Hrannar Daði Þórðarson fæddist 1. febrúar 2006. Hann lést 2. maí 2024.

Útför hans fór fram 17. maí 2024.

Elsku Hrannar Daði frændi okkar.

Þegar við hittum þig fyrir tæplega þremur vikum grunaði okkur ekki að það væri í seinasta skipti sem við sæjum þig. Ef heimurinn væri sanngjarn hefði líf þitt átt að vera að byrja en ekki enda. Þrátt fyrir þitt stutta líf náðir þú að setja þitt mark á líf þeirra sem voru í kringum þig. Þú varst fyrirmyndardrengur og kenndir okkur öllum eflaust meira en við þér. Þú varst ljúfur, hjartahreinn, ábyrgðarfullur, umhyggjusamur, kappsamur, ævintýragjarn, tillitssamur og kurteis. Þú hafðir augljóslega gaman af því að vera með frænkum þínum þótt þær væru allar yngri og tókst þátt í feluleikjum og öðru. Þú tókst hlutverk þitt sem elsti frændinn alvarlega og passaðir upp á að hlutirnir færu ekki yfir mörkin og að enginn meiddist.

Þú varst líka alltaf til í að koma með okkur í ýmsar ferðir eins og t.d. á Árbæjarsafn og í hellaskoðun. Þar sást könnuðurinn og forvitnin í þér því þú varst alls ekki hræddur við að vaða inn í dimman hellinn.

Þú varst með allar nýjungar á hreinu og þegar við fórum með þér í frísbígolf, sem við höfðum ekki heyrt um áður, kenndir þú okkur á það og sagðist ætla að klára alla frísbívelli á landinu.

Við erum mjög þakklátar fyrir að þú og fjölskyldan komust í ferminguna á síðasta ári og vitum að þú hvattir til þess þrátt fyrir vonda færð.

Þótt þú hafir verið jarðbundinn er ekki víst að þú hafir komið af þessari jörðu.

Nú ertu vonandi kominn heim meðal stjarnanna.

Heiðdís Þóra Snorradóttir, Bergþóra Líf Heiðdísardóttir.