist, f. 2003, fyrir átti Díana börnin Birgittu Ýri, f. 1985, og Ottó Aage, f. 1992.

Langömmubörnin eru Keanu Reyr, Oscar Peter, Philip Aage, Ella Sofia og Majla.

Stella var fædd og uppalin í Stykkishólmi og flutti ung að árum til Reykjavíkur. Stella vann ýmis störf í gegnum tíðina en lengst af starfaði hún hjá Ikea eða í 30 ár og lauk þar störfum 2020, árið sem hún varð 80 ára.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 27. maí 2024, klukkan 13.

Elsku mamma, tengdamamma, amma og langamma.

Það er sárt að sakna en sorgin var áður okkar gleði. Og það ætlum við að muna því að þú geislaðir af jákvæðni, varst óendanlega hjálpsöm við alla í kringum þig án þess að vilja þiggja hjálp eða aðstoð sjálf. Það að vera sjálfstæð var þitt lífsmottó og þú fannst leiðir til þess að íþyngja ekki neinum vegna þess að þeir hefðu meira en nóg á sinni könnu. Síðustu tvö árin hafa reynst þér og okkur þung, baráttan sem sofnaði ekki á verðinum og á endanum þurfti að lúta höfði fyrir en ekki án jákvæðs hugarfars og þrjósku sem kom að góðum notum þar. Og vegna þessa þá vorum við viss um að hafa þig hjá okkur lengur og oft var grínast með það að illgresi væri nú ekki auðvelt að losna við og þú værir þaulsætin eins og það. Þú varst í þínu besta umhverfi þegar kom að samskiptum við aðra, blómstraðir í góðra vina hópi og fólk laðaðist að þér því að jákvæðnin og brosið var smitandi. Vegna þessa varð samstarfsfólk að vinum og tengslum sem entust þína ævi á enda og umtöluð einlæg þjónustulund sem fáir geta státað af.

Fallega og kurteisa amman sem ávallt var elegant og smekkleg, hvort sem það var að fara í systrakaffi hjá Frímúrurum eða upp á spítala, þá varstu tipp-topp eins og við köllum það. Þú vildir hafa hlutina í röð og reglu, snyrtilegt og hreint.

Barnabörnin og langömmubörnin hafa fengið ómælda ást og umhyggju, knús og kossa sem þau sakna núna en fylgir þeim ævina á enda.

Við kveðjum þig bara í bili og þökkum hjartanlega fyrir tíma liðna.

Ólafur Pétur, Sar, Martha, Dagmar Marie, John Aage, Claus, Nina, Oscar Peter, Philip Aage, Ella Sofia og Majla Thala.

Megi lífsins vegur von þér gefa

hver varða sýna þér

að þú munt rata ljóssins leið án efa,

þá leið sem fegurst er.

Megi dagsins birta frið þér færa

og faðma hvert eitt sinn,

megi ávallt lífsins ljósið skæra

leiða huga þinn.

Megi sólin eilíft á þig skína

sem ást um himingeim.

Megi innra ljós þér lífið sýna

og lýsa veginn heim.

(Kristján Hreinsson)

Ég hvísla að þér góða heimkomu elsku mamma, í fang ástvina sem á undan eru farnir. Hugurinn bar þig alla leið í þínum óvæntu veikindum, aldrei bar á uppgjöf þrátt fyrir að brekkan væri oft brött á leiðinni.

Með einskærum vilja, sjálfstæði og jákvæðni náðir þú að snúa upp á tímann og fara lengri leiðina heim. Þú barst höfuðið hátt, stolt, sterk og einbeitt, með hjarta ljónsins. Þín eigin valkyrja.

Þú varst ekki búin með listann þinn og með hugann við þegar betri tímar kæmu. Eða eins og frægasta orðatiltækið þitt segir: Þetta lagast allt þegar ég gifti mig!

En planið var stærra og meira en við, og nú þegar ég lít um öxl finnur hjartað fyrir ómetanlegu þakklæti fyrir að hafa gengið síðasta spölinn þinn saman, hönd í hönd, mamma og dóttla.

Stolt dóttir heyrir fallegar sögur af einstakri og einlægri vináttu, stutt í brosið og gleðina, af bestu systur og verndara, af skemmtilegasta og þjónustusamasta starfskraftinum. Ofurstór spor að fylla í en veit að ég er á réttri leið því þú hvíslaðir að mér hversu stolt þú værir af mér áður en þú fórst. Fallegustu kveðjuorðin.

Ég veit að pabbi, amma, Rökkvi, Bella og allir hinir halda núna utan um þig þegar við getum það ekki lengur og nú getur þú dansað inn í nóttina.

Orð ná ekki utan um allar minningarnar. Heldur ekki utan um framtíðina án þín. Stend mig að því að ætla að hringja í þig oft á dag til að segja þér frá deginum eða hversu lánsöm ég er með fjölskylduna mína, vini og samstarfsfélaga á ögurstundum, mínir klettar, en ég veit að þú veist.

Við munum fara upp í bústað, spila yatzy og horfa á criminal – þér til heiðurs.

Við fjölskyldan þín þökkum fyrir allt og allt, án þín værum við ekki einu sinni á okkar leið. Við vitum að þú munt lýsa okkur leiðina, því eins og nafnið þitt segir þá ertu stjarna og við munum horfa upp í leit að nýjustu og skærustu stjörnunni á himninum.

Við blásum til þín fingurkossi og segjum sjáumst seinna elsku mamma litla.

Þín dóttir,

Díana María (dóttla), Harold og Kenya Mist.

Elsku amma Stella okkar.

Það hefur verið síðan þú kvaddir og mun alltaf vera sárt að sakna þín, það var alltaf svo gaman að spjalla við þig, ég gerði mig tilbúinn fyrir símtölin við þig því þau urðu oftast löng og við höfðum alltaf eitthvað að tala um, ég mun sakna þess mikið. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og okkur, með ráð við flestu og skoðanir á öllu. Þú varst svo montin af langömmugullunum sem komu inn í líf okkar, leiðinlegt hvað þú fékkst að njóta þeirra stutt og þau þín. Við munum alltaf passa að minning þín lifi hjá Jóhönnu og Styrmi. Við vitum að þú vakir yfir okkur.

Ottó Aage, Guðrún Ósk, Jóhanna María
og Styrmir Örn.

Elsku Stella.

Þau voru fljót að líða þessi tvö ár síðan þú greindist með krabbameinið. Við ætluðum að gera svo margt skemmtilegt saman, fara bæði austur og norður að heimsækja fólkið okkar, en því miður náðum við því ekki. Þú tókst veikindum þínum með svo miklu æðruleysi og varst ekkert að ræða um það sem framundan væri.

Það er erfitt að hugsa til þess að ég eigi ekki eftir að sækja þig í Bólstaðarhlíðina og skreppa í heimsóknir eða bara fara í Hamrahlíðina til mín og fá okkur eitthvað gott að borða og spjalla saman sem við gerðum svo oft. Strákarnir mínir kynntust þér vel og varst þú í miklu uppáhaldi hjá þeim öllum. Þeir eiga eftir að sakna þess mikið að hitta þig ekki framar.

Við vorum ekki bara systur heldur líka bestu vinkonur. Við ólumst ekki upp saman, því ég var 18 ára þegar við kynntumst, en samt urðum við svo nánar og aldrei bar skugga á okkar vinskap. Það lýsir þér best þegar þú varst sem veikust, að vorkenna mér að hafa misst Önnu mágkonu og Ingu systur á svo stuttum tíma, og svo væri farið að styttast í að þú færir líka. Eitt veit ég þó að það hefur verið vel tekið móti þér í sumarlandinu.

Elsku Stella, mikið á ég eftir að sakna allra góðu stundanna okkar saman, en minningin lifir. Elskulega systir, með söknuði kveð ég þig og hafðu þökk fyrir allt.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Þín systir,

Kristín María.

Nú hefur Stella ömmusystir mín í föðurætt kvatt okkur. Stella var yndisleg kona sem gaf mikið af sér og var ávallt góð við mig og fólkið mitt. Hún passaði að halda sambandi og rækta tengslin þrátt fyrir æ meiri hraða í lífi fólks og þótt stundum væri langt á milli fólks landfræðilega séð.

Fyrstu minningar mínar um Stellu eru frá Oddshúsi á Bókhlöðustígnum í Stykkishólmi þar sem ég heimsótti Klöru ömmu sem barn. Í því húsi fannst mér alltaf ríkja ró þar sem þær systur sátu í eldhúsinu við gömlu eldavélina. Ég man hvað mér þótti þær líkar, báðar svo nettar en virðulegar konur.

Þar sem faðir minn lést þegar ég var mjög ungur þá hafa tengsl mín við föðurfjölskyldu mína markast mikið af þessum tveimur konum, Stellu og Klöru ömmu. Þær höfðu oft samband, og Stella oftar eftir að amma dó. Hún hringdi stundum eða kom við í vinnunni hjá mér til að athuga hvernig gengi með börnin og lífið almennt en einnig til að bera fréttir af börnunum sínum og barnabörnum sem nú búa erlendis. Samband mitt við Stellu var mér afar kært og hennar verður sárt saknað. Ég hitti hana í síðasta sinn fyrir um mánuði og þá náði ég að kynna hana fyrir nýjasta fjölskyldumeðlimnum, barnabarni mínu Haraldi Tryggva Agnesarsyni Hansen. Ég vona að sú heimsókn hafi fært Stellu sömu gleði og hlýju og hún gerði okkur.

Stella vann í áratugi hjá IKEA og þar hittum við hana fyrir í næstum hvert skipti sem skroppið var í verslunarleiðangur. Alltaf gaf hún sér tíma til að spyrjast fyrir um fjölskylduna en líka til að veita góð ráð við innkaupin fyrir heimilið.

Ég votta fólkinu hennar innilega samúð mína.

Jóhann Ágúst Hansen.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

Hún hafði ásjónu engils

sem frá stafaði ilmur

umhyggju og vináttu,

ástar og kærleika.

Hún var farvegur kærleika Guðs,

kærleika sem ekki krafðist endurgjalds.

Hún var vitnisburður

um bestu gjafir Guðs,

trúna, vonina, kærleikann og lífið.

Blessuð sé minning einstakrar perlu.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Hvíl í friði, elsku Stella.

Alda Helgadóttir
og fjölskylda.