Bessastaðir Búið var að senda út í kringum 11 þúsund kjörseðla á 200 staði víðs vegar um heiminn svo Íslendingar erlendis gætu kosið nýjan forseta.
Bessastaðir Búið var að senda út í kringum 11 þúsund kjörseðla á 200 staði víðs vegar um heiminn svo Íslendingar erlendis gætu kosið nýjan forseta. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við finnum fyrir miklum áhuga á forsetakosningunum,“ segir Sigurlína Andrésdóttir, sérfræðingur hjá íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, en flestir Íslendingar erlendis búa í Danmörku. „Það hefur sérstaklega aukist þátttakan núna í vikunni en hún hefur aukist jafnt og þétt. Það eru 800 manns búnir að kjósa hjá okkur í Kaupmannahöfn, og þar af kusu 200 á opnum degi á laugardaginn. En við erum ekki komin með nákvæmar tölur frá kjörræðismönnum enn, en ég myndi halda að það séu allavega komnir 150 í viðbót,“ bætir hún við.

Margir kusu um helgina

Sigurlína segir að áhuginn á þessum forsetakosningum komi líka fram í því að það hafi talsvert mikið verið hringt í sendiráðið til að spyrja um kosningarnar. „Það er svolítið um að fólk hafi verið að hringja sem hefur búið hér lengi og athuga hvort það sé á kjörskrá.“

Breytt kosningalög tóku gildi 1. janúar 2022, en þar voru reglur rýmkaðar þannig að fólk gat kosið þótt það hefði búið erlendis í allt að 16 ár, en var áður 8 ár. Hins vegar eru lögin þannig að ef fólk hefur búið í 16 ár erlendis og hefur fallið af kjörskrá, þá þarf að sækja sérstaklega um rétt til að kjósa og það þarf að gerast fyrir 1. desember árið á undan. En það var ekki hægt í þessu tilfelli þar sem ekki var vitað að Guðni Th. Jóhannesson myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

„En við finnum mikinn áhuga á kosningunum frá ungu fólki, sem er ofboðslega jákvætt,“ segir Sigurlína.

Færri kosið í Noregi

Í Noregi er sama staða ekki uppi á teningunum. „Í síðustu forsetakosningum 2016 var þátttakan í sendiráðinu í Osló hátt í 400 manns en nú hafa 170 kosið,“ segir Karí Jónsdóttir, sérfræðingur hjá sendiráðinu í Osló. Hún segir Íslendinga í Noregi mjög dreifða um landið og það gæti hugsanlega verið skýring á minni áhuga en í Danmörku. „Við lögðum til núna að fólk myndi kjósa fyrrihlutann í maí, því póstþjónusta hefur verið talsvert erfið milli landa og hefur ekki lagast mikið.“

Rétt fyrir helgi höfðu 87 kosið í sendiráði Íslands í Berlín, en engar tölur voru þar komnar frá kjörræðismönnum í umdæmi sendiráðsins.

Í London voru 112 manns búnir að kjósa fyrir helgi og sagði Brynja Jónsdóttir sendiráðsfulltrúi að þátttakan hefði aukist síðustu tvær vikurnar.

Astrid Helgadóttir, ræðismaður Íslands á Spáni, sagði að hún fyndi fyrir meiri áhuga á kosningunum núna heldur en fyrir fjórum árum. „Ef ég miða við síðustu forsetakosningar er meiri stemning fyrir þessum kosningum núna. Það er mikið af ungu fólki hér í Barcelona og margt námsfólk og sá hópur er duglegastur að kjósa, og ég myndi skjóta á að um 65% sem hafa kosið hér séu fædd 1990 eða yngri. Það eiga enn nokkrir eftir að kjósa en fyrir helgi voru rúmlega 40 búnir að kjósa í Barcelona.“

Meiri áhugi vestanhafs

„Ég tek eftir því að það er meiri áhugi á kosningunum núna heldur en 2016,“ segir Ásdís Hreinsdóttir, yfirmaður ræðis- og áritunardeildar sendiráðs Íslands í Washington í Bandaríkjunum.

„Í sendiráðinu í Washington 2016 kusu 17 manns, og 2020 kusu 12 manns, en núna fyrir helgi voru 40 búnir að kjósa, svo það er mun meiri áhugi núna. Þetta eru bara tölurnar frá sendiráðinu,“ segir Ásdís en bætir við að hún viti að það séu einnig 40 búnir að kjósa í New York. Það eru ekki komnar tölur frá 20 kjörræðisfulltrúum en við höfum heyrt að það sé mikill áhugi á forsetakosningunum, sérstaklega í Seattle, Los Angeles, San Francisco og Minneapolis,“ segir Ásdís og bætir við að hún viti að a.m.k. 22 hafi verið búnir að kjósa í Seattle í síðustu viku.

Ásdís segir að meðalaldur kjósenda í Washington sé í yngri kantinum, eða frá 25-45 ára. „Svo er sendiráð Íslands í Washington með umdæmi í Brasilíu, Argentínu, Chile og Mexíkó, en við heyrðum að það væru tveir búnir að kjósa í Brasilíu. En það verður kallað eftir tölum eftir kosningar, svo þetta eru allt óstaðfestar tölur frá kjörræðismönnunum. En þetta er allt rafrænt í sendiráðunum sjálfum, svo við sjáum tölurnar strax þar.“